7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.

Snerting og stuðningur maka

Fæðing er fyrir flesta krefjandi verkefni sem kallar á alla okkar athygli. Undanfarin ár hef ég aðstoðað fólk við að undirbúa sig fyrir fæðinguna og kennt þeim nokkur einföld ráð til að takast á við fæðinguna.
Tækni sem makinn getur gert í fæðingunni og gott er að hafa farið yfir áður en kallið kemur. Mig langaði að deila því með ykkur.
Mörgum konum finnst gott að láta strjúka sér og nudda í fæðingu en mörgum finnst það líka óþægilegt. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum og alveg alger óþarfi að taka það persónulega ef nudd eða strokur eru afþakkaðar.
Reynslan segir mér að í byrjun fæðingar hjálpar létt nudd og strokur og svo þegar líður á fæðinguna gagnast þéttari snerting betur og ekki í samdráttum heldur á millli.

Hönd í hönd og lófanudd
Einfalt en áhrifaríkt og sýnir traust og umhyggju er að haldast í hendur og oft er mjög slakandi að nudda inn í lófann, þéttingsfast.

Þrýstingur um höfuðið
Kemur oft á óvart en það að setja hendur um höfuð konu í fæðingu er yfirleitt mjög vel þegið. Önnur hendin á ennið og hin við hnakka en samt á höfðinu. Halda þéttingsfast án þess að kreista. Mörgum þykir líka gott að vefja um höfuðið á sér slæðu eða öðru svipuðu. Það er töfraráð að halda köldum þvottapoka þétt um enni konu í fæðingu.

Þriðja augað

Það veitir ótrúlega slökun að nudda með þumalfingri rólega milli augnabrúnna. Þarna við það sem oft er kallað þriðja augað.

Hjartastuðningur
Mæli því að setja aðra hönd á bringuna við hjartastað og aðra á milli herðablaða og leyfa höndunum að hvíla vel við líkamann.

Fótasnerting
Létt snerting á fætur getur verið hughreystandi og þægileg. Margar konur finna jarðtengingu þegar þær standa og því er oft mjög kærkomið að fá fótanudd ef kona liggur fyrir. Þegar langt er komið í fæðingu getur verið gott að halda vel um ökkla, gefur góða jarðtengingu.

Prófið ykkur endilega áfram, metið stöðuna og haldið áfram. Góð snerting getur gert kraftaverk í fæðingu.

 

 

Heilun í hlustun

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur og að honum loknum stóð ég og spjallaði við mjög merkilega konu sem ég lít upp til og við fórum að tala um fæðingarsögur, fæðingarupplifun, eitthvað sem mér finnst alltaf skemmtilegt að tala um. Hún bar nokkuð sára en gróna sögu í hjarta sér og minningin hafði dvalið sterkt með henni. Hún sagði okkur frá því að hún hafi verið með fæðingarsöguna og allt ferlið á heilanum og ekki gert annað en að tala um hana við hvern sem vildi og vildi ekki heyra. Viðbrögðin voru almennt á sömu leið að hún ætti að hætta að hugsa um þetta en sama hvað hún vildi og reyndi þá gat hún ekki hætt að hugsa um atburðina og ekki hætt að tala um þá. Einn daginn var hún svo á spjalli við unga dóttur sína og sagði henni sögu sína á barnvænu máli.Sú stutta hlustaði og hélt áfram að gera það sem hún var að gera, leit svo til hennar og sagði ,,það hlýtur að hafa verið erfitt mamma mín” og hún játti því, þetta hafi verið erfitt.

Þar small það, eftir þetta hafði hún ekki þörf til að tala um reynslu sína, eitthvað innra með henni gréri þennan dag.

Þessi saga er mér hugleikin, hún hefur sagt mér og kennt margt. Fæðingarreynslan okkar er minning sem er mikilvæg, hún er með okkur og mótar okkur. Fæðingarminningin mótar okkur og við getum fundið meiri styrk eða misst hann. Margar konur tala um þegar þær finna mátt sinn í gegnum fæðingu barnsins síns að þær upplifi sig heilar og óstöðvandi. Hvernig fæðingarminningin verður fer svo mikið eftir upplifun okkar og fyrri reynslu.

Þegar fæðingarreynslan situr með okkur, getum við ekki bara hætt að hugsa um hana, lagt hana til hliðar eins og skítugan kaffibolla og snúið okkur að öðru. Hún er með okkur og við verðum að finna henni farveg.

Ein algeng leið til þess og raunar mjög góð er að deila henni með öðrum, segja frá því sem við upplifðum og afhverju og hvernig það hefur áhrif á okkur og finna þá einhvern sem er eins og unga daman, til í að hlusta af athygli, sjá reynsluna eins og hún er og orða það sem við heyrum.

Oft höfum við takmarkaðan tíma, við hittumst kannski á kaffihúsi og förum að tala um reynslu okkar og við erum á stað þar sem allir geta heyrt orð okkar og sessunauturinn er kannski í meira stuði til að spjalla en hlusta. Þannig náum við bara að segja brot, hluta eða stikkorð og förum fyrir vikið að fara út í að segja viðurkennda og birtingarhæfa sögu sem kemst fyrir í tebollanum. Sagan fer frá okkar innsta kjarna og yfir í að vera meira eins og skráð saga í mæðraskránni, lýsing á mælanlegum atburðum í raun séðum frá öðrum en okkur. Við förum jafnvel að leggja áherslu á að vitna í orð þeirra sem voru á staðnum til að gefa betri lýsingu frekar en okkar upplifun. Sem er alveg saga sem er gott að segja en hún kannski græðir ekkert sár og er ekki nærri okkur. Mæðraskýrslusagan af fæðingunni okkar verður okkur fjarlægari og ópersónulegri og öðlast þá kannski annað líf sem ósnertanleg saga fyrir annan. Fæðingarreynslan okkar getur nefnilega ekki verið neitt annað en okkar upplifun.
Ég hallast alltaf meir og meir að því að það sé mikilvægt að velja vel þann sem hlotnast sá heiður að heyra söguna okkar og að við gefum okkur góðan tíma. Þegar við finnum einhvern sem hlustar af athygli og með það í huga að heyra söguna okkar og finna hvernig hún var og getur gefið sér tíma til að velta hlutunum upp, getur staldrað við smáatriði og hlaupið yfir önnur þá finnum við heilara, manneskju sem styrkir okkur og eflir. Við verðum að finna að við getum sagt söguna frá okkar hjartarótum, eins og hún dvelur með okkur, eins og við munum hana. Og þannig grær hún og við fáum sátt.

Kona gleymir ekki fæðingunni sinni

Fæðingarreynslan er minning sem dvelur með okkur konum alla ævi og það er alveg ótrúlegt hvað hún er fersk í minninu alla ævi. Kannski má segja að fæðingarminningin sé sú minning sem hafi hvað mest áhrif á konur.

Konur muna fæðinguna sína yfirleitt í nokkrum smáatriðum og þó tíminn líði verður hún ljóslifandi um leið og talið berst að henni.

Það kemur kannski ekki á óvart en það sem konur muna helst er hvernig hugsað var um þær í fæðingunni og hvernig þeim leið með fólkinu í kringum sig. Konur muna betur hverjir voru í kringum þær og hvaða áhrif það hafði á líðan þeirra en nákvæmlega hvernig fæðingarútkoman var, hvort fæðingin hafi verið skráð sem góð, hröð, venjuleg eða eitthvað annað.

Þetta virðist eiga jafnt við aðstandendur og fagfólk. Konur muna hvernig var komið fram við þær, augnsambandið, hvort viðkomandi hafði áhuga á þeim eða ekki, andardráttinn og nærveruna, stök orð og umhyggju. Muna hvort hlustað var á þær, þeim hjálpað og þær studdar í gegnum ferlið. Hvort þær voru virtar og komið fram við þær af virðingu.

Konur muna líka yfirleitt hvaða tilfinning var innra með þeim í ferlinu og hvort þær upplifðu sig við stjórnvölinn eða ekki. Þessi tilfinning, að upplifa sig við stjórn og upplifa virðingu, er ein sterkasta minningin sem situr eftir með konum eftir fæðingu.

Konur sem upplifa gott teymi í kringum sig, þar sem þær eru studdar, efldar, hvattar áfram og á þær hlustað og þær virtar upplifa sig öflugri og sterkari á eftir. Konur sem hafa upplifað þennan stuðning tala oft um að þeim líði eins og þær geti allt, að þær séu einstakar og getumiklar og það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt veganesti sú tilfinning er út í lífið.

Það er gott fyrir barnshafandi konu að hafa þetta í huga, að fæðingarreynslan sé minning sem kona man og velta því fyrir sér hvernig best sé hægt að vernda fæðingarminninguna, pæla í því hvað skipti sig máli, hverjir eiga að vera með í fæðingunn og hvar konunni líður best.

Efst í huga okkar sem komum að fæðingum ætti alltaf að vera ,,hvernig mun hún muna eftir þessum degi?”