Af hverju ekki framvísandi í burðarpoka?

Það er flestum léttir að nýta sér burðarpoka eða sjal og dásamlegt að hafa barnið þétt og öruggt í fanginu og oft vaknar þessi spurning, er ekki hægt að snúa barninu fram svo það sjái svolítið betur?

Auðvitað er það freistandi, barnið er í sömu augnstefnu og maður sjálfur og getur fylgst vel með og þetta getur verið heljarinnar stuð en þegar maður hugsar örlítið betur út í stöðuna á sér og barninu áttar maður sig á að líklega er það betra fyrir mann sjálfan og ekki síst barnið að það snúi að manni.

Mynd sem sýnir fína stöðu barns í burðarpoka.

 

Ákjósanleg staða fyrir barn í burðarpoka er þegar það fær stuðning út sem næst hnjám. Barnið situr með þungann á rassinum og stuðningurinn nær út við lærleginn og fæturnir eru gleiðir og mjaðmirnar stöðugar. Þegar barn snýr fram í burðarpoka er komið álag á mjaðmasvæðið, fæturnir þrýstast saman og niður. Það er ekki nægjanlegur stuðningur við mjaðmir og fæturnir dangla niður. Í þannig stöðu er barnið komið í stöðu sem það getur ekki undir eðlilegum kringumstæðum, litlir kroppar vilja vera með sveigt bak ( í C ) og fæturna dregnar saman ( í M stöðu við mjaðmir) og örlítið upp á við, svona púpulaga.

óbaby

Barn sem snýr fram þrýstist líka að líkama burðarmanns og verður að aðlaga sig líkamsgerð þess og oftast myndast óþægilegur þrýstingur við bak barnsins sem neyðir það til að vera með beint bak, lítil börn eru almennt með sveigt bak og álagið á efra bakið því orðið þónokkuð, á sama tíma og efra bakið þrýstist fram fara mjaðmirnar aftur sem er öfug staða við náttúrulega stöðu barns.

Mynd sem sýnir óæskilegt álag á fæturna.
Mynd sem sýnir óæskilegt álag á fæturna.

Í framvísandi burðarpoka má líka gera ráð fyrir að álag á kynfærasvæðið aukist, þar sem þau hanga meir en að sitja og er sérstaklega varhugavert fyrir drengi, þar sem þrýstingurinn er á öll ytri kynfærin og gera má ráð fyrir að við hreyfingu myndist líka meiri varmi við bleiusvæðið.

Oförvun er eitthvað sem gott er að hafa í huga og barn sem vísar fram kemst ekki í skjól undan áreitinu. Við sem erum orðin fullorðin áttum okkur oft ekki á áreitinu sem fylgir umhverfi okkar en fyrir barn sem er að læra er allt skynáreiti. Ljós, hlutir úr umhverfinu, hljóð og fólk verður til þess að það er auðvelt að vera fyrir oförvun, barnið nær ekki að melta umhverfi sitt og meta. Þau verða æst pata höndum og skríkja jafnvel en ná ekki að snúa sér í skjól frá áreitinu og hvíla sig um stund. Oförvun getur haft áhrif í nokkra stund á eftir, börnin eru æst og ná ekki að róa sig niður. Þegar barn er í burðarpoka sem snýr að burðarmanni, á það auðvelt með að grúa að burðarmanni og fá skjól frá áreitinu og stilla því sem það tekur inn í hóf.

Höfuð og háls barns fær heldur ekki nægjanlegan stuðning, þegar barnið er glaðvakandi og heldur ekki ef það fer að syfja eða vill snúa sér undan skynörvuninni, með óþarfa álagi á höfuð og háls.

bobafaceforward

Fyrir burðarmanneskjuna sjálfa er óþægilegra að hafa barnið framvísandi því líkami barnsins lagast ekki eins að með bakið við og ef það er maga í maga. Álagið verður meira á axlir og ekki ólíklegt að það rífi í. Það er líka erfiðara að lesa í merki barns og hljóð þegar það er framvísandi.

En hvað er þá til ráða þegar kona vill bera barnið sitt en bjóða því upp á að sjá umhverfi sitt betur en ef barnið vísar að manni?

Eitt ráð er að færa burðarsjalið/pokann aðeins út á hlið, nær mjaðmasvæðinu, þá sér barnið fram og aftur fyrir sig vel en er enn í góðri líkamsstöðu og getur snúið sér í skjól þegar það er búið að fá nóg. Annað sem hægt er að gera er að bera barnið á bakinu og passa að setja það svolítið ofarlega, þá fær barnið sömu augnsýn og burðarmaður en getur enn snúið sér í skjól.

bobaforeldrar

Nánari upplýsingar fást meðal annars hér og hér.