Jákvæðar staðhæfingar

Jákvæðar staðhæfingar eru í raun ákveðnar setningar endurteknar (oft í hljóði) og minna mann á manns innri styrk og vega oft vel upp á móti efanum sem á það til að læðast upp að manni.

Jákvæðar staðhæfingar geta hjálpað til á meðgöngu og í fæðingu til að róa hugann, minnka streitu og kvíða. Þær geta aðstoðað mann við að endurstilla hugann og bæta við jákvæðari hugsunum og tengingum en áður sem skilar sér svo í bættri líðan. Staðhæfingar nýtast svo oft á ögurstundu, þegar maður er í miðri fæðingu og gefa manni styrk og þol til að halda út aðeins lengur.

Hér eru nokkrar hugmyndir að staðhæfingum sem koma mörgum að gagni á meðgöngu og í fæðingu, nú eða bara hvenær sem er!

 • Ég er fullkomin eins og ég er
 • Ég tek breytingum á líkama mínum fagnandi
 • Lífið er kraftaverk, ég skapa kraftaverk
 • Ég og litla ófædda barnið mitt erum órjúfanleg heild
 • Ég elska mig og ófætt barn mitt
 • Ég er örugg og barn mitt er öruggt
 • Ég er sterk og öflug
 • Ég treysti mér og innsæi mínu
 • Ég treysti líkama mínum
 • Þetta er allt í lagi
 • Góðir hlutir gerast hægt
 • Ég er hönnuð til að ala og fæða barn.
 • Ég er sterkari en ljón, stöðugri en fjall.
 • Ég er góð móðir

Hvaða staðhæfingar er gott að nota er einstaklingsbundið og kona ætti alltaf að leitast við að nota staðhæfingar sem henni líkar, efla hana og styrkja en ekki velja einhverjar sem hafa litla merkingu. Málið er að ef maður endurtekur eitthvað sem hittir mann ekki í hjartastað þá skilar það ekki tilætluðum árangri. Oft er gott að finna staðhæfingu og laga hana að manni sjálfum. Skoða innra með sér hvað það er sem maður óttast eða finnur að vekur með manni ugg og dregur úr manni og búa til staðhæfingu sem tekur á því. Þegar við nýtum okkur staðhæfingar er gott að hafa þær í nútíð, fyrstu persónu og persónulegar. Þær verða að vera persónulegar svo þær fari inn að hjartarótum og nái að koma sér fyrir. Staðhæfingar sem maður tengir ekki við eru meira eins og vatn sem fellur á regnkápu.

Sem dæmi getur verið að kona óttist að verkirnir beri hana ofurliði og almennt kunni hún að meta hrósið að vera álitin sterk. Þá væri góð staðhæfing fyrir hana kannski ,,ég er sterk og get tekið þeim verkjum sem koma“ eða ,,andardrátturinn er minn styrkur“.
Önnur aðstaða getur verið að fyrri fæðing hafi verið erfið og óttinn felist helst í að komandi fæðing verði jafn erfið. Þá getur góð staðhæfing kannski verið ,,ég treysti líkama mínum í nýjum aðstæðum“, eða ,,ótti er tilfinning sem líður hjá. Þessi fæðing er eflandi upplifun“.

Það getur verið gott að skrifa staðhæfingarnar niður og líma á ísskápinn hjá sér eða deila með maka eða þeim sem verður með í fæðingunni. Þannig nýtast staðhæfingarnar ekki bara manni sjálfum heldur hefur maður gefið makanum líka þá gjöf að vita nákvæmlega hvað það er sem er hvetjandi og eflandi.