When survivors give birth

When survivors give birth er yfirtitill á bók og fyrirlestri eftir Penny Simkin og umfjöllunarefnið er hvaða áhrif það hefur á barneignarferli kvenna að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Penny var með fyrirlestur 21. apríl 2015 á Íslandi, einmitt í Lygnu og mig langar að deila með ykkur aðeins frá þeim degi.

Smá útúrdúr, survivor finnst mér vera gott og eflandi orð. Það er einhver sem lifir af, kemst af eða stendur uppi sem sigurvegari. Orðið nær fallega og valdeflandi utan um erfiða og sára reynslu. Mér er ekki kunnugt um annað orð í íslensku en þolandi sem er jú vissulega lýsandi fyrir það að viðkomandi hefur þurft að þola eitthvað en gefur ekki þessa von eða eflingu. Mig langar því að finna eitthvað gott orð sem er jafn skýrt og þolandi en fallegt og eflandi eins og survivor.

Það er erfitt að alhæfa um hvernig fæðingarreynsla kvenna verður, enda er um stóran og ólíkan hóp kvenna að ræða. Við vitum þó að fæðingarreynslan hefur mótandi áhrif á líf okkar og hún getur verið eflandi og hún getur gert okkur viðkvæmari.

Sumar konur sem upplifað hafa kynferðisofbeldi lýsa fæðingunni sem hluta af batagöngu, sigri sem tengir þær sjálfri sér meðan aðrar upplifa hana neikvæðari og jafnvel þannig að þær endurupplifi tilfinningar tengdar ofbeldinu.

Penny Simkin dregur fram nokkur atriði sem hjálpa konum að komast í gegnum fæðinguna sína á sem jákvæðastan hátt. Þetta plan kemur held ég öllum konum til góða:

– Fæðingaráætlun

Það getur verið sérstaklega hjálplegt að skrifa fæðingaráætlun, hafa hana persónulega og nefna hvað skiptir mann máli í fæðingunni, það getur verið gott að setja fram hvað hjálpar konu í erfiðum aðstæðum, hvað minnkar streitu og áhyggjur og hvernig gera megi aðstæður sem vinalegastar.

Það getur verið sérlega hjálplegt fyrir alla ef kona treystir sér til að skrifa um ótta sinn og áhyggjur og af hverju hann stafar. Það hjálpar öllum, stuðningsfólki og heilbrigðisfólki í að vera enn nærgætnara og skilningsríkara. Ef til dæmis ákveðin snerting eða ákveðin orð valda vanlíðan að koma því á framfæri svo fólkið í umhverfinu viti hvernig það getur stutt og styrkt.

– doula

Það er mjög styrkjandi að hafa einhvern sem er þarna bara fyrir ykkur og þekkir óskir ykkar og væntingar vel. Doula er svona eins og einkastarfsmaður fæðandi konu og styður ykkur í gegnum ykkar ferli. Doulur eru stuðningskonur fjölskyldunnar, starfa aðeins fyrir hana og fylgja konum samfellt í gegnum fæðinguna.

– núvitund

Penny talar alveg sérstaklega um að það sé mikilvægt fyrir konur að finna styrkinn í því að vera á staðnum að upplifa það sem þær eru að upplifa þ.e. fæðinguna og hvernig hún er. Meðan kona nær að halda fókus á að vera í fæðingu og vera við stjórnvölinn eru minni líkur á að hún endurupplifi erfiðar minningar og aðstæður. Margar konur hafa fundið leið til að lifa af ofbeldið með því að fjarlægjast sjálfum sér, flýja úr líkama sínum og vera fjarverandi þannig að þær finna lítið tengingu milli huga og líkama. Sú tækni var mjög mikilvæg þá en í fæðingu er gott að reyna að halda sér í núvitundinni til að minnka líkur á endurupplifun og panik og að fæðingarreynslan verði ekki svipuð minning og minningin um ofbeldið.

– æfð sjónræn hugleiðsla

Það getur verið gagnlegt á fyrstu stigum fæðingarinnar að hugsa um tíma þar sem manni leið vel, draga fram minningu eða viðburð sem var góður og minningin yljar manni og sjá hana fyrir sér. Það getur verið tími með maka þar sem allir voru ánægðir og afslappaðir, minning úr æsku eða staður þar sem maður er öruggur á. Mörgum finnst gagnlegt að sjá fyrir sér þessa minningu í gegnum hverja hríð í upphafi fæðingar.

Þegar komið er í virka fæðingu og framgangurinn er meiri og reynir á mann getur verið gott að hugsa um atburð þar sem maður komst yfir ákveðna hindrun eða áskorun. Það getur verið líkamleg áskorun eins og að hlaupa maraþon eða þegar maður yfirstígur ákveðinn ótta sem hefur hindrað mann. Þessi æfing getur verið hvetjandi í fæðingunni og komið konu í gegnum erfiðar áskoranir.

– að finna stjórnina

Það er mörgum konum mjög mikilvægt að finna að þær séu alltaf við stjórn í öllum aðstæðum, það veitir þeim öryggi og vellíðan og þannig ná þær að koma sér í gegnum erfiðar aðstæður. Það getur verið gott að átta sig á því í hverju sú tilfinning felst, hvernig er hægt að viðhalda henni og ákveða að ef aðstæður eru þannig að þá er hægt að ákveða að missa stjórnina og hafa þannig stjórn á stjórnleysinu ef svo má að orði komast.