Ég vildi að ég hefði vitað

Eldri stelpan mín er fjögurra ára gömul og oft finnst mér við vera jafngamlar. Hún hefur kennt mér mikið um lífið og margt um sjálfa mig.

Mér finnst ég hafa verið fljót að stilla mig inn á hana en suma daga tek ég svona ohh, ég vildi að ég hefði vitað, til daganna sem hún var lítil og ég vitlaus móðir og við að kynnast.

Ég vildi að ég hefði almennt vitað meira um brjóstagjöf. Hún tekur tíma, kona kemst varla á klósettið á milli gjafa. Það getur verið erfitt og vont og þreytandi að vera með barnið á brjósti. Ég vildi að ég hefði vitað hvernig þau sýna merki um svengd og ég vildi óska að ég hefði vitað að það er í lagi að finnast það ekki frábært að vera með barn á brjósti allan sólarhringinn.

Ég vildi að ég hefði vitað meira um nándarþörf barna og hve mismikil hún er eftir karakterum. Ég eignaðist stelpu sem þurfti mikla athygli og nánd og ég var 4 vikur að fatta það. Það er allt í lagi að halda á barninu allan sólarhringinn og hafa það hjá sér, upp við sig og með sér meðan allir eru sáttir.

Ég vildi að ég hefði áttað mig betur á mikilvægi hvíldar, nýtt sængurleguna betur í að liggja fyrir en ekki sýna hvað ég var hress nýbökuð móðir. Ég vildi að ég hefði fattað að það gerir kraftaverk að fara ekki á fætur fyrir hádegi og stundum ætti að vera uppáskrifað að kona eigi að leggja sig með barninu sínu.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn sofa mismikið og sum þeirra sofa jafnvel lítið. Ég vildi að ég hefði vitað hve mikilvæg regla, rólyndi og leggjur eru þegar kona á þannig börn. Ég vildi að ég hefði vitað að það er börnum eðlilegt að vakna 1-3 á nóttu allt fyrsta árið sitt.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn vilja nærast þegar mamman nærist, ég hefði getað sparað mér mikinn tíma við að reyna að fá hana til að sofa meðan ég borðaði. Lífið varð svo miklu einfaldara eftir að ég hætti að reyna.

Ég vildi að ég hefði vitað að ég þarf ekki að leyfa öðrum að halda á barninu mínu frekar en ég vil.

Ég vildi að ég hefði passað betur upp á heimsóknartímann strax eftir fæðingu og ég vildi að ég hefði slökkt á símanum oftar.

Ég vildi að ég hefði beðið mömmu um að koma oftar og stoppa lengur.

Ég vildi að ég hefði áttað mig fyrr á því að ég þarf ekki að vera betri húsmóðir en amma var. Þvotturinn bíður og draslið verður þarna að eilífu en litla stúlkan stækkar hratt.

Ég vildi að ég hefði fattað fyrr að ég þarf að hugsa vel um mig til þess að hugsa vel um fjölskylduna mína. Þegar ég er í jafnvægi þá er fjölskyldan mín það líka.

Ég vildi að ég hefði fylgt hjartanu enn meir alltaf alveg frá upphafi. Þegar kona tekur ákvörðun út frá hjartanu tekur hún rétta ákvörðun, alveg óháð velmeinandi frænkum, uppeldisbókum og öðrum uppeldissérfræðingum.

Ég vildi líka að ég hefði vitað að það er ekki hægt að vita fyrirfram hvernig kona upplifir foreldrahlutverkið og ég vildi að ég hefði áttað mig á hvað það er dásamlega frábært að kunna ekki neitt. Kannski reyndi fólk eftir bestu getu að segja mér þetta allt og reyndi jafnvel að troða því ofan í mig og ég hlustaði ekki.

Hefði einhver sagt mér fyrirfram að eftir fæðingu barnanna minna myndi ég leggja upp í stærsta, skemmtilegasta, dásamlegasta, erfiðasta og fyndnasta ferðalag lífs míns þar sem ég þyrfti að taka á öllu mínu alla daga og upplifi hæstu hæðir og dýpstu dali hefði ég líklega hlegið frekar hrokafullt og fullyrt að þannig yrði það ekki hjá mér.

Kannski hefði ég betur hlustað aðeins fyr.

Pistillinn birtist fyrst á foreldrahandbókinni 2011