Doulur- auka hendur, auka augu, auka hjarta.

Ég er stundum spurð að því hvort að doulur séu fyrir alla. Mig langar alltaf að segja, já doulur eru fyrir alla en það er kannski ekki svo einfalt, því við erum jú allskonar. Sumir sjá ekki fyrir sér að hafa neinn með sér meðan aðrir telja það nauðsynlegt.

Ég held að allar barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur hafi gagn af því að vera með doulu, einhvern sem er til staðar, alltaf, einhvern sem þau þekkja og geta leitað til og er með þeim á meðgöngunni, í fæðingunni og svo eftir fæðingu. Þjónustan verður samfelld og persónuleg. Svo eru heilmargar rannsóknir sem bakka þessa skoðun mína upp og sýna að samfelldur stuðningur konu sem er ekki hluti af félagsneti eða heilbrigðisneti.  Doula er stuðningur og stundum er fullur stuðningur, sérsniðinn því sem maður er að leita eftir heima hjá manni og í manns nánasta umhverfi og þá leitar maður ekkert lengra.

Doulur leitast alltaf við að styðja verðandi foreldra í gegnum fæðingu á þeirra forsendum. Það rúmar allskonar. Það þýðir að doula vill að foreldrar upplifi sig sterkari, rólegri og öruggari. Doulur hafa yfirleitt ekki neinn sérstakan metnað fyrir svona eða hinsegin fæðingum, þær hafa metnað fyrir ánægðari og vel studdum foreldrum.  Við aðstoðum oft konur sem stefna á heimafæðingu og  konur á spítala sem vilja venjulega inngripalausa fæðingu. Við styðjum konur sem stefna á verkjameðferð og konur sem fara í gagnsetningu og konur sem fara í keisara. Fjölskyldur sem eiga von á einu barni og tveimur og líka þegar við vitum að nýju foreldrarnir fara ekki heim með barn.

Ég hef stundum heyrt út undan mér að doulur hafi eingöngu áhuga á ,,náttúrulegum“ fæðingum, eða bara áhuga á heimafæðingum og hatist við mænurótardeyfingar og keisara. Ekkert af þessu er satt. Auðvitað eru til doulur einhversstaðar sem hafa einhverja sértækar hugmyndir en heilt yfir og sérstaklega get ég sagt á Íslandi að þá vilja doulur styðja konurnar á þeim stað sem þær eru staddar. Enda er það eðli starfsins, að styðja við það sem er.

Ég get í það minnsta fullyrt fyrir mig að engin þessarar staðhæfinga á við um mig. Ég vil styðja konur og þeirra fjölskyldur í að vera ánægð með sína fæðingu og ég get ekki ákveðið hvað er gott og lífsuppfyllandi fyrir einhvern annan. Ég get eingöngu stutt við þeirra ákvarðanir og hjálpað þeim að móta þær og kannski bent á fræðslu, efni og annað svo þau geti myndað sér skoðun.

 

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.

 

 

 

Nokkur bjargráð í gegnum fæðingu

Öndun

 • leggja áherslu á útöndun
 • helmingi lengri útöndun en innöndun
 • dæs og stunur
 • horselips

Endurtekin hreyfing

 • standandi rugg, vanga, húlla með mjöðmunum
 • endurtekning sem skapar hrynjandi
 • ganga

Þrýstingur

 • styðja við axlir, ýta létt niður
 • snerta kjálka
 • þétt snerting
 • lyfta, hendur undir maga

Nudd

 • þrýstipunktar: ennispunktur, milli þumals og vísifingurs, tvo þumla fyrir ofan öxlabein
 • handanudd: brjóta kitkat
 • fótanudd: brjóta kitkat, kreista hæl og halda utan um fætur
 • bak: krossa yfir við mjaðma mittissvæði
 • bak: pálmatréð, stór og falleg laufblöð

Fyrir bakið

 • rúlla bakið
 • vatn á bakið
 • vera á fjórum fótum
 • þrýstingur á spjaldið
 • double hip squeeze
 • dhs með félaga
 • rebozo
 • The lunge

Hugaræfingar

 • telja
 • leidd slökun
 • sjálfstal, möntrur, staðhæfingar

Heitur /kaldur bakstur

 • á neðra bakið
 • á spöngina í / eftir fæðingunni