Mæðradagurinn góði

Um miðjan dag í gær, tók ég utan um manninn minn, kyssti hann létt og óskaði mér til hamingju með daginn fyrir hans hönd. Hann blótaði lágt og sagðist hafa ætlað að muna eftir deginum, en bara ómögulega getað það. Þetta er hluti af fjölskylduhefðinni okkar að muna ekki eftir svona
-dögum eða gera eitthvað í tilefni þeirra. Ég held ég beri engar sérstakar væntingar til mæðradagsins enda svo ljónheppin að maðurinn sem stendur vaktina með mér er bara dásamlegur flesta daga ársins.

Ég er samt farin að kaupa mér blóm þegar mig langar í þau því annað skilar engu.

Mæðradagurinn 8. maí var merkisdagur, fyrir nokkrum árum var ég viðstödd þegar að önnur kona varð móðir í dásamlegri og skemmtilegri fæðingu og gaman að ylja sér við góðar minningar.

Heima fyrir fékk ég knús, fullt af knúsum og stelpurnar mínar þrjár gerðu daginn skemmtilegan og fyndinn. Miðjustelpan mín óskaði mér til hamingju með daginn og benti mér svo réttilega á að ef ég væri ekki mamma hennar þá gæti hún ekki óskað mér til hamingju með daginn.
Ég fékk líka skammir fyrir að hafa verið að heiman hluta dags sem minnir mig á hve mikilvægar mömmur eru. Mér finnst gott að vera mamma og fann að mæðradagurinn kveikti aðeins í mér.

Mér var líka mikið hugsað til allra mæðra minna í gær og fann fyrir þakklæti fyrir allt sem þær hafa gert fyrir mig. Mömmur kenna manni margt og móta.
Mamma mín stendur þétt við hliðina á mér og hefur gert alla tíð, ég hef trú á því að hún sé í þessum töluðu orðum að kaupa skó á dætur mínar. Hún er líka mikið fyndnari en ég nokkurn tíma og kann einhvern veginn allt, líka að sauma!

Ömmur mínar í móður- og föðurætt eru mér báðar svo kærar, kenndu mér að borða kökur og kvarta ekki. Mér er svo oft hugsað til þeirra þegar ég er að bugast undan ungunum mínum, það gefur mér styrk að vita að þær áttu mikið fleiri börn en ég (og stráka!) og lifðu það af.
Ég á líka dásamlega tengdamömmu sem styður mig svo vel og eflir og er yndislegur félagi. Ömmurnar í þá áttina eru líka yndislegar og miklar fyrirmyndir.
Og svo eru margar aðrar konur sem hafa fóstrað mig á margan hátt.

Mér finnst gaman að sjá fyrir mér að við stöndum allar í hring, og að ég standi á öxlum einnar og svo er önnur kona undir henni og svo önnur og þannig myndum við sterkt rótarkerfi.
Því þannig eru mæður, mínar mæður, hluti af mér í daglegu lífi, ræturnar mínar.