Rebozo-námskeið

Á námskeiðinu er farið yfir hvernig er hægt að nota rebozo (ofið sjal) til slökunar og nudds, ekki síst á meðgöngu, í fæðingu og á sængurlegu.

Rebozo-tækni þessi hefur farið sigurför um heiminn en hefur í gegnum aldirnar mikið verið notuð í Mexíkó við góðan orðstír. Ávinningurinn er mikill og fljótfenginn.

Námskeiðið hentar öllum og kemur sér vel fyrir doulur, ljósmæður, nuddara og aðra sem starfa mikið með og fyrir barnshafandi konur. Rebozo- tæknin hefur líka nýst vel með börnum, öldruðum og rúmliggjandi fólki enda er auðvelt að tileinka sér tæknina, og gaman og auðvelt að nota hana í flestum aðstæðum. 

Um er að ræða dagsnámskeið , þar sem farið verður yfir grunnatriði rebozos og áhersla á konur fyrir, í og eftir fæðingu sem og rebozo í leik og starfi.

Verð: 16.500.-  Mörg stéttarfélög taka þátt í að niðurgreiða námskeiðið.
Hægt er að fá lánað rebozo fyrir þá sem ekki eiga sjal.

Nánari upplýsingar og skráning á soffia@hondihond.is og í síma 862-4804

Dagskrá námskeiðsins

inngangur að rebozo, spjall og kynning

upprifjun eftir þörfum

rebozo á stól, með tveimur sjölum.

rugg, þrýstingur og öndun

útafliggjandi nudd

slökun og teygjur

nudd í hliðarlega

hádegismatur

standandi nudd

nudd í fæðingu, örvun hríða, slökun vöðva.

rebozo og öndun

rebozo-snúningur fyrir ljósmæður, barninu snúið

ný trix og tækni

Aðeins um notkun rebozo-sjalsins

Rebozo er ofið sjal, yfirleitt 2.6 -2.9 metrar á lengd og er fjölnota. Það er mikið notað í Mexíkó og Guatemala og víðar í mið og suður ameríku og flestar konur eiga rebozo og nota það mikið. Þar getur notkun sjalsins gefið til kynna hjúskaparstöðu, verið notað til að bera hluti og ekki síst til að bera börn. Rebozo er líka notað á meðgöngu og í fæðingu og nýtist ansi vel og á meðgöngu nota konur það til að vefja um maga sinn til aukins stuðnings einskonar meðgöngubelti sem léttir á bak og grindarverkjum.

Ljósmæður í Mexíkó nudda kúnnana sína á meðgöngu og í fæðingu. Eftir hefðbundið eftirlit fær konan svo nudd sem hefst vanalega á höfuð og handanuddi og svo er tekið til við að nudda með rebozo-inu, sjalið er hreyft taktfast frá toppi til táar. Núningurinn á mjaðmasvæðið og læri er sérstaklega slakandi og þægilegur. Móðir og barn rugga saman og slaka á og ekki er óalgengt að verðandi móðir og ljósmóðir tali við barnið á meðan.

Í Mexíkó er sjalið líka notað af ljósmæðrum til að snúa barni sem ekki fer í höfuðstöðu, konan liggur þá á bakinu og er hrist með sjalinu á ákveðinn hátt og þannig er barnið hvatt til að snúa sér.

Rebozo kemur að góðu gagni í fæðingu, það er sérlega slakandi fyrir fæðandi konu að fá sjalið um sig, hreyfingin nær fram slaka í vöðvunum sem svo flýtir fyrir útvíkkun. Notkun rebozo í fæðingu hefur oft komið ferlinu aftur af stað og þannig komið í veg fyrir að grípa hafi þurft til frekari inngripa.

Í mexíkó fá svo konur nudd á sængurlegunni sem er ætlað til að loka ferlinu þ.e. þegar líkaminn er kominn af stað í að jafna sig og nuddið ýtir undir að líkaminn jafnar sig hraðar.

Rebozo-nuddið hefur líka gagnast vel fyrir þá sem eru með skerta hreyfigetu eða kunna því illa að láta snerta sig húð við húð. Það er einfalt að setja sjalið undir manneskjuna og rugga á taktföstum hraða sem er einstaklega slakandi.

Frábært námskeið!