Svefn ungbarns

Svefn er eitthvað sem við erum flest að spá í fyrsta ár barnsins, margir foreldrar finna að þau sofa minna og það tekur tíma að finna út hvernig er best að hjálpa barninu að fara að sofa.
Fyrstu mánuði barnsins er best ef það sefur alltaf í nálægð við foreldrana, þannig er hægt að sinna því þegar það vaknar án mikillar fyrirhafnar og heyra í því þegar það fer að rumska.

Nokkur atriði er varða rúmið/svefnstaðinn er gott að hafa í huga:

  • Passa að hafa ekki of heitt inni í herberginu
  • Dýnan á að vera stíf og jöfn
  • Ekki kodda fyrsta árið
  • Passa að hafa jafnvægi í sængurfatnaði, ekki of þykka sæng sérstaklega ef barnið er vel klætt
  • Ekki stuðkanta eða mörg mjúkdýr í rúmið/vögguna
  • Barn á alltaf að vera lagt á bakið til svefns

Ef barnið sefur uppí hjá foreldrum er mikilvægt að hafa í huga:

  • Aðeins foreldrar eða þeir sem annasta barnið hafi það upp í hjá sér
  • Gæta þess vel að barnið geti hvergi dottið fram úr
  • Enginn koddi og sérábreiða fyrir barnið
  • Foreldrar verða að vera í góðu standi, þ.e. ekki er mælt með því að foreldri sem hefur neytt áfengis, taki lyf, reyki eða á annan hátt er með skerta getu til að bregðast við barni deili rúmi með barni.

Fyrstu mánuðina eru börn í raun ekki með sérstaka svefnrútínu, þau sofa þegar þau eru södd og búin að leika. Þó er gott að fara að huga að því fljótlega að búa til góðar venjur með barninu, þannig að það sé fyrirsjáanleiki í daglega lífinu. Það hjálpar foreldrunum líka heilmikið að hafa ákveðinn ryþma.

sweet-dreams-ii-4-1525158-640x480

Ráð til að fækka/hætta næturgjöfum

Ein algengasta fyrirspurnin sem ég fæ er um hvernig sé best að hætta næturgjöfum og þá helst hvenær, hvort einhver tími sé betri en annar.

Börn eru ólík og hafa misjafnar þarfir svo það verður að taka inn í jöfnuna hvernig týpa barnið er, aldur og svo auðvitað þarfir og óskir foreldranna.

Það er mikilvægast af öllu að foreldrar finni innra með sér að næturgjafirnar trufli upp að því marki að þeir vilja hætta og hvatinn komi frá þeim og barninu en ekki utan frá utanaðkomandi aðilum. Málið er að það kemur alltaf að því að barnið sefur í gegnum nóttina og næturvöknunin heyrir sögunni til. Ef þið eruð frekar afslöppuð með þetta og takið þessu létt er það bara allt í lagi. Hinsvegar er áríðandi að taka málin í sínar hendur þegar maður finnur að svefnleysið eða svefnrofið er farið að hafa merkjanleg áhrif á sig og þá er gott að vera nokkuð staðfastur í sínu.

Þegar tekið er á næturdrykkju barna er gott að hafa í huga að það að barnið hætti að drekka á nóttunni þýðir ekki endilega að það hætti að vakna á nóttunni en það getur vel þýtt að það vakni sjaldnar og að það sé auðveldara að takast á við næturvöknunina. Stundum er töfralausnin að hætta næturdrykkju, þegar hvatinn að því að vakna er orðinn lítill fara sum börn að sofa í gegnum nóttina.

Ég tók saman nokkur atriði sem vonandi hjálpa þegar minnka á næturgjafirnar.

Gefa góða næringu jafnt og þétt yfir daginn.

Krílin okkar eru mikið á ferðinni, skoða heiminn, rífa, tæta, leika og oft er eins og þau hafi hvorki tíma né nennu til að drekka og næra sig á daginn en það skiptir máli að næra magann reglulega yfir daginn svo hann vilji hvílast á nóttunni. Börn sem nærast lítið á daginn vegna anna munu bæta sér það upp á nóttunni. Það er líka gott að hafa í huga að oft er auðveldara að hætta næturgjöfum ef maður man eftir því að gefa sér tíma í daggjafirnar.

Veita athygli og nánd yfir daginn

Sum börn eru of upptekin á daginn til að veita foreldrum sína nokkra athygli og sækja sér í nánd og hlýju á nóttunni. Það er auðveld að minna niður snertingu og umönnum eftir því sem barnið er eldra án þess að gera sér grein fyrir því. Aukin næturdrykkja og þegar börn hanga á stóran hluta nætur kemur líka oft í kjölfarið á meiri fjarveru t.d. þegar farið er aftur til vinnu og samverustundum fækkar.

Passaðu að gefa fulla gjöf ef barnið vaknar.

Stundum rumskar barnið til að drekka en sofnar í raun strax aftur (og kannski þú líka) og þá hefur það ekki drukkið nægju sína, er enn svangt og vaknar fljótlega aftur til að drekka. Gott ráð er að ef barnið vaknar til að drekka eftir ásættanlegan tíma er að passa að gefa því vel að drekka og freista þess þannig að barnið sofi aftur langan dúr.

Losaðu brjóstið

Eftir að barnið hefur drukkið nægju sína gættu þess þá að það losi takið af brjóstinu og haldi áfram að sofa. Þegar hægja fer á kyngingum hjá barninu er upplagt að losa brjóstið frá, þægilegast að setja fingurinn í munnvikið og þá losnar takið. Stundum verða þau pirruð og þá er bara að meta hvort maður haldi áfram að leyfa barninu að drekka og haldi svo áfram að losa en lykillinn að árangri er að losa alltaf takið í næturgjöfum og halda sér við efnið. Fyrst er barnið pirrað, svo fer það að venjast þessu og að endingu nær maður upp vananum að barnið drekkur, sleppir brjóstinu og heldur áfram að sofa.

Gættu þess að ofsvara barninu ekki.

Börn rumska oft yfir nóttina og gefa frá sér hljóð en í mörgum tilfellum halda þau svo áfram að sofa, það er mikilvægt að staldra við og meta stöðuna áður en maður bregst við. Frekar að hinkra aðeins og sjá hvort þau fari aftur að sofa en að rjúka til og gefa sofandi barni.

Einföld regla eins og að telja upp á tíu, anda þrisvar og prófa að sussa á barnið eða gefa því snuð virkar oft til að koma börnum af stað í annan svefnhring.

Ekki sofa upp við barnið

Stundum vakna börn einfaldlega bara af því að þau eru svo nálægt mömmunni, lyktinni og húðinni og það getur hreinlega vakið þau að rekast upp við bera húð. Hlýtt og gott, rumsk, mömmuhúð, alveg rétt- er ekki kominn tími til að drekka?

Þetta ferli má brjóta upp með því að hafa bil á milli ykkar, ef barnið sefur upp í að hafa pláss á milli eða hitt foreldrið á milli eða með því að barnið sé í eigin svefnfleti.

Það er allt í góðu að segja nei!

Þegar börnin eru farin að skilja vel er hægt að setja þeim mörk og neita þeim. Þetta krefst endurtekningar og þolinmæði en hefst að lokum.  Aðstæður gætu verið svona, Barn; drekka (oftast sagt með hljóðum eins og neeh) mamma; nei/ ekki núna/ seinna/ á morgun. , barn; drekka, mamma; nei/ ekki núna. Með því að vera staðfastur og yfirvegaður hefst þetta að lokum. Hér er það endurtekningin og staðfestan sem skilar sér hratt. Persónuleiki barnsin hefur heilmikið að segja, sum börn láta sér segjast við neitum tvö eða þrjú meðan önnur þræta fleiri fleiri daga.

Fáðu aðstoð

Stundum er það þess virði að skipta út hlutverkum og leyfa hinu foreldrinu að taka við næturbröltinu. Ávinningurinn af þessu getur verið margvíslegur, einn er betri svefn, annar er betra tækifæri fyrir pabbann að hugga barnið og tengjast því og barnið öðlast meiri færni við að hafa fleiri umönnunaraðila.

Í þessum aðstæðum borgar sig að pabbinn svæfi barnið og sinni því svo þegar það vaknar aftur með því að hugga, róa, rugga.

Til þess að þetta gefist vel þarf barnið að vera orðið það gamalt að það skilji og skynji umhverfi sitt vel. Ykkar tilfinning verður að fylgja máli og verið viss um að barnið sé orðið það gamalt að þörfin fyrir næturgjafir er ekki lengur til staðar. Það borgar sig líka að gefa sér tíma í þessa kynningu fyrir barnið. T.d. ef móðir hefur nær eingöngu annast barnið þegar kemur að háttatíma og fyrir svefninn líka getur verið gott að gera það saman 1-2 kvöld áður og svo að hitt foreldrið taki við. Það gefur öllum hlutaðeigandi tækifæri á að þjálfa sig í breyttum aðstæðum. Stundum bregðast börn nefnilega hart við því þau eru hissa í nýjum aðstæðum frekar en þau séu að hafna umönnunaraðilanum. Hér er líka lykilatriði að mamman geti fundið ró í að fara annað og að hitt foreldrið treysti sér í að annast barnið á yfirvegaðan máta og vera þolinmótt.

Veljið tímann vel, þegar allir eru upplagðir og hressir og hitt foreldrið hefur séns á að hvílast meira eins og um helgi. Þá er á sama tíma mikilvægt að muna að grátur og kvart í örmum foreldris er ekki það sama og vera skilinn eftir og grenja úr sér næturvöknunina.

Svefnlausnir eru ekki skyndilausnir

Þegar maður er að aðlaga svefninn og breyta svefnrútínunni er gott að muna að góðir hlutir gerast hægt og að við erum sérfræðingar í börnunum okkar. Það er gott að vera staðfastur, fylginn sér og halda í endurtekningu til að ná árangri en hlutirnir taka tíma og maður verður að gera ráð fyrir að ný svefnvenja skapist í rólegheitunum. Það má líka hvenær sem er breyta um áætlun og jafnvel hætta við.

Þegar maður er að breyta svefnvenjum er gott að horfa í hegðun barnsins til að sjá hvaða áhrif breytingin hefur á það, er það líkt sjálfu sér á daginn, líður vel og nægjusamt eða sýnir það breytta neikvæðari hegðun svo sem að vera hangandi í, grátgjarnt og viðkvæmt. Ef svo ber undir getur verið gott að bakka og endurskoða áætlunina.

Muna svo umfram allt að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir og allt miðar áfram í rólegheitum.

Gangi ykkur vel.

Sleeping baby girl

Nokkur einföld ráð til að bæta nætursvefn barna

Svefn og hvíld er okkur öllum mikilvæg, það er mikilvægt fyrir lítil börn að hvílast vel og það skiptir okkur foreldrana líka miklu máli. Það er eitt og annað hægt að gera til að gera svefnumhverfið betra og auka líkurnar á að litla krílið sofi í gegnum nóttina.
Þó verður að hafa í huga að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir, það tekur tíma að skapa nýja rútínu og yfirleitt mjakast þetta aðeins áfram, skref fyrir skref. Börn eru líka æði ólík og sum börn eru fljót að koma sér í svefnrútínu meðan önnur þurfa mikla aðstoð.
Lykilatriði í bættum svefnvenjum er rútína, endurtekning og ró og að lokum næst takmarkið langþráða, að sofa í gegnum nóttina.  Hér eru nokkur ráð sem geta bætt og lengt svefn barna á tiltölulega einfaldan og áreynslulítinn hátt.
1) Gættu þess að það sé ekki of heitt í herberginu þar sem barnið sefur og það ekki ofklætt. Hús og herbergi á Íslandi eru yfirleitt mjög heit og oft er hreinlega of heitt í svefnherbergjunum, fyrir börn og fullorðna. Of mikill hiti (nú eða kuldi) veldur því oft að börn vakna, þeim líður ekki vel og börn með viðkvæma húð eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Það getur verið betra að athuga líkamshita barnsins en að finna hendur eða fætur til að átta sig á hvort að hitastigið er rétt því hendur og fætur eru oft aðeins kaldari. Með því að passa að hitinn sé um 18-20 gráður er líklegra að barnið sofi.
2) Hafðu svefnstaðinn kósý. Það skiptir máli hafa svefnstaðinn eftirsóknarverðan og kósý, notalegt umhverfi þar sem auðvelt að koma sér vel fyrir. Mörgum börnum finnst gott að hafa eitthvað þétt við sig svo það getur borgað sig að hafa svefnrýmið ekki of stór. Það getur líka borgað sig, ef hægt er, að aðskilja svefnstað og leikstað. Rúmið er staðurinn þar sem allt er í ró og maður tengir við að í rúminu (svefnstaðnum) er sofið.
3) Einfaldur svefnstaður er líka mikilvægur, þar er bara það sem þarf en ekkert annað aukadót. Það er auðveldara að sofna í umhverfi sem er fábreytt og einfalt en þar sem augnáreiti er mikið. Bangsar, dúkkur og dót ættu því að vera í lágmarki sem og hringlur og svo raftæki. Sæng og uppáhaldsbangsi eða dúkka er alveg nóg. Fyrir utan hve mikið aukahlutirnir geta truflað, safnast líka ryk í þá.
4) Hafðu daglúr og nætursvefn ólíkan. Það skapar vissu fyrir barnið að venjast því að sofa í rúminu sínu á nóttunni en t.d. í vagni á daginn. Þannig áttar það sig á með tímanum að rúmið þýðir langur svefn. Það skiptir líka máli að hafa dimmt á nóttunni þegar sofið er og bjart á daginn.
5)  Skapaðu svefnrútínu því rútína skapar öryggi. Með afslöppuðum háttatíma sem er alltaf eins fer barnið fljótt í svefngírinn, þekkir þegar rútínan byrjar og fer ósjálfrátt að stilla sig inn á svefn. Eitthvað sem virkar fyrir fjölskylduna t.d. bað, náttföt, burstatennur, lesa bók, slaka á og sofa. Rútina er líka mjög gagnleg fyrir foreldrana því á erfiðari dögum þegar maður er þreyttur er auðveldara að koma sér í gegnum kvöldið ef rútínan er í lagi.
6) Gættu þess að ofsvara ekki barninu. Mörg börn rymja og stynja og láta heyra í sér en eru í raun enn sofandi. Því er gott að venja sig á að hlusta og hinkra og átta sig á stöðunni áður en maður fer inn og bregst við, oftar en ekki halda krílin áfram að sofa.
7) Notaðu svefnhljóð, gerðu alltaf sama hljóðið þegar þú heyrir að barnið er að rumska og gera sig líklegt til að vakna, hljóð eins og uss eða annað róandi suðandi hljóð, veitir barninu vissu um að foreldrið er til staðar og gefur því skilaboð um að halda áfram að sofa.
babyslee

Eiga börn að vakna á nóttunni?

Nýlega rakst ég á grein um svefn barna sem bendir á að það er eðlileg hegðun barns að vakna á nóttunni. Greinin er úttekt á rannsókn sem gerð var frá Swansea-háskóla í Whales og sýnir að flest börn undir eins árs vakna amk einu sinni á nóttunni, nú síðast ný rannsókn frá Swansea háskóla í Whales.

Spurningalisti var lagður fyrir 715 mæður barna á aldrinum 6-12 mánaða og þær spurðar út í svefnvenjur barnanna, hve oft þau vöknuðu og hvort þær nærðu börn sín þegar þau vöknuðu.

Niðurstöðurnar voru að 75% barna á þessum aldri vaknaði enn reglulega á nóttunni, amk einu sinni yfir nóttuna og sex af hverjum tíu börnum fékk að drekka mjólk í það minnsta einu sinni.

Annað sem var mjög áhugavert var að það var enginn munur á næturvöknun barna sem voru á brjósti eða á pela. Eins virtist ekki skipta máli upp á næturvöknum hve oft börnin nærðust yfir daginn eða hve margar máltíðir þau fengu. Mæður með börn á brjósti gáfu börnum sínum þó oftar að drekka á nóttunni.