Ótti sem fylgir fæðingu

Flest allar konur finna einhvern ótta, einhverja hræðslu bærast innra með sér þegar þær eiga von á barni. Óttinn getur verið léttvægur og bara svona flögrað að manni sem eitt lítið ,,ef” sem ekki stoppar í huga okkar en stundum er hræðslan við fæðingu óyfirstíganleg og svo mikil að hún hefur hamlandi áhrif á líf konunnar .  Undanfarin ár hefur verið talað um að ótti við fæðingar hafi aukist til muna og sagt að í raun hafi konur aldrei verið jafn hræddar við komandi fæðingar, sem sumum þykir skjóta skökku við nú þegar (amk á Íslandi) tölfræðileg fæðingarútkoma er mjög góð.


Ótti er í raun ekkert óeðlilegur og getur verið hjálplegur, ef hann er innan marka. Ótti getur ýtt okkur af stað í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar eins og ákveða fæðingarstað og hafa hlutina klára fyrir fæðinguna. Verandi varkár erum við með verndareðlið vakandi og þannig sjáum við til þess að við leitum öryggis í fæðingu og gætum öryggis barnsins okkar. Það er eitthvað fallegt við það.

Þegar við eigum von á barni, berum við lífssöguna okkar inn í ferlið. Svo allt sem hefur mótað okkur og þroskað og er með okkur í daglegu lífi hefur líka áhrif á meðgönguna okkar og mótar sýn okkar á fæðinguna (og hvernig hún verður). Lífssöguóttinn okkar er því æði ólíkur frá einni konu til annarrar.

Hinsvegar deila konur sumum ótta. Til dæmis nefna flestar konur, hvaðan sem þær eru í heiminum, að þær hafi velt því fyrir sér hvort þær muni lifa fæðinguna af. Ég man eftir því að þessi hugsun hafi flögrað í gegnum huga minn á meðgöngunum mínum, ,,hvað ef ég dey?”. Ég man líka að hugsunin dvaldi ekki lengi með mér heldur eitt af mörgum atriðum sem fóru í gegnum huga minn.
Ég held að þetta sé mjög frumstæð tilfinning sem er grafin djúpt í bein okkar og frumur og við komumst ekki hjá því að leiða hugann að því hvað ef. Í sögulegu samhengi, í gegnum aldanna rás, hafa konur ekki getað gengið út frá því að lifa fæðinguna sína af. Mæðradauði var hluti af raunveruleika fólks og er mjög raunverulegur víða um heim ennþá. Við á Íslandi búum bara við þann munað að hann þekkist varla hér en tilfinningin situr með okkur. Því er svo gott að muna að ótti er bara tilfinning sem ekki þarf alltaf að trúa og við getum minnkað hann en líklega ekki látið hann hverfa.

Margar konur finna rétt undir lok fæðingar fyrir tilfinningu um að þær séu að deyja, muni ekki lifa fæðinguna af og það getur verið ansi uggvænlegt að upplifa það. Michel Odent, fæðingarlæknir sem nú er kominn á eftirlaun kallar þennan tíma eða þessa upplifun ,,fetus ejection reflex.” Það lýsir sér þannig að konan finnur skyndilega ótta hellast yfir sig og tjáir sig oft um hann með því að t.d. að öskra eða hrópa upp yfir sig að hún sé að deyja, geti ekki fætt barnið eða vilji deyja. Þegar reflexið kemur yfir konur á örstuttri, en eftirminnilegri stundu, er hormónaflæðið að aukast til muna, meðal annars adrenalín svo yfirleitt koma nokkrir sterkir og mjög öflugir samdrættir eftir þessi viðbrögð. Upp úr þessu viðbragði er sem konan komi aftur til sín full af orku og líklega hefur hún vilja og löngun til að rétta úr sér eða skipta um stellingu svo barnið eigi greiðari leið um fæðingarveginn. Rétt eins og þegar hlauparar sjá lokatakmarkið fá þeir aukakraft og geta gefið aðeins í.

Eðlilegur ótti er hluti af lífinu og þó við höfum tilhneigingu til að forðast flest sem er óþægilegt er betra að reyna að horfast í augu við hann. Oft er besta vopnið sem við höfum að greina óttann og gefa athygli. Því þannig náum við oft að beisla óttann og koma honum í farveg sem þarf eða getum skilið hann eftir fyrir það sem hann er. Tilfinning sem ekki þarf alltaf að bregðast við.