Svefn ungbarns

Svefn er eitthvað sem við erum flest að spá í fyrsta ár barnsins, margir foreldrar finna að þau sofa minna og það tekur tíma að finna út hvernig er best að hjálpa barninu að fara að sofa.
Fyrstu mánuði barnsins er best ef það sefur alltaf í nálægð við foreldrana, þannig er hægt að sinna því þegar það vaknar án mikillar fyrirhafnar og heyra í því þegar það fer að rumska.

Nokkur atriði er varða rúmið/svefnstaðinn er gott að hafa í huga:

  • Passa að hafa ekki of heitt inni í herberginu
  • Dýnan á að vera stíf og jöfn
  • Ekki kodda fyrsta árið
  • Passa að hafa jafnvægi í sængurfatnaði, ekki of þykka sæng sérstaklega ef barnið er vel klætt
  • Ekki stuðkanta eða mörg mjúkdýr í rúmið/vögguna
  • Barn á alltaf að vera lagt á bakið til svefns

Ef barnið sefur uppí hjá foreldrum er mikilvægt að hafa í huga:

  • Aðeins foreldrar eða þeir sem annasta barnið hafi það upp í hjá sér
  • Gæta þess vel að barnið geti hvergi dottið fram úr
  • Enginn koddi og sérábreiða fyrir barnið
  • Foreldrar verða að vera í góðu standi, þ.e. ekki er mælt með því að foreldri sem hefur neytt áfengis, taki lyf, reyki eða á annan hátt er með skerta getu til að bregðast við barni deili rúmi með barni.

Fyrstu mánuðina eru börn í raun ekki með sérstaka svefnrútínu, þau sofa þegar þau eru södd og búin að leika. Þó er gott að fara að huga að því fljótlega að búa til góðar venjur með barninu, þannig að það sé fyrirsjáanleiki í daglega lífinu. Það hjálpar foreldrunum líka heilmikið að hafa ákveðinn ryþma.

Nokkur einföld ráð til að bæta nætursvefn barna

Svefn og hvíld er okkur öllum mikilvæg, það er mikilvægt fyrir lítil börn að hvílast vel og það skiptir okkur foreldrana líka miklu máli. Það er eitt og annað hægt að gera til að gera svefnumhverfið betra og auka líkurnar á að litla krílið sofi í gegnum nóttina.
Þó verður að hafa í huga að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir, það tekur tíma að skapa nýja rútínu og yfirleitt mjakast þetta aðeins áfram, skref fyrir skref. Börn eru líka æði ólík og sum börn eru fljót að koma sér í svefnrútínu meðan önnur þurfa mikla aðstoð.
Lykilatriði í bættum svefnvenjum er rútína, endurtekning og ró og að lokum næst takmarkið langþráða, að sofa í gegnum nóttina.  Hér eru nokkur ráð sem geta bætt og lengt svefn barna á tiltölulega einfaldan og áreynslulítinn hátt.
1) Gættu þess að það sé ekki of heitt í herberginu þar sem barnið sefur og það ekki ofklætt. Hús og herbergi á Íslandi eru yfirleitt mjög heit og oft er hreinlega of heitt í svefnherbergjunum, fyrir börn og fullorðna. Of mikill hiti (nú eða kuldi) veldur því oft að börn vakna, þeim líður ekki vel og börn með viðkvæma húð eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Það getur verið betra að athuga líkamshita barnsins en að finna hendur eða fætur til að átta sig á hvort að hitastigið er rétt því hendur og fætur eru oft aðeins kaldari. Með því að passa að hitinn sé um 18-20 gráður er líklegra að barnið sofi.
2) Hafðu svefnstaðinn kósý. Það skiptir máli hafa svefnstaðinn eftirsóknarverðan og kósý, notalegt umhverfi þar sem auðvelt að koma sér vel fyrir. Mörgum börnum finnst gott að hafa eitthvað þétt við sig svo það getur borgað sig að hafa svefnrýmið ekki of stór. Það getur líka borgað sig, ef hægt er, að aðskilja svefnstað og leikstað. Rúmið er staðurinn þar sem allt er í ró og maður tengir við að í rúminu (svefnstaðnum) er sofið.
3) Einfaldur svefnstaður er líka mikilvægur, þar er bara það sem þarf en ekkert annað aukadót. Það er auðveldara að sofna í umhverfi sem er fábreytt og einfalt en þar sem augnáreiti er mikið. Bangsar, dúkkur og dót ættu því að vera í lágmarki sem og hringlur og svo raftæki. Sæng og uppáhaldsbangsi eða dúkka er alveg nóg. Fyrir utan hve mikið aukahlutirnir geta truflað, safnast líka ryk í þá.
4) Hafðu daglúr og nætursvefn ólíkan. Það skapar vissu fyrir barnið að venjast því að sofa í rúminu sínu á nóttunni en t.d. í vagni á daginn. Þannig áttar það sig á með tímanum að rúmið þýðir langur svefn. Það skiptir líka máli að hafa dimmt á nóttunni þegar sofið er og bjart á daginn.
5)  Skapaðu svefnrútínu því rútína skapar öryggi. Með afslöppuðum háttatíma sem er alltaf eins fer barnið fljótt í svefngírinn, þekkir þegar rútínan byrjar og fer ósjálfrátt að stilla sig inn á svefn. Eitthvað sem virkar fyrir fjölskylduna t.d. bað, náttföt, burstatennur, lesa bók, slaka á og sofa. Rútina er líka mjög gagnleg fyrir foreldrana því á erfiðari dögum þegar maður er þreyttur er auðveldara að koma sér í gegnum kvöldið ef rútínan er í lagi.
6) Gættu þess að ofsvara ekki barninu. Mörg börn rymja og stynja og láta heyra í sér en eru í raun enn sofandi. Því er gott að venja sig á að hlusta og hinkra og átta sig á stöðunni áður en maður fer inn og bregst við, oftar en ekki halda krílin áfram að sofa.
7) Notaðu svefnhljóð, gerðu alltaf sama hljóðið þegar þú heyrir að barnið er að rumska og gera sig líklegt til að vakna, hljóð eins og uss eða annað róandi suðandi hljóð, veitir barninu vissu um að foreldrið er til staðar og gefur því skilaboð um að halda áfram að sofa.

Ég vildi að ég hefði vitað

Eldri stelpan mín er fjögurra ára gömul og oft finnst mér við vera jafngamlar. Hún hefur kennt mér mikið um lífið og margt um sjálfa mig.

Mér finnst ég hafa verið fljót að stilla mig inn á hana en suma daga tek ég svona ohh, ég vildi að ég hefði vitað, til daganna sem hún var lítil og ég vitlaus móðir og við að kynnast.

Ég vildi að ég hefði almennt vitað meira um brjóstagjöf. Hún tekur tíma, kona kemst varla á klósettið á milli gjafa. Það getur verið erfitt og vont og þreytandi að vera með barnið á brjósti. Ég vildi að ég hefði vitað hvernig þau sýna merki um svengd og ég vildi óska að ég hefði vitað að það er í lagi að finnast það ekki frábært að vera með barn á brjósti allan sólarhringinn.

Ég vildi að ég hefði vitað meira um nándarþörf barna og hve mismikil hún er eftir karakterum. Ég eignaðist stelpu sem þurfti mikla athygli og nánd og ég var 4 vikur að fatta það. Það er allt í lagi að halda á barninu allan sólarhringinn og hafa það hjá sér, upp við sig og með sér meðan allir eru sáttir.

Ég vildi að ég hefði áttað mig betur á mikilvægi hvíldar, nýtt sængurleguna betur í að liggja fyrir en ekki sýna hvað ég var hress nýbökuð móðir. Ég vildi að ég hefði fattað að það gerir kraftaverk að fara ekki á fætur fyrir hádegi og stundum ætti að vera uppáskrifað að kona eigi að leggja sig með barninu sínu.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn sofa mismikið og sum þeirra sofa jafnvel lítið. Ég vildi að ég hefði vitað hve mikilvæg regla, rólyndi og leggjur eru þegar kona á þannig börn. Ég vildi að ég hefði vitað að það er börnum eðlilegt að vakna 1-3 á nóttu allt fyrsta árið sitt.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn vilja nærast þegar mamman nærist, ég hefði getað sparað mér mikinn tíma við að reyna að fá hana til að sofa meðan ég borðaði. Lífið varð svo miklu einfaldara eftir að ég hætti að reyna.

Ég vildi að ég hefði vitað að ég þarf ekki að leyfa öðrum að halda á barninu mínu frekar en ég vil.

Ég vildi að ég hefði passað betur upp á heimsóknartímann strax eftir fæðingu og ég vildi að ég hefði slökkt á símanum oftar.

Ég vildi að ég hefði beðið mömmu um að koma oftar og stoppa lengur.

Ég vildi að ég hefði áttað mig fyrr á því að ég þarf ekki að vera betri húsmóðir en amma var. Þvotturinn bíður og draslið verður þarna að eilífu en litla stúlkan stækkar hratt.

Ég vildi að ég hefði fattað fyrr að ég þarf að hugsa vel um mig til þess að hugsa vel um fjölskylduna mína. Þegar ég er í jafnvægi þá er fjölskyldan mín það líka.

Ég vildi að ég hefði fylgt hjartanu enn meir alltaf alveg frá upphafi. Þegar kona tekur ákvörðun út frá hjartanu tekur hún rétta ákvörðun, alveg óháð velmeinandi frænkum, uppeldisbókum og öðrum uppeldissérfræðingum.

Ég vildi líka að ég hefði vitað að það er ekki hægt að vita fyrirfram hvernig kona upplifir foreldrahlutverkið og ég vildi að ég hefði áttað mig á hvað það er dásamlega frábært að kunna ekki neitt. Kannski reyndi fólk eftir bestu getu að segja mér þetta allt og reyndi jafnvel að troða því ofan í mig og ég hlustaði ekki.

Hefði einhver sagt mér fyrirfram að eftir fæðingu barnanna minna myndi ég leggja upp í stærsta, skemmtilegasta, dásamlegasta, erfiðasta og fyndnasta ferðalag lífs míns þar sem ég þyrfti að taka á öllu mínu alla daga og upplifi hæstu hæðir og dýpstu dali hefði ég líklega hlegið frekar hrokafullt og fullyrt að þannig yrði það ekki hjá mér.

Kannski hefði ég betur hlustað aðeins fyr.

Pistillinn birtist fyrst á foreldrahandbókinni 2011