Leiðir til að takast á við kvíða

Barnshafandi konur geta upplifað svo margskonar kvíða fyrir komandi fæðingu. Smá streita og kvíði er skiljanlegur þegar maður veit að maður er að fara að upplifa eitthvað sem maður hefur ekki gert áður.  Kvíðinn getur verið margskonar, ótti við að eitthvað komi fyrir sig eða barnið, að maður höndli ekki verkina, að stjórnin verði tekin af manni, að fæðingin fari á annan hátt en maður vonaði svo einhver dæmi séu nefnd.

Við þessum ótta og kvíða er þó hægt að gera eitt og annað til að sefa hann og róa og vinna með hann því það gerist lítið við að stinga höfðinu í sandinn, því miður. (þó það virki oft sem það besta í stöðunni).

Kannski það fyrsta í stöðunni er að horfast í augu við óttann og átta sig á því hvers eðlis hann og hvernig er hægt að vinna með hann. Hvers eðlis er óttin og hvernig er hægt að tækla hann? Er óttinn helst við að rifna eða öskra í fæðingunni? Eða er hann tengdur óttanum við að missa stjórn á sér og aðstæðum og að stjórnin verði tekin af manni? Því meira sem maður veit um hvað óttinn er því betur getur maður brugðist við honum og oft hverfur hann við það að fá athygli.

Þá er gagnlegt að undirbúa sig vel og reyna að átta sig á því út í hvað maður er að fara, hluti af því er að lesa sér til, nú er til margt gott efni á netinu án endurgjalds, það eru sífellt fleiri íslenskar bækur sem koma út og aragrúi af bókum á ensku sem eru gagnlegar, hjálpa manni að skilja ferlið og undirbúa sig fyrir fæðingu.

Sögur og reynsla annarra er svona beggja blands. Það getur verið gott að umvefja sig góðum sögum, finna félagsskap í konum sem hafa trú á sér og öðrum, það getur gefið manni kraft og þor. Slíkum sögum verður maður að taka sem hvatningu en muna að manns eigin reynsla verður einstök.

Sama gildir um hinar sögurnar sem voru sárar og erfiðar, það má læra af flestum sögum en stundum situr maður eftir með hálfa sögu hræddari en maður var. Það er eins með erfiðu reynsluna og þá góðu, það má taka það sem höfðar til manns og muna að reynsla annarra er ekki endilega manns eigin. Stundum verður maður að slökkva á sjónvarpinu, hætta að gúgla og passa sig á að taka sögum með fyrirvara til að passa upp á sjálfan sig.

 

Það er gott að gera eitthvað á meðgöngu sem hjálpar manni að takast á við fæðinguna eins og að fara í meðgöngujóga eða stunda jóga/ slökun / núvitund. Eitthvað sem maður hefur æft fyrir fæðinguna og hjálpar manni að takast á við manns eigin huga í þeim aðstæðum sem maður er. Það að geta dregið athyglina inn, andað djúpt að sér og frá sér getur verið það hjálplegasta sem hægt er að gera í krefjandi aðstæðum. Það að kunna slökun gerir verkina sem fylgja fæðingu oftast bærilegri og viðráðanlegri og jafnvel styttri! Það er til allskonar slökun, jóga nidra, hypnobirthing, núvitund, mikilvægast að finna eitthvað sem hentar manni.

Námskeið og fræðsla hjálpa til við að sefa óttann, það getur verið gott að fara á fæðingarundirbúningsnámskeið með makanum og í kjölfarið ræða vel hvernig fæðingu maður sér fyrir sér, af hverju og hvernig maður getur helst nálgast það. Fæðingarundirbúningsnámskeið eiga að gefa manni verkfæri sem nýtast þegar í fæðinguna er komið.

Það getur verið gott að hafa einhvern með sér í fæðingunni sem styður þig og ykkur í gegnum allt ferlið, einhvern sem þið treystið.