7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.

Gagnsemi doula- rannsóknir

Rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi doula

Þrátt fyrir að doulur séu til þess að gera ný starfstétt hafa verið gerðar margar rannsóknir sem sýna fram á gildi þeirra og gagn.

Doulur eru stuðningskonur á meðgöngu og í fæðingu og sængurlegu doulur styðja svo konur fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Doulur veita stuðning en bera ekki klíníska ábyrgð og eru ekki heilbrigðisstarfsmaður. Starf þeirra er samfellt, það er sama doulan er með sömu fjölskyldunni alla fæðinguna. Ekki má heldur ekki gleyma að doulur vinna fyrir báða foreldra og styrkja maka í fæðingarferlinu og koma ekki í staðinn fyrir maka eða taka yfir þeirra hlutverk. 

En að rannsóknunum. Árið 2012 voru birtar niðurstöður frá Cohraine database þar sem teknar voru saman 22 rannsóknir þar sem meira en 15.000.- konur voru þátttakendur. (Fyrst birt árið 2013)

Stuðningurinn sem konurnar fengu var ólíkur, í einhverjum tilfellum var það stuðningur frá starfsfólki spítalans, svo sem ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi, stuðning frá konum (doulum) sem voru ekki starfsmenn spítalans eða í félagsneti móður (sem væri mamma eða vinkona)  og svo stuðning frá maka eða einhverjum í félagsneti konunnar svo sem ættingi/vinur.

Konurnar sem fengu samfelldan stuðning doulu í gegnum fæðingu voru líklegri til að fæða spontant eða án inngripa eins og áhalda eða keisara og það voru minni líkur á að þær þyrftu verkjalyf. Aukreitis var fæðingin örlítið styttri hjá þeim sem voru með doulur og barnið skoraði almennt hærra á Apgar-skalanum. Engar aukaverkanir fundust, sem er auðvitað mjög ánægjulegt. Sumir hópar innan rannsóknanna komu svo enn betur út t.d. konur í áhættumeðgöngu. Konur sem fengu stuðning doulu voru mun líklegri til að vera ánægðar með fæðinguna sína og mun minni líkur á að þær upplifðu sig ekki við stjórnvölinn og ,,stjórnlausar“ í fæðingu. 

Út frá þessum niðurstöðunum er mælt með að allar konur hafi samfelldan stuðning í gegnum fæðingu frá doulu, s.s. stuðning frá manneskju sem er viðstödd eingöngu til að styðja við fæðinguna og hefur reynslu af fæðingarhjálp og tilheyrir ekki félagsneti manneskjunnar né heldur spítalanum.

Árið 2009 gerði Hrafnhildur Margrét ljósmóðir lokaverkefni sitt um hlutverk doula og ljósmæðra, og talaði við tvær konur sem höfðu notið þjónustu doulu, þær konur voru afskaplega ánægðar með þá þjónustu sem þær fengu. Inni ritgerðinni segja konurnar sem talað var við um douluna sína ma. að hún hafi verið ,,mikill stuðningur við pabbann“ og að hún hafi ,,verið með einstaka nærveru“. Konurnar sem talað var við voru líka mjög ánægðar með ljósmæðurnar aðstoðuðu þær og upplifðu að þær hefðu fengið góðan alhliða stuðning.

Kristún Heiða tók svo viðtal við mig og tvær konur sem höfðu notið þjónustu minnar fyrir nokkru og þær höfðu jákvæða sögu að segja. Töluðu um að doulur væru kjölfesta og að undirbúningurinn hefði verið persónulegur og að það hefði myndast teymi.

Fyrir nokkru voru tekin viðtöl við nokkrar konur sem hafa notið stuðnings doula á Íslandi og vonandi fáum við að sjá niðurstöður úr því fljótlega en fjölskyldurnar sem talað var við voru mjög ánægðar og gaman að fylgjast með því þegar grein og niðurstöður verða kynntar.

 

 

Ótti sem fylgir fæðingu

Flest allar konur finna einhvern ótta, einhverja hræðslu bærast innra með sér þegar þær eiga von á barni. Óttinn getur verið léttvægur og bara svona flögrað að manni sem eitt lítið ,,ef” sem ekki stoppar í huga okkar en stundum er hræðslan við fæðingu óyfirstíganleg og svo mikil að hún hefur hamlandi áhrif á líf konunnar .  Undanfarin ár hefur verið talað um að ótti við fæðingar hafi aukist til muna og sagt að í raun hafi konur aldrei verið jafn hræddar við komandi fæðingar, sem sumum þykir skjóta skökku við nú þegar (amk á Íslandi) tölfræðileg fæðingarútkoma er mjög góð.


Ótti er í raun ekkert óeðlilegur og getur verið hjálplegur, ef hann er innan marka. Ótti getur ýtt okkur af stað í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar eins og ákveða fæðingarstað og hafa hlutina klára fyrir fæðinguna. Verandi varkár erum við með verndareðlið vakandi og þannig sjáum við til þess að við leitum öryggis í fæðingu og gætum öryggis barnsins okkar. Það er eitthvað fallegt við það.

Þegar við eigum von á barni, berum við lífssöguna okkar inn í ferlið. Svo allt sem hefur mótað okkur og þroskað og er með okkur í daglegu lífi hefur líka áhrif á meðgönguna okkar og mótar sýn okkar á fæðinguna (og hvernig hún verður). Lífssöguóttinn okkar er því æði ólíkur frá einni konu til annarrar.

Hinsvegar deila konur sumum ótta. Til dæmis nefna flestar konur, hvaðan sem þær eru í heiminum, að þær hafi velt því fyrir sér hvort þær muni lifa fæðinguna af. Ég man eftir því að þessi hugsun hafi flögrað í gegnum huga minn á meðgöngunum mínum, ,,hvað ef ég dey?”. Ég man líka að hugsunin dvaldi ekki lengi með mér heldur eitt af mörgum atriðum sem fóru í gegnum huga minn.
Ég held að þetta sé mjög frumstæð tilfinning sem er grafin djúpt í bein okkar og frumur og við komumst ekki hjá því að leiða hugann að því hvað ef. Í sögulegu samhengi, í gegnum aldanna rás, hafa konur ekki getað gengið út frá því að lifa fæðinguna sína af. Mæðradauði var hluti af raunveruleika fólks og er mjög raunverulegur víða um heim ennþá. Við á Íslandi búum bara við þann munað að hann þekkist varla hér en tilfinningin situr með okkur. Því er svo gott að muna að ótti er bara tilfinning sem ekki þarf alltaf að trúa og við getum minnkað hann en líklega ekki látið hann hverfa.

Margar konur finna rétt undir lok fæðingar fyrir tilfinningu um að þær séu að deyja, muni ekki lifa fæðinguna af og það getur verið ansi uggvænlegt að upplifa það. Michel Odent, fæðingarlæknir sem nú er kominn á eftirlaun kallar þennan tíma eða þessa upplifun ,,fetus ejection reflex.” Það lýsir sér þannig að konan finnur skyndilega ótta hellast yfir sig og tjáir sig oft um hann með því að t.d. að öskra eða hrópa upp yfir sig að hún sé að deyja, geti ekki fætt barnið eða vilji deyja. Þegar reflexið kemur yfir konur á örstuttri, en eftirminnilegri stundu, er hormónaflæðið að aukast til muna, meðal annars adrenalín svo yfirleitt koma nokkrir sterkir og mjög öflugir samdrættir eftir þessi viðbrögð. Upp úr þessu viðbragði er sem konan komi aftur til sín full af orku og líklega hefur hún vilja og löngun til að rétta úr sér eða skipta um stellingu svo barnið eigi greiðari leið um fæðingarveginn. Rétt eins og þegar hlauparar sjá lokatakmarkið fá þeir aukakraft og geta gefið aðeins í.

Eðlilegur ótti er hluti af lífinu og þó við höfum tilhneigingu til að forðast flest sem er óþægilegt er betra að reyna að horfast í augu við hann. Oft er besta vopnið sem við höfum að greina óttann og gefa athygli. Því þannig náum við oft að beisla óttann og koma honum í farveg sem þarf eða getum skilið hann eftir fyrir það sem hann er. Tilfinning sem ekki þarf alltaf að bregðast við.

 

Rebozo í fæðingu

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem doula tók ég ástfóstri við rebozo, ég fer helst ekki í fæðingu án þess að hafa það með í töskunni. Stundum er það þar ósnert en oft tek ég það upp og það hefur margsannað gildi sitt. Það getur róað, nuddað og flýtt fæðingarferlinu. Ekki það, ég hef jafnoft ekki tekið það upp úr töskunni minni og stundum hreinlega gleymt því heima. Rebozo er dásamlegt þegar það á við.
Ég tók saman nokkur myndbönd sem sýna ágætlega hvernig er hægt að nota rebozo í fæðingu.

Hér er stutt myndband um hvernig rebozo getur stutt við mjaðmir á meðgöngu og í fæðingu.

Þá er hér myndband um hvernig er hægt að nota rebozo í spítalarúminu

Hér er svo myndband af Naoli Vinaver sem er mikill frumkvöðull í að kynna rebozo,

 

 

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.

 

 

 

When survivors give birth

When survivors give birth er yfirtitill á bók og fyrirlestri eftir Penny Simkin og umfjöllunarefnið er hvaða áhrif það hefur á barneignarferli kvenna að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Penny var með fyrirlestur 21. apríl 2015 á Íslandi, einmitt í Lygnu og mig langar að deila með ykkur aðeins frá þeim degi.

Smá útúrdúr, survivor finnst mér vera gott og eflandi orð. Það er einhver sem lifir af, kemst af eða stendur uppi sem sigurvegari. Orðið nær fallega og valdeflandi utan um erfiða og sára reynslu. Mér er ekki kunnugt um annað orð í íslensku en þolandi sem er jú vissulega lýsandi fyrir það að viðkomandi hefur þurft að þola eitthvað en gefur ekki þessa von eða eflingu. Mig langar því að finna eitthvað gott orð sem er jafn skýrt og þolandi en fallegt og eflandi eins og survivor.

Það er erfitt að alhæfa um hvernig fæðingarreynsla kvenna verður, enda er um stóran og ólíkan hóp kvenna að ræða. Við vitum þó að fæðingarreynslan hefur mótandi áhrif á líf okkar og hún getur verið eflandi og hún getur gert okkur viðkvæmari.

Sumar konur sem upplifað hafa kynferðisofbeldi lýsa fæðingunni sem hluta af batagöngu, sigri sem tengir þær sjálfri sér meðan aðrar upplifa hana neikvæðari og jafnvel þannig að þær endurupplifi tilfinningar tengdar ofbeldinu.

Penny Simkin dregur fram nokkur atriði sem hjálpa konum að komast í gegnum fæðinguna sína á sem jákvæðastan hátt. Þetta plan kemur held ég öllum konum til góða:

– Fæðingaráætlun

Það getur verið sérstaklega hjálplegt að skrifa fæðingaráætlun, hafa hana persónulega og nefna hvað skiptir mann máli í fæðingunni, það getur verið gott að setja fram hvað hjálpar konu í erfiðum aðstæðum, hvað minnkar streitu og áhyggjur og hvernig gera megi aðstæður sem vinalegastar.

Það getur verið sérlega hjálplegt fyrir alla ef kona treystir sér til að skrifa um ótta sinn og áhyggjur og af hverju hann stafar. Það hjálpar öllum, stuðningsfólki og heilbrigðisfólki í að vera enn nærgætnara og skilningsríkara. Ef til dæmis ákveðin snerting eða ákveðin orð valda vanlíðan að koma því á framfæri svo fólkið í umhverfinu viti hvernig það getur stutt og styrkt.

– doula

Það er mjög styrkjandi að hafa einhvern sem er þarna bara fyrir ykkur og þekkir óskir ykkar og væntingar vel. Doula er svona eins og einkastarfsmaður fæðandi konu og styður ykkur í gegnum ykkar ferli. Doulur eru stuðningskonur fjölskyldunnar, starfa aðeins fyrir hana og fylgja konum samfellt í gegnum fæðinguna.

– núvitund

Penny talar alveg sérstaklega um að það sé mikilvægt fyrir konur að finna styrkinn í því að vera á staðnum að upplifa það sem þær eru að upplifa þ.e. fæðinguna og hvernig hún er. Meðan kona nær að halda fókus á að vera í fæðingu og vera við stjórnvölinn eru minni líkur á að hún endurupplifi erfiðar minningar og aðstæður. Margar konur hafa fundið leið til að lifa af ofbeldið með því að fjarlægjast sjálfum sér, flýja úr líkama sínum og vera fjarverandi þannig að þær finna lítið tengingu milli huga og líkama. Sú tækni var mjög mikilvæg þá en í fæðingu er gott að reyna að halda sér í núvitundinni til að minnka líkur á endurupplifun og panik og að fæðingarreynslan verði ekki svipuð minning og minningin um ofbeldið.

– æfð sjónræn hugleiðsla

Það getur verið gagnlegt á fyrstu stigum fæðingarinnar að hugsa um tíma þar sem manni leið vel, draga fram minningu eða viðburð sem var góður og minningin yljar manni og sjá hana fyrir sér. Það getur verið tími með maka þar sem allir voru ánægðir og afslappaðir, minning úr æsku eða staður þar sem maður er öruggur á. Mörgum finnst gagnlegt að sjá fyrir sér þessa minningu í gegnum hverja hríð í upphafi fæðingar.

Þegar komið er í virka fæðingu og framgangurinn er meiri og reynir á mann getur verið gott að hugsa um atburð þar sem maður komst yfir ákveðna hindrun eða áskorun. Það getur verið líkamleg áskorun eins og að hlaupa maraþon eða þegar maður yfirstígur ákveðinn ótta sem hefur hindrað mann. Þessi æfing getur verið hvetjandi í fæðingunni og komið konu í gegnum erfiðar áskoranir.

– að finna stjórnina

Það er mörgum konum mjög mikilvægt að finna að þær séu alltaf við stjórn í öllum aðstæðum, það veitir þeim öryggi og vellíðan og þannig ná þær að koma sér í gegnum erfiðar aðstæður. Það getur verið gott að átta sig á því í hverju sú tilfinning felst, hvernig er hægt að viðhalda henni og ákveða að ef aðstæður eru þannig að þá er hægt að ákveða að missa stjórnina og hafa þannig stjórn á stjórnleysinu ef svo má að orði komast.

 

 

 

 

 

 

Undirbúningur skiptir máli

Stundum heyrir maður því fleygt að réttast sé að undirbúa sig ekki of mikið fyrir fæðingu og gera sér ekki of miklar vonir um útkomuna, því maður verður svo svekktur ef hlutirnir fara svo á annan veg.

Þetta hlýtur að vera sagt í góðri trú og til að vernda barnshafandi konur en sannleikurinn er samt sá að það margborgar sig að undirbúa sig vel fyrir fæðingu á allan hátt og því betur sem kona er undirbúin fyrir fæðingu því meiri líkur eru á að fæðingin fari á þá leið sem hún kýs. Það á við um allar fæðingar.

Góður undirbúningur er ekki trygging fyrir því að allt fari samkvæmt áætlun en maður hefur aukið líkurnar til muna. Liður í undirbúningi er líka að taka með sér æðruleysið og taka því sem að höndum ber.

Fæðing er nefnilega einn stærsti viðburður í lífi konu, ef ekki sá stærsti og það er alveg sama hvernig sú lífsreynsla verður, hún kemur til með að dvelja í huga konunnar lengi, ef ekki alla ævi. Fari allt vel man kona það og fari hlutirnir illa man kona það líka.

Kona sem fer vel undirbúin í sína fæðingu er betur í stakk búin til þess að vinna úr sinni reynslu t.d. ef fæðingin verður henni erfið. Af hverju?  Jú hún er nefnilega undirbúin, og yfirleitt þegar maður er undirbúinn er maður líka búinn að skoða ,hvað ef“-ið sitt ef hlutirnir fara ekki eins og maður leggur upp með.

Fæðing er stórviðburður, henni er oft líkt við maraþon eða fjallgöngu. Það er ágæt samlíking þó hún hafi svo sem sínar takmarkanir líka.

Þegar maður hittir einhvern sem ætlar í fjallgöngu þá er hinsvegar allt annað viðhorf til undirbúnings. Þá er talað um mikilvægi þess að vera vel undirbúinn, líkamlega sem og andlega. Fjallganga er þrekraun sem reynir á líkama og sál og allir vita að ef þú leggur af stað vanbúinn getur farið illa.

Hvernig fer í fjallgöngunni er að miklu leiti undir undirbúningnum komið. Það er ekki trygging fyrir því að allt fari vel en eykur líkurnar til muna. Liður í undirbúningnum er að vera í góðu líkamlegu formi, lesa sér til um fjallið og aðstæður, tala við fólk með reynslu af svæðinu, umkringja sig fólki sem hefur áhuga á því sem maður tekur sér fyrir hendur og góður aðbúnaður.

Engum heilvita manni dettur í hug að segja við fjallgöngumann ,,Ekki undirbúa þig of mikið. Þú verður svo hrikalega svekktur ef þú fótbrotnar á leiðinni upp og kemst ekki á toppinn einn þíns liðs. Tala nú ekki um svekkelsið ef þú þarft hjálp á miðri leið”.

Það vita allir að ef eitthvað kemur upp á í fjallgöngu að það eru ofboðsleg vonbrigði sem getur tekið langan tíma að jafna sig á. Vel undirbúinn fjallgöngumaður er hinsvegar fljótari að jafna sig á vonbrigðunum, því hann var undirbúinn og áttar sig á því að hann hafði gert allt sem í sínu valdi var og svo fór sem fór.

En hér gildir sama lögmál, góður undirbúningur eykur líkurnar á góðri útkomu en auðvitað er ekki hægt að ganga að útkomunni. Því er um að gera að sökkva sér í bókalestur, umvefja sig jákvæðum fæðingarsögum, sækja slökun og fara á mörg námskeið og njóta þess að vera að undirbúa stærsta viðburð lífsins.

Muna svo eftir æðruleysinu og að það er í góðu lagi að skipta um áætlun þegar stóra stundin rennur upp.