sjö leiðir til að undirbúa fæðingu

7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.
Newborn baby girl sleeping

Verkir á móti sársauka í fæðingu

Ég er stundum spurð að því svona í gamni, í ljósi starfs míns sem doula, hvort ég hafi gaman að því að horfa upp á konur þjást.
Ég elska starfið mitt og það gefur mér mikið en ég hef ekkert umburðarlyndi fyrir þjáningu, því get ég lofað. Ég vil ekki að nokkur kona þjáist eitt augnablik í fæðingu, en ég hef hinsvegar gott þol fyrir því að vera með konum sem finna til og held ég sé komin með góða verkfæratösku í að hvetja konur áfram og hjálpa þeim að halda áfram, halda verkjunum sem verkjum.
Kannski er einhver alveg búinn að tína mér núna, en það er mikill munur á verkjum og sársauka í mínum huga þegar kemur að fæðingu.

Þegar kona á von á sínu fyrsta barni er alveg eðlilegt að óttast verkina sem þær koma til með að upplifa í fæðingunni því það er einhvern veginn í beinunum á okkur að vita að fæðing er þrekvirki og svo bætist við að oft höfum við heyrt og lesið reynslusögur annarra.

Fæðing er stórmagnaður viðburður í lífi fjölskyldu og verkirnir sem fylgja fæðingunni eru ef svo má að orði komast eðlilegar aukaverkanir af virkni og átökum líkamans og þá verki þarf ekki að óttast.

Ef við setjum svona verki í samhengi, þá þekkja flestir verki í átökum eða eftir átök, svo sem í góðri fjallgöngu, í hlaupi og eftir erfiðan tíma í ræktinni. Verki sem fylgja átökum þekkir íþróttafólk til að mynda vel, átökin í athöfninni sjálfri og verkina sem á eftir koma. Flestir sem reynt hafa mikið á sig líkamlega þekkja líka vellíðanina sem fylgir því að takast á við erfitt en yfirstíganlegt verkefni og klára það. Vellíðan, sigurtilfinning og gleði.

Í eðlilegri fæðingu taka verkirnir ekki yfir upplifunina heldur eru hluti af henni. Þegar hlutirnir ganga venjulega fyrir sig er verkurinn hliðarafurð af vinnuþættinum. Fleira kemur inn í upplifunina, svo sem slökun og ró. Milli verkja kemur ró og vellíðan, eitthvað sem hormónar kvenna hafa mikil áhrif á. Í þessu ferli þar sem skipst er á milli verkja og hvíldartíma skiptir máli að geta dottið inn í ryþma, einhversskonar endurtekningu þar sem tíminn svo að segja stendur í stað en hringlaga ferli hvíldar og samdrátta endurtekur sig.  Verkurinn er einfaldlega líkamleg upplifun sem getur verið svo sannarlega óþægileg en á ekki að vera óyfirstíganleg.

En það er líka einhver lína milli verks og sársauka, átaka og þjáninga og það er stór munur á að upplifa verki sem hluta af ferli eða upplifa sig í þjáningu. Það má í raun segja að þjáning sé óeðlilegur hluti fæðingar, þegar verkurinn sjálfur verður óyfirstíganlegur og ryþminn tapast.

Skilin á milli verks og sársauka eða þjáningar eru ekki alltaf skýr og aðeins ljós í huga þess sem upplifir. Aðeins hin fæðandi kona veit sjálf hvort hún er að upplifa verki eða þjást.

Hvar skilin liggja er ólíkt milli kvenna, konur hafa misháan sársaukaþröskuld og mismikið þol fyrir verkjum. Margir minni þættir hafa svo áhrif á verkjaupplifun svo sem líðan fyrir og í fæðingu, fyrri reynsla, vonir og væntingar og umhverfi. Þá má ekki gleyma að ekki byrja allar fæðingar eins og margir læknisfræðilegir þættir hafa þar áhrif á.

Eitt af því sem gagnast til að haldast í ryþmanum og halda verkjunum yfirstíganlegum er til dæmis góður stuðningur frá fjölskyldu og fagaðilum, upplifun á öruggu umhverfi og góður undirbúningur þar sem verðandi foreldrar þekkja ferlið sem líkami konunnar fer í gegnum og kunna leiðir til að bregðast við verkjunum og hjálpa til við að lina þá. Þannig getur kona komist í gegnum fæðingu með góðri upplifun með verkjum en án þjáningar. Fari kona yfir skilin milli verkja og sársauka, finnur fyrir þjáningu og það sem gert er hjálpar ekki til að haldast í ryþma og stundin verður óbærileg og virðist óbærileg er fulllástæða til að stíga inn í og finna út hvaða verkjastilling er gagnlegust í þessum aðstæðum.

Hluti af mínu starfi er einmitt að hjálpa pörum að viðhalda ryþmanum svo verkirnir verði yfirstíganlegir en takast á við það með pörum þegar verkirnir breytast úr verkjum í sársauka.

Doulur- auka hendur- auka hjarta

Doulur- auka hendur, auka augu, auka hjarta.

Ég er stundum spurð að því hvort að doulur séu fyrir alla. Mig langar alltaf að segja, já doulur eru fyrir alla en það er kannski ekki svo einfalt, því við erum jú allskonar. Sumir sjá ekki fyrir sér að hafa neinn með sér meðan aðrir telja það nauðsynlegt.

Ég held að allar barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur hafi gagn af því að vera með doulu, einhvern sem er til staðar, alltaf, einhvern sem þau þekkja og geta leitað til og er með þeim á meðgöngunni, í fæðingunni og svo eftir fæðingu. Þjónustan verður samfelld og persónuleg. Svo eru heilmargar rannsóknir sem bakka þessa skoðun mína upp og sýna að samfelldur stuðningur konu sem er ekki hluti af félagsneti eða heilbrigðisneti.  Doula er stuðningur og stundum er fullur stuðningur, sérsniðinn því sem maður er að leita eftir heima hjá manni og í manns nánasta umhverfi og þá leitar maður ekkert lengra.

Doulur leitast alltaf við að styðja verðandi foreldra í gegnum fæðingu á þeirra forsendum. Það rúmar allskonar. Það þýðir að doula vill að foreldrar upplifi sig sterkari, rólegri og öruggari. Doulur hafa yfirleitt ekki neinn sérstakan metnað fyrir svona eða hinsegin fæðingum, þær hafa metnað fyrir ánægðari og vel studdum foreldrum.  Við aðstoðum oft konur sem stefna á heimafæðingu og  konur á spítala sem vilja venjulega inngripalausa fæðingu. Við styðjum konur sem stefna á verkjameðferð og konur sem fara í gagnsetningu og konur sem fara í keisara. Fjölskyldur sem eiga von á einu barni og tveimur og líka þegar við vitum að nýju foreldrarnir fara ekki heim með barn.

Ég hef stundum heyrt út undan mér að doulur hafi eingöngu áhuga á ,,náttúrulegum“ fæðingum, eða bara áhuga á heimafæðingum og hatist við mænurótardeyfingar og keisara. Ekkert af þessu er satt. Auðvitað eru til doulur einhversstaðar sem hafa einhverja sértækar hugmyndir en heilt yfir og sérstaklega get ég sagt á Íslandi að þá vilja doulur styðja konurnar á þeim stað sem þær eru staddar. Enda er það eðli starfsins, að styðja við það sem er.

Ég get í það minnsta fullyrt fyrir mig að engin þessarar staðhæfinga á við um mig. Ég vil styðja konur og þeirra fjölskyldur í að vera ánægð með sína fæðingu og ég get ekki ákveðið hvað er gott og lífsuppfyllandi fyrir einhvern annan. Ég get eingöngu stutt við þeirra ákvarðanir og hjálpað þeim að móta þær og kannski bent á fræðslu, efni og annað svo þau geti myndað sér skoðun.

 

birtha

Gagnsemi doula- rannsóknir

Rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi doula

Þrátt fyrir að doulur séu til þess að gera ný starfstétt hafa verið gerðar margar rannsóknir sem sýna fram á gildi þeirra og gagn.

Doulur eru stuðningskonur á meðgöngu og í fæðingu og sængurlegu doulur styðja svo konur fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Doulur veita stuðning en bera ekki klíníska ábyrgð og eru ekki heilbrigðisstarfsmaður. Starf þeirra er samfellt, það er sama doulan er með sömu fjölskyldunni alla fæðinguna. Ekki má heldur ekki gleyma að doulur vinna fyrir báða foreldra og styrkja maka í fæðingarferlinu og koma ekki í staðinn fyrir maka eða taka yfir þeirra hlutverk. 

En að rannsóknunum. Árið 2012 voru birtar niðurstöður frá Cohraine database þar sem teknar voru saman 22 rannsóknir þar sem meira en 15.000.- konur voru þátttakendur. (Fyrst birt árið 2013)

Stuðningurinn sem konurnar fengu var ólíkur, í einhverjum tilfellum var það stuðningur frá starfsfólki spítalans, svo sem ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi, stuðning frá konum (doulum) sem voru ekki starfsmenn spítalans eða í félagsneti móður (sem væri mamma eða vinkona)  og svo stuðning frá maka eða einhverjum í félagsneti konunnar svo sem ættingi/vinur.

Konurnar sem fengu samfelldan stuðning doulu í gegnum fæðingu voru líklegri til að fæða spontant eða án inngripa eins og áhalda eða keisara og það voru minni líkur á að þær þyrftu verkjalyf. Aukreitis var fæðingin örlítið styttri hjá þeim sem voru með doulur og barnið skoraði almennt hærra á Apgar-skalanum. Engar aukaverkanir fundust, sem er auðvitað mjög ánægjulegt. Sumir hópar innan rannsóknanna komu svo enn betur út t.d. konur í áhættumeðgöngu. Konur sem fengu stuðning doulu voru mun líklegri til að vera ánægðar með fæðinguna sína og mun minni líkur á að þær upplifðu sig ekki við stjórnvölinn og ,,stjórnlausar“ í fæðingu. 

Út frá þessum niðurstöðunum er mælt með að allar konur hafi samfelldan stuðning í gegnum fæðingu frá doulu, s.s. stuðning frá manneskju sem er viðstödd eingöngu til að styðja við fæðinguna og hefur reynslu af fæðingarhjálp og tilheyrir ekki félagsneti manneskjunnar né heldur spítalanum.

Árið 2009 gerði Hrafnhildur Margrét ljósmóðir lokaverkefni sitt um hlutverk doula og ljósmæðra, og talaði við tvær konur sem höfðu notið þjónustu doulu, þær konur voru afskaplega ánægðar með þá þjónustu sem þær fengu. Inni ritgerðinni segja konurnar sem talað var við um douluna sína ma. að hún hafi verið ,,mikill stuðningur við pabbann“ og að hún hafi ,,verið með einstaka nærveru“. Konurnar sem talað var við voru líka mjög ánægðar með ljósmæðurnar aðstoðuðu þær og upplifðu að þær hefðu fengið góðan alhliða stuðning.

Kristún Heiða tók svo viðtal við mig og tvær konur sem höfðu notið þjónustu minnar fyrir nokkru og þær höfðu jákvæða sögu að segja. Töluðu um að doulur væru kjölfesta og að undirbúningurinn hefði verið persónulegur og að það hefði myndast teymi.

Fyrir nokkru voru tekin viðtöl við nokkrar konur sem hafa notið stuðnings doula á Íslandi og vonandi fáum við að sjá niðurstöður úr því fljótlega en fjölskyldurnar sem talað var við voru mjög ánægðar og gaman að fylgjast með því þegar grein og niðurstöður verða kynntar.

 

 

Stuðningur í fæðingu

Doula sem sagt…já

Mér finnst ég loksins vera að öðlast góða reynslu af því að vera doula, komin með kjöt á beinin einhvern veginn. Margt í leik og starfi verður nefnilega ekki lært af bók heldur aðeins fengið með reynslunni og stundum finn ég að reynslan er farin að fleyta mér áfram í starfi mínu sem doula, sem er góð tilfinning.

Stundum í nýjum aðstæðum finnst mér þó ennþá skrýtið að segja hvað ég geri og hef jafnvel staðið mig að því að humma það fram af mér. En það er bara stundum.  Algengustu spurningarnar sem ég fæ enn í dag eru:

,,Doula, hvernig berðu það fram?”

,,Dúla sem sagt, og hvað gera þær?”

Og æ oftar heyri ég ,,vinkona mín var með doulu- þekkiru hana?” eða ,,ég ætla að vera með doulu næst” eða ,,ég vildi óska þess að ég hefði verið með doulu”. Þá lýt bara höfði í hljóði og þakka fyrir starfsvettvanginn minn.

Doula er upphaflega grískt orð sem þýðir kvenkynsþjónn eða þræll, með síðari tíma merkingu um að vera kona sem aðstoðar verðandi fjölskyldur (sama í hvaða formi þær eru) í gegnum fæðingu. Ég veit ekki annað en að doula sé orð sem er notað um allan heim.

Doula er borið fram dúla og er kannski ekkert sérstaklega þjált á okkar ylhýra en það er ekki komið betra orð sem stendur. Ég er alveg skotin í öðrum orðum eins og stuðningskona við/ í fæðingu. Stuðningskona er mjög lýsandi fyrir starfið mitt og mér finnst orðið fylgja skemmtilegur leikur að orðum, við fylgjum konum, fylgjur voru líka oft dýr eða menn sem fylgdu fólki í lifanda lífi og svo er fylgja tímabundið líffæri sem nærir barn í móðurkviði.  Margar aðrar tillögur hafa svo sem komið fram eins og hjálparhönd, eða hjálparhella, fæðingarhjálp og mörg fleiri sem eru alveg ágæt. Verandi elsk á tungumálið okkar tók mig smá tíma að venjast því að nota doula en það vandist hratt. Stuðningskona er líklega mest lýsandi. Doula, stuðningskona, fylgja mér finnst þetta allt falleg orð og svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort við höldum okkur við doula-orðið eða förum markvisst að passa að kynna stuðningskonur.

Starf doulunnar er fjölbreytt og skemmtilegt og felur alltaf í sér að styðja fjölskyldur, á þeim stað sem þær eru staddar, í gegnum meðgöngu og fæðingu og í sængurlegu.

Ég er orðin ansi þjálfuð í að segja ,,doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu en tekur aldrei klínískt hlutverk”. Kannski svo þjálfuð að ég er orðin mónótónísk þegar ég nota lyfturæðuna mína.

En þannig er það samt, ég styð barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur fyrir, í og eftir fæðingu og veiti samfellda þjónustu. Sem sagt sama manneskjan sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið. Það er ég kynnist parinu á meðgöngunni, við hittumst nokkrum sinnum oftast 2-3 þrisvar og förum yfir komandi fæðingu, hvaða óskir þau hafa og hvernig þau sjá fyrir sér fæðinguna og þannig þekkjumst við ágætlega þegar kallið kemur. Stundum setjumst við niður og förum lið fyrir lið yfir hvernig við getum búist við að fæðingin verði, stundum förum við yfir gagnlegar stellingar og stöður sem nýtast í fæðingarferlinu, stundum reynum við að kryfja hvernig við getum unnið með erfiðan ótta og stundum hittumst við bara og drekkum saman kaffi og treystum böndin.

Ég tek ekki ákvarðanir fyrir fólk eða reyni að benda þeim á valkosti A eða B, ég reyni mitt besta í að vera til staðar fyrir þau og finna leiðir með orðum og fræðslu til að efla þau og styrkja. Það þýðir að fólkið sem ég kynnist er bara allskonar, ég hef aðstoðað pör í heimafæðingu, á spítala, konur sem eru að fara í keisara. Konur sem þrá fæðingu án inngripa og konur sem vilja verkjastillingu sem fyrst. Ég hef verið sjálfstæðum konum innan handar með lítið stuðningsnet og konum sem eru umvafðar her manns. Ég hef verið með þegar von er á fyrsta barninu og öðru líka.

Ég er ekki góð í öllu og með tímanum slípast reynslan til og í einhverju er ég betri en öðru en ég finn líka að með tímanum er það ekki endilega hvað ég kann heldur meira hvað það er sem konurnar eru að spá sem skiptir máli. Stundum líður mér bara eins og ég sé klettur þarna út í hafinu eða tré sem veitir skjól.

Í fæðingunni kem ég þegar mín er óskað og fer þegar ég er beðin um það (en fer sjálf svona c.a. tveimur tímum eftir fæðingu ef enginn segir neitt). Engin vaktaskipti og tek í raun ekki pásur. Ég get sinnt fæðingunni 100%.
Hver fæðing er einstök og hvert par fer aðeins einu sinni í gegnum hverja fæðingu svo það er misjafnt hver aðkoma mín er. Ég er yfirleitt í sambandi við fólk þegar það finnur og fæðingin er í uppsiglingu, ég kíki oft heim til þeirra og ef það er byrjandi fæðing stoppa ég kannski í smá stund og fer aftur og kem svo aftur seinna en er áfram ef mín er þörf. Stundum hitti ég parið uppi á spítala um leið og þau fara en stundum kem ég beint í mesta fjörið.

Í fæðingunni get ég verið úti í horni og sagt ekki neitt, stundum er ég að spjalla, stundum nudda og stundum hughreysta. Allt eftir því hvernig fæðingin er og hvar í ferlinu við erum. Stundum sæki ég vatn og rétti út þvottapoka, stundum kinka ég bara kolli og stundum er ég að hjálpa til við að takast á við breyttar aðstæður. Stundum hef ég þurft að taka á öllu mínu og ekki haft hugmynd um hvað ég eigi að gera annað en að vera til staðar og reyni að taka bara vel eftir svo við getum rætt fæðinguna eftir á. Reyni í þá í veikum mætti að gera gagn en vera ekki fyrir.
Í flestum fæðingum spyr ég mig ítrekað, hvernig minning verður þessi fæðing og reyni að hugsa leiðir til þess að upplifunin þar og þarna verði sem jákvæðust fyrir alla.

Svo þegar barnið er fætt dreg ég mig oftast í hlé og reyni í öllu þysinu að leyfa foreldrunum nýju að njóta, ég reyni líka að grenja ekki úr mér augun og staglast á einhverju eins og ,,ji minn, þið eruð æði” sem ég finn að er pínu þema hjá mér. Ég finn aldrei jafnmikla aðdáun eins og í fæðingum. Það er ekkert eins heilagt.
Ég kveð svo nýju eininguna fljótlega og kem mér heim. Það er svo magnað að vera í fæðingu annarar fjölskyldu. Aukaafurð er að það er magnað að koma heim til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hafa verið fæðingu annars barns. Stundin sem maður gengur aftur inn í húsið er heilög, það er eitthvað nýtt og fallegt heima hjá mér líka í hvert sinn. Fyrir það er ég svo þakklát.

Eftir fæðinguna hitti ég fólkið yfirleitt tvisvar, strax eftir fæðingu og svo nokkrum dögum seinna til að fara yfir fæðingarupplifunina og ef það er eitthvað sem ég get gert frekar. Annars kveðjumst við, oft í bili, og ég finn að þau eiga sérstakan stað í hjarta mér. Alltaf. Ég er alltaf að æfa mig í að eiga auðvelt með kveðjustundir en það er yfirleitt í kveðjustundunum sem ég man af hverju ég sinni þessu starfi með skrýtna heitinu.
Það sem rekur mig áfram er að finna, konu fyrir konu, fjölskyldu fyrir fjölskyldu að þau stóðu sterkari uppi fyrir vikið. Að með því að sitja á hliðarlínunni upplifðu þau kraft og styrk. Kannski vellíðan. Það er góð tilfinning, það er ástæðan fyrir því að ég er doula.

family-1246171-639x919

Stuðningur í fæðingu

Stundum þegar ég hef verið að aðstoða fólk við að undirbúa sig fyrir komu barns í heiminn hef ég spurt pabbann/makann hvernig hann sjái fyrir sér að styðja konuna sína í gegnum fæðinguna. Sjaldnast stendur á svari ,,ég ætla bara að gera mitt besta, gera það sem hún biður mig um og vera til staðar“.

Það er nefnilega heilmargt sem stuðningsaðilinn getur gert til að létta undir í fæðingunni.

Mikilvægur en vanmetinn eða vanræktur stuðningur felst í því að vera sjálfur í lagi, vera búinn að borða vel undanfarna daga og hvíla sig. Fæðing er oftast hörkupúl sem getur verið mjög löng og krafist þess að maður geri allskonar, það er mikið betra fyrir mann sjálfan og alla í kring að vera upplagður.

Það er gott að vera með á nótunum, hafa spjallað vel um komandi fæðingu og hvernig þið sjáið hana fyrir ykkur. Hvar ætlið þið að fæða? Hvenær er stefnan tekin á að fara þangað? Afhverju? Hvað ætlið þið að gera í biðtímanum? En þegar allt er komið á fullt? En ef það er eitthvað óvænt, hvað þá? Hvert er plan A? En plan B? Hvað viljið þið gera ef plan C hoppar til ykkar? Við hvað eruð þið hrædd og af hverju? Hvernig ætlið þið að tækla það ef sú staða kemur upp? Viðhorf til verkjastillingar, hvert er það? Eruð þið með svipað tollerans í því? Ef þið eruð búin að ræða málin vel getið þið betur tekist á við aðstæður sem koma upp.

Fæðingarundirbúningur er líka mikilvægur, það er gott að þekkja fæðingarferlið, upphaf, einkenni, hvað er eðlilegt og við hverju þarf að bregðast. Hvað er gott að gera í hverjum aðstæðum og hafa reynt og prófað það sem líklega kemur upp. Mikið betra að hafa kynnt sér það í tíma frekar en að panikka á ögurstundu.
Að sama skapi er gott að hafa tileinkað sér ákveðna öndunartækni sem róar mann og nýtist í fæðingunni, fyrir mann sjálfan og svo konuna sem maður styður. Einfaldasta formið er að anda þrisvar djúpt að sér andanum og anda frá rólega og skoða með opnum huga hvaða áhrif það hefur á líkamann.

Þá getur verið gott að vera búinn að kynna sér eitthvað um nudd í fæðingu, það eru ákveðin svæði á baki og mjöðmum sem mörgum konum finnst gott að láta nudda eða þrýsta á í fæðingu, maður fær oft auka stig í kladdann með því að vita hvar er gott að fá nudd og strokur. Flestar konur vilja léttara nudd í upphafi fæðingar og svo þéttara eftir því sem líður á fæðinguna.

Einlægt hrós er alltaf hvetjandi og það getur verið gott að vera búinn að setja smá hugsun í hvaða orð hvetja konuna áfram, hvaða hrós hittir hana í hjartastað og eflir og hvetur. Hvaða orð notar hún sjálf til að hvetja sig áfram? Ekki vera spar á hrósið, það kemur mann nær lokamarkmiðinu.

Vertu til staðar í augnablikinu og veittu því athygli sem er að gerast. Sjúklega erfitt, sérstaklega þegar aðstæður eru pínu erfiðar en það margborgar sig. Skoðaðu með opnum huga hvað er að gerast, hvert er hún að horfa? Er endurtekning í ferlinu hjá henni? Nær hún að slaka á og sóna út á milli hríða? Veittu því athygli hvort það hljómi allt eins og það sé í himnalagi eða er verið að gefa eitthvað annað til kynna?

Ekki tala meðan á samdrætti stendur, betra að tala á milli og ef eitthvað er óljóst er yfirleitt betra að spyrja beinna spurninga sem auðvelt er að svara með jái eða nei-i. ,,Viltu vatn?“ er þægilegri spurning en ,,hvað viltu drekka?“. Fyrri spurningin býður upp á já/nei svar og svo er líka hægt að kinka kolli eða hrista höfuðið eftir því sem við á.

Vertu vakandi fyrir bendingum, stundum geta konur ekki talað eða vilja ekki segja neitt og
þá er gott að geta bent með höfðinu eða fingrunum í áttina að því sem mann vanhagar um eða truflar mann.

Forðastu allar leiðbeiningar um andardrátt nema vera handviss um að það sé viðeigandi ,,anda inn- anda út“ getur verið mjög ruglandi og manns eigin andardráttur ekki í takt við öndun konunnar eða í samræmi við líðan hennar. Ef maður er ekki viss um að andardráttur konunnar sé eins og hún myndi kjósa reynist vel að stilla sig inn á hana og leiðbeina með útöndun, hvetja til að anda rólega frá sér og anda alveg frá sér frekar en að spá í hvernig innöndunin er.

Vertu þolinmóður eins og þú getur. Fæðing tekur oft langan tíma, venjuleg fæðing yrði aldrei sýnd í sjónvarpi í rauntíma því hún er langdregin og getur dregist og dregist. Vertu þolinmóður og haltu í jákvæðnina og bjartsýnina. Áður en þið vitið af er litla krílið komið í fangið til ykkar.

 

 

 

rebozonl

Rebozo í fæðingu

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem doula tók ég ástfóstri við rebozo, ég fer helst ekki í fæðingu án þess að hafa það með í töskunni. Stundum er það þar ósnert en oft tek ég það upp og það hefur margsannað gildi sitt. Það getur róað, nuddað og flýtt fæðingarferlinu. Ekki það, ég hef jafnoft ekki tekið það upp úr töskunni minni og stundum hreinlega gleymt því heima. Rebozo er dásamlegt þegar það á við.
Ég tók saman nokkur myndbönd sem sýna ágætlega hvernig er hægt að nota rebozo í fæðingu.

Hér er stutt myndband um hvernig rebozo getur stutt við mjaðmir á meðgöngu og í fæðingu.

Þá er hér myndband um hvernig er hægt að nota rebozo í spítalarúminu

Hér er svo myndband af Naoli Vinaver sem er mikill frumkvöðull í að kynna rebozo,

 

 

doulapic

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.