Doulur- auka hendur, auka augu, auka hjarta.

Ég er stundum spurð að því hvort að doulur séu fyrir alla. Mig langar alltaf að segja, já doulur eru fyrir alla en það er kannski ekki svo einfalt, því við erum jú allskonar. Sumir sjá ekki fyrir sér að hafa neinn með sér meðan aðrir telja það nauðsynlegt.

Ég held að allar barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur hafi gagn af því að vera með doulu, einhvern sem er til staðar, alltaf, einhvern sem þau þekkja og geta leitað til og er með þeim á meðgöngunni, í fæðingunni og svo eftir fæðingu. Þjónustan verður samfelld og persónuleg. Svo eru heilmargar rannsóknir sem bakka þessa skoðun mína upp og sýna að samfelldur stuðningur konu sem er ekki hluti af félagsneti eða heilbrigðisneti.  Doula er stuðningur og stundum er fullur stuðningur, sérsniðinn því sem maður er að leita eftir heima hjá manni og í manns nánasta umhverfi og þá leitar maður ekkert lengra.

Doulur leitast alltaf við að styðja verðandi foreldra í gegnum fæðingu á þeirra forsendum. Það rúmar allskonar. Það þýðir að doula vill að foreldrar upplifi sig sterkari, rólegri og öruggari. Doulur hafa yfirleitt ekki neinn sérstakan metnað fyrir svona eða hinsegin fæðingum, þær hafa metnað fyrir ánægðari og vel studdum foreldrum.  Við aðstoðum oft konur sem stefna á heimafæðingu og  konur á spítala sem vilja venjulega inngripalausa fæðingu. Við styðjum konur sem stefna á verkjameðferð og konur sem fara í gagnsetningu og konur sem fara í keisara. Fjölskyldur sem eiga von á einu barni og tveimur og líka þegar við vitum að nýju foreldrarnir fara ekki heim með barn.

Ég hef stundum heyrt út undan mér að doulur hafi eingöngu áhuga á ,,náttúrulegum“ fæðingum, eða bara áhuga á heimafæðingum og hatist við mænurótardeyfingar og keisara. Ekkert af þessu er satt. Auðvitað eru til doulur einhversstaðar sem hafa einhverja sértækar hugmyndir en heilt yfir og sérstaklega get ég sagt á Íslandi að þá vilja doulur styðja konurnar á þeim stað sem þær eru staddar. Enda er það eðli starfsins, að styðja við það sem er.

Ég get í það minnsta fullyrt fyrir mig að engin þessarar staðhæfinga á við um mig. Ég vil styðja konur og þeirra fjölskyldur í að vera ánægð með sína fæðingu og ég get ekki ákveðið hvað er gott og lífsuppfyllandi fyrir einhvern annan. Ég get eingöngu stutt við þeirra ákvarðanir og hjálpað þeim að móta þær og kannski bent á fræðslu, efni og annað svo þau geti myndað sér skoðun.