Bumbumyndataka

Ég var svo spennt þegar Anna ljósmyndari hjá Stúdío Douglas var til í að taka þátt í smá viðburði og mynda barnshafandi konur í tilefni douluvikunnar sem er dagana 22.-28. mars. Yfir mig spennt.  Ég kynntist Önnu fyrst í gegnum bumbuhóp á Draumabörnum sem var (og hét), við eigum börn fædd sama ár. Svo fórum við að hittast árlega því hún var svo sæt að taka að sér að mynda börn á brjósti í tilefni brjóstagjafavikunnar.

20160330_165418

Við hittumst í dyrunum í stúdíó-inu hennar og ein og ein týndust þær inn, fallegu konurnar með börnin sín innan borðs. Þær voru mislangt komnar á leið allt frá 25 vikum að 37 vikum. Ein reyndar afboðaði sig því hún ákvað að fara frekar á fæðingardeildina! Sumar áttu von á fyrsta barni, aðrar öðru eða þriðja og ein á sínu fimmta, hversu dásamlegt er það.

mynd frá Önnu

Þetta var örmyndataka, þær skutust inn í stúdío-ið, Anna tók myndir og ég sat vaktina frammi á meðan, flestar voru 7 mínútur inni. Pælingin var bara að ná einni til tveimur góðum og fallegum myndum til að eiga til minningar.

Stillingin í Stúdío-inu var þannig að myndirnar verða dökkar, hlýjar og fallegar. Svona eins og Önnu er einni lagið. Svolítil nekt en vel stofuviðeigandi.

Hugmyndin að örmyndatöku er ekki ný af nálinni, við höfum gert þetta í tilefni brjóstagjafavikunnar í nokkur ár núna. Hugmyndafræðin á bakvið þetta er einföld. Við viljum vekja athygli á fegurðinni í nýju lífi, gefa okkar hráasta tíma gaum. Ég á margar myndir frá Önnu, meðal annars bumbumyndir og mér þykir svo vænt um bumbumyndirnar mínar. Þær minna mig á góðan tíma, ég man hvaða ilmvatn ég notaði þennan dag, ég man hvernig mér leið, finnst gaman að hugsa um barnið sem kom og ég man hvað mér fannst ég sérstök að vera í bumbumyndatöku.
Auðvitað líður ekki öllum vel á meðgöngunum sínum en ég held að það sé þá líka gaman að ná mynda fegurðina sína og kannski minna sig þannig á að jafnvel þó maður upplifi erfiðan tíma þá leynist fegurðin allsstaðar, eða það hugsa ég það.

bum22

Takk allar sem tókuð þátt í þessu með okkur!