Réttindi kvenna í fæðingu

Nokkur orð um mikilvægi þess að ráða  sínum stuðningsaðilum sjálf og tilmæli lsh.

19. júní árið 1915 fengu konur (og vinnuhjú) á Íslandi kosningarétt til Alþingis, reyndar með skilyrðum að aðeins 40 ára og eldri gætu kosið, aldurstakmarkið lækkaði svo frá ári til árs þar til ársins 1931. Áður höfðu konur fengið kosningarétt til bæjarstjórna.

Áður en þær fengu kosningarétt sátu karlmenn í ,,reykfylltum bakherbergjum“ og veltu því fyrir sér hvort að konum væri hreinlega treystandi til þess að kjósa. Menn óttuðust mjög að bæta svo mörgum kjósendum við kjörskrána og veltu því fyrir sér hvort að konur gætu kosið og tekið ákvörðun um hvað væri sér og fjölskyldu sinni fyrir bestu með kjörgenginu og sumir óttuðust að þeir sem þáþegar höfðu kosningarétt myndu missa allt vald. Sumir héldu því fram að konur hefðu einfaldlega ekkert fram að færa sem hefði erindi í stjórnmál.  Sem betur fer fengum við kosningaréttinn og það kom mörgum á óvart hve vel gekk ,,að leyfa“ konum að kjósa. Eftir því sem að árin liðu fækkaði gagnrýnisröddunum og væntanlega hefur verið hlegið að því þegar framliðu stundir að nokkur hafi sett sig upp á móti því að konur kysu og þótt fáránleg forræðishyggja.

Konur eru og voru fullfærar um að taka ákvarðanir er varða eigið líf og velferð. Í dag stöndum við uppi með betra samfélag en áður þrátt fyrir óttann sem fór um samfélagið.

Því er pínulítið kaldhæðið að á 100 ára kosningaafmæli kvenna, sátu nú líklega konur í ,,reykfylltu bakherbergi“ á Landspítalanum og komust að því að barnsfæðandi konum er ekki treystandi fyrir því að velja sér stuðningsaðila eða fjölda þeirra í fæðingu.

Tilmælin eru hér og segja að mælst sé til þess að aðeins einn stuðningsaðili ætti að vera viðstaddur og þó vissulega megi taka undir þau rök að fæðingin sé viðkvæmt ferli þar sem maður vill stuðla að ró er ætti samt að huga að því að fæðingarupplifun kvenna dvelur með þeim alla þeirra tíð og mikilvægt að kona finni stuðning frá þeim sem hún telur að sé best, óháð því hver það er.  Sem betur fer er tekið fram að ,,þeir vilji heyra óskir kvenna“ sem opnar smá glugga en setur barnsfæðandi konu þó í þá stöðu að þurfa ,,að fá leyfi“ í eigin fæðingu.

Margar verðandi nýjar fjölskyldur vilja helst af öllu vera tvo og útaf fyrir sig, mjög margar fjölskyldur kjósa að hafa einhvern nákominn með sér t.d. verðandi móðurömmu, systur eða vinkonu og einhverjir vilja hafa óháðan stuðningsaðila eins og doulu eða nuddara og í örfáum tilfellum vilja pörin hafa tvo stuðningsaðila með sér þ.e. parið plús tveir. Svo fyrir marga hafa þessi tilmæli ekki áhrif og væntanlega fagna einhverjar fjölskyldur því að þurfa ekki að ræða við fjölskyldumeðlimi um hverjir geti verið viðstaddir.

Í tilmælunum er eins og gengið sé út frá því að best væri að konan mætti ein á svæðið og taki með sér einn stuðningsaðila en ekki litið á parið, verðandi foreldra, sem heild og gert ráð fyrir að bæði mæti og vilji hafa með sér stuðningsaðila. Í dag göngum við alltaf út frá því að ef kona á maka að hún mæti með hann á staðinn og stundum gleymist það að pabbinn (eða foreldrið sem gengur ekki með barnið) þarf líka stuðning, hann ætti að fá að vera á staðnum sem fulltrúi síns sjálfs, verðandi foreldri sem þarf stuðning og hvatningu en ekki að vera stillt upp í að vera aðalstuðningsaðili konunnar sinnar og svo ,,redda“ sér sjálfur.

Flestir gera sér grein fyrir hve stór stund fæðingin er fyrir fjölskylduna, við sem höfum eignast barn munum stund og stað, við munum hvernig okkur leið og hvað hjálpaði og hvað ekki, við munum hvernig var komið fram við okkur og hvað hjálpaði og hvað ekki. Góð fæðingarreynsla getur því verið mjög valdeflandi en á sama tíma getur erfið reynsla tekið langan tíma að jafna sig á.

Við vitum að fæðingar eru allskonar og ekki alltaf hægt að sjá ferlið fyrirfram og upplifun konu af fæðingunni er einstök. ,,birth is in the eyes of the beholder“ eins og þeir segja á útlensku. Eitt af því sem hefur sýnt sig að stuðlar að jákvæðri fæðingarreynslu og að reynslan af fæðingunni sé jákvæð óháð því hvernig ,,pappírarnir“ eru er að fjölskyldan hafi ástúðlegan, samfelldan stuðning sem byggir á trausti.

Það er lítið hughreystandi að mega ekki koma með þann stuðningsaðila með sér sem maður vill og treystir og upplifa að maður verði að biðja um leyfi og auðvitað er líklegast að kona þori ekki að nefna það að maður vilji aukinn stuðning og fer því hrædd (hræddari) í fæðinguna. Í ferlinu sitja þá konur eftir með þá tilfinningu að einhvern hafi vantað. Sé fæðingin erfið og átakanleg verður eftirsjáin ,,ég vildi óska þess að ég hefði haft einhvern með mér“ en sé fæðingarminningin góð og ljúf felst eftirsjáin í að að hafa misst af því að deila stundinni með öðrum.

Við konur erum ekki vitleysingar, þó við séum barnshafandi, við vitum nær alltaf hvað er best fyrir okkur og í hvaða umhverfi við upplifum okkur sterkar og öflugar, við vitum hverja við viljum hafa í kringum okkur til að komast í gegnum aðstæður og enginn sem ekki þekkir til veit hvað er konu fyrir bestu.
Við erum líka fullfærar um að bera ábyrgð á ákvörðunum okkar, ef við viljum hafa marga í kringum okkur er væntanlega ástæða fyrir því sem við viljum kannski ekki segja með orðum. Og ástæðan á ekki að þurfa vera önnur en ,,bara“.  Svona smá útúrdúr er að starfsmenn dýragarða komust að því að apynjur fæddu ekki unga sína án þess að eldri kvenkynsættingi væri á staðnum. Líklega upplifa margar konur slíkt hið sama og verandi einar í fæðingu með einn stuðningsaðila getur verið til þess að þær eru hræddari, ósáttari og reynslan sýnir að við slíkar aðstæður dregst fæðingin óþarflega á langinn.
Skilaboðin sem felast í því að mælst sé til þess að kona komi aðeins með einn með sér á fæðingarvaktina eru að hún ráði ekki för. Hún er að ganga inn á svæði sem miðar að því að hún taki tillit til umverfisins en ekki öfugt, að umhverfið mæti henni þar sem hún er stödd.  Þar á hún að hlýða og gera það sem henni er sagt, í raun verið að taka fæðinguna svolítið úr höndunum á henni.

Barnshafandi konum og nýjum verðandi foreldrum er vel treystandi til að velja sína stuðningsaðila, við veljum út frá vilja og þörfum, þó það þóknist kannski ekki öllum. Svona rétt eins og með kosningaréttinn, okkur er veltreystandi til að kjósa, við kjósum út frá okkar bestu vitund, vilja og þörfum.