Stuðningur í fæðingu

Leiðir til að takast á við kvíða

Barnshafandi konur geta upplifað svo margskonar kvíða fyrir komandi fæðingu. Smá streita og kvíði er skiljanlegur þegar maður veit að maður er að fara að upplifa eitthvað sem maður hefur ekki gert áður.  Kvíðinn getur verið margskonar, ótti við að eitthvað komi fyrir sig eða barnið, að maður höndli ekki verkina, að stjórnin verði tekin af manni, að fæðingin fari á annan hátt en maður vonaði svo einhver dæmi séu nefnd.

Við þessum ótta og kvíða er þó hægt að gera eitt og annað til að sefa hann og róa og vinna með hann því það gerist lítið við að stinga höfðinu í sandinn, því miður. (þó það virki oft sem það besta í stöðunni).

Kannski það fyrsta í stöðunni er að horfast í augu við óttann og átta sig á því hvers eðlis hann og hvernig er hægt að vinna með hann. Hvers eðlis er óttin og hvernig er hægt að tækla hann? Er óttinn helst við að rifna eða öskra í fæðingunni? Eða er hann tengdur óttanum við að missa stjórn á sér og aðstæðum og að stjórnin verði tekin af manni? Því meira sem maður veit um hvað óttinn er því betur getur maður brugðist við honum og oft hverfur hann við það að fá athygli.

Þá er gagnlegt að undirbúa sig vel og reyna að átta sig á því út í hvað maður er að fara, hluti af því er að lesa sér til, nú er til margt gott efni á netinu án endurgjalds, það eru sífellt fleiri íslenskar bækur sem koma út og aragrúi af bókum á ensku sem eru gagnlegar, hjálpa manni að skilja ferlið og undirbúa sig fyrir fæðingu.

Sögur og reynsla annarra er svona beggja blands. Það getur verið gott að umvefja sig góðum sögum, finna félagsskap í konum sem hafa trú á sér og öðrum, það getur gefið manni kraft og þor. Slíkum sögum verður maður að taka sem hvatningu en muna að manns eigin reynsla verður einstök.

Sama gildir um hinar sögurnar sem voru sárar og erfiðar, það má læra af flestum sögum en stundum situr maður eftir með hálfa sögu hræddari en maður var. Það er eins með erfiðu reynsluna og þá góðu, það má taka það sem höfðar til manns og muna að reynsla annarra er ekki endilega manns eigin. Stundum verður maður að slökkva á sjónvarpinu, hætta að gúgla og passa sig á að taka sögum með fyrirvara til að passa upp á sjálfan sig.

 

Það er gott að gera eitthvað á meðgöngu sem hjálpar manni að takast á við fæðinguna eins og að fara í meðgöngujóga eða stunda jóga/ slökun / núvitund. Eitthvað sem maður hefur æft fyrir fæðinguna og hjálpar manni að takast á við manns eigin huga í þeim aðstæðum sem maður er. Það að geta dregið athyglina inn, andað djúpt að sér og frá sér getur verið það hjálplegasta sem hægt er að gera í krefjandi aðstæðum. Það að kunna slökun gerir verkina sem fylgja fæðingu oftast bærilegri og viðráðanlegri og jafnvel styttri! Það er til allskonar slökun, jóga nidra, hypnobirthing, núvitund, mikilvægast að finna eitthvað sem hentar manni.

Námskeið og fræðsla hjálpa til við að sefa óttann, það getur verið gott að fara á fæðingarundirbúningsnámskeið með makanum og í kjölfarið ræða vel hvernig fæðingu maður sér fyrir sér, af hverju og hvernig maður getur helst nálgast það. Fæðingarundirbúningsnámskeið eiga að gefa manni verkfæri sem nýtast þegar í fæðinguna er komið.

Það getur verið gott að hafa einhvern með sér í fæðingunni sem styður þig og ykkur í gegnum allt ferlið, einhvern sem þið treystið.

Ótti sem fylgir fæðingu

Ótti sem fylgir fæðingu

Flest allar konur finna einhvern ótta, einhverja hræðslu bærast innra með sér þegar þær eiga von á barni. Óttinn getur verið léttvægur og bara svona flögrað að manni sem eitt lítið ,,ef” sem ekki stoppar í huga okkar en stundum er hræðslan við fæðingu óyfirstíganleg og svo mikil að hún hefur hamlandi áhrif á líf konunnar .  Undanfarin ár hefur verið talað um að ótti við fæðingar hafi aukist til muna og sagt að í raun hafi konur aldrei verið jafn hræddar við komandi fæðingar, sem sumum þykir skjóta skökku við nú þegar (amk á Íslandi) tölfræðileg fæðingarútkoma er mjög góð.


Ótti er í raun ekkert óeðlilegur og getur verið hjálplegur, ef hann er innan marka. Ótti getur ýtt okkur af stað í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar eins og ákveða fæðingarstað og hafa hlutina klára fyrir fæðinguna. Verandi varkár erum við með verndareðlið vakandi og þannig sjáum við til þess að við leitum öryggis í fæðingu og gætum öryggis barnsins okkar. Það er eitthvað fallegt við það.

Þegar við eigum von á barni, berum við lífssöguna okkar inn í ferlið. Svo allt sem hefur mótað okkur og þroskað og er með okkur í daglegu lífi hefur líka áhrif á meðgönguna okkar og mótar sýn okkar á fæðinguna (og hvernig hún verður). Lífssöguóttinn okkar er því æði ólíkur frá einni konu til annarrar.

Hinsvegar deila konur sumum ótta. Til dæmis nefna flestar konur, hvaðan sem þær eru í heiminum, að þær hafi velt því fyrir sér hvort þær muni lifa fæðinguna af. Ég man eftir því að þessi hugsun hafi flögrað í gegnum huga minn á meðgöngunum mínum, ,,hvað ef ég dey?”. Ég man líka að hugsunin dvaldi ekki lengi með mér heldur eitt af mörgum atriðum sem fóru í gegnum huga minn.
Ég held að þetta sé mjög frumstæð tilfinning sem er grafin djúpt í bein okkar og frumur og við komumst ekki hjá því að leiða hugann að því hvað ef. Í sögulegu samhengi, í gegnum aldanna rás, hafa konur ekki getað gengið út frá því að lifa fæðinguna sína af. Mæðradauði var hluti af raunveruleika fólks og er mjög raunverulegur víða um heim ennþá. Við á Íslandi búum bara við þann munað að hann þekkist varla hér en tilfinningin situr með okkur. Því er svo gott að muna að ótti er bara tilfinning sem ekki þarf alltaf að trúa og við getum minnkað hann en líklega ekki látið hann hverfa.

Margar konur finna rétt undir lok fæðingar fyrir tilfinningu um að þær séu að deyja, muni ekki lifa fæðinguna af og það getur verið ansi uggvænlegt að upplifa það. Michel Odent, fæðingarlæknir sem nú er kominn á eftirlaun kallar þennan tíma eða þessa upplifun ,,fetus ejection reflex.” Það lýsir sér þannig að konan finnur skyndilega ótta hellast yfir sig og tjáir sig oft um hann með því að t.d. að öskra eða hrópa upp yfir sig að hún sé að deyja, geti ekki fætt barnið eða vilji deyja. Þegar reflexið kemur yfir konur á örstuttri, en eftirminnilegri stundu, er hormónaflæðið að aukast til muna, meðal annars adrenalín svo yfirleitt koma nokkrir sterkir og mjög öflugir samdrættir eftir þessi viðbrögð. Upp úr þessu viðbragði er sem konan komi aftur til sín full af orku og líklega hefur hún vilja og löngun til að rétta úr sér eða skipta um stellingu svo barnið eigi greiðari leið um fæðingarveginn. Rétt eins og þegar hlauparar sjá lokatakmarkið fá þeir aukakraft og geta gefið aðeins í.

Eðlilegur ótti er hluti af lífinu og þó við höfum tilhneigingu til að forðast flest sem er óþægilegt er betra að reyna að horfast í augu við hann. Oft er besta vopnið sem við höfum að greina óttann og gefa athygli. Því þannig náum við oft að beisla óttann og koma honum í farveg sem þarf eða getum skilið hann eftir fyrir það sem hann er. Tilfinning sem ekki þarf alltaf að bregðast við.

 

Smith & Sons (2)

Algengur ótti fyrir fæðingu

Ég man þegar ég gekk með elstu stelpuna mína hvað það var margt sem vakt með mér ugg. Hugleiðingarnar voru allt frá því að vera léttvægar yfir í áhyggjur af stórslysi.

Svo í gegnum árin, í gegnum doulu-starfið og líka bara í gegnum kaffiboðsspjall er alveg ljóst að ég var ekkert ein. Það er margt sem við hræðumst þegar kemur að barnsfæðingu og kannski skiljanlega.  Fæðingar eru allskonar, oft erfiðar og átakanlegar (og stundum ósköp ljúfar og léttar) og það eru margar sögur þarna úti sem eru hálfsagðar sem hjálpa lítið í að kveða niður fæðingarótta.

Við deilum oft sama ótta, og það eru nokkur atriði sem koma fyrir aftur og aftur sem leitar á huga okkar og vekur með okkur ugg. Ég leitaði á náðir Facebook-kvenna og spurði þær hvað þær óttuðust helst og það lá ekki á svörum og hugsun mín var staðfest, við erum flestar að takast á við það sama og það er gott að finna styrk í því. Hér eru fimm algengustu atriðin sem vöktu ótta og smá hugleiðing með því.

 1. Ótti við að rifna.

Langflestar konur nefndu að þær óttuðust að rifna í fæðingu. Skiljanlega, tölfræðin segir okkur að um 80% kvenna rifni eitthvað í fæðingu en sem betur fer er ekki algengt að konur rifni mikið og illa eða í innan við 4% tilfella (auðvitað vill enginn tilheyra 4%!).
Er eitthvað hægt að gera í þessu?
Margir segja að spangarnudd á meðgöngu hjálpi til, geri spöngina mýkri og svo kynnast konur kynfærum sínum betur. Það er talið auka á rifur að vera á hækjum sér, með mænurótardeyfingu og það er hærri tíðni áverka eftir áhaldafæðingar. Stellingar sem eru betri fyrir spöngina eru taldar vera þegar kona er á fjórum fótum, liggjandi á hliðinni eða standandi. Vatnsfæðingar hjálpa líka til við að halda spönginni heilli.
Það er talið líklegra að konur rifni þegar þær liggja á bakinu (auk þess sem það minnkar rýmið í mjaðmagrindinni) en þannig er best fyrir ljósmóður að styðja við spöng kvenna og árið 2011 voru teknar upp vinnuleiðbeiningar um að styðja átti við spöng allra kvenna í fæðingum og alvarlegar rifur hafa minnkað eftir að þau vinnubrögð voru tekin upp.

2.) Ótti við að kúka í fæðingunni

Við erum vön að kúka í friði, í einrúmi og viljum helst ekki að neinn verði var við það. Kúkafíla er líka ekkert sem konur vilja flagga. Svo kemur að fæðingunni og við erum með makanum okkar og oft ókunnugu heilbrigðisstarfsfólki og eigum bara að láta eins og þetta sé ekkert mál. Að öllum sé bara sama. En þannig er það! Kúkur er bara hluti af fæðingu og í raun ekkert sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir hann. Hans hlutverk í fæðingum er þó stórlega blásið upp. Langoftast hefur líkaminn sett af stað smá hreinsunarferli fyrir fæðinguna til að búa til pláss og yfirleitt er ekkert mál að fara bara á klósettið í fæðingunni ef manni er mál. Kúkatilfinningin kemur oft yfir konur þegar þrýstingurinn frá barninu verður meiri og tilfinningin sem við þekkjum er að við þurfum að kúka en í raun þurfum við að fæða barn (við notum sömu vöðva til að koma barninu út og jú ef það er kúkur kemur hann með barninu).
Ljósmæður eru svo ótrúlega snöggar að fjarlæga allt sem kemur, svo maður verður eiginlega ekkert var við það og enginn í kringum mann og passa upp á reisn manns. Það verður engin kúkalykt því hún drekkist í fæðingarlyktinni góðu. Ef þetta hefur veruleg áhrif á mann verður maður að hafa kjarkinn til að tala um það við maka og t.d. biðja hann bara um að horfa framan í mann eða finna aðrar leiðir til að geta verið öruggur um að fæða með öllu sem því fylgir. Margir segja að vatnsfæðing sé þægileg í þessu tillliti.

3.) Spangarskurður

Tilhugsunin um að vera klippt er áhyggjuefni margra. Skiljanlega, það er enginn æstur í að láta klippa á sér spöngina. Spangarskurður var mikið algengari hér áður fyrr og rútína að kona væri klippt án þess að vera spurð.
Spangarskurður á nú til dags að vera gerður í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. þegar spöngin er svo stíf að hún gefur ekki eftir, flýta þarf fæðingu eða stytta rembingstíma, í axlarklemmu og svo til að fyrirbyggja alvarlega spangaráverka.
Tölfræðin segir okkur að árið 2013 var tíðni spangarskurða rúm 12% í fæðingum á landsspítalanum og hefur hækkað úr 8% frá 2011. Spangarskurður hefur hækkað í samræmi við nýju vinnubrögðin m. stuðning við spöng. Sú var amk raunin í Noregi að spangarskurðum fjölgaði um 7 % eftir að sömu vinnubrögð voru tekin upp.
Er eitthvað hægt að gera til að koma í veg fyrir að vera klipptur? Stundum en stundum ekki, sömu ráðleggingar fyrir leiðir til að koma í veg fyrir rifur á við hér og ef þú ert mikið með hugann við málefnið er gott að ræða það þegar komið er í fæðinguna og vera viss um að þú sért með í allri ákvarðanatöku sem tekin er varðandi líkama þinn.

4.) Ótti við inngrip á við gangsetningu eða áhaldafæðingu.

Hoppandi beint í tölfræðina þá var tíðni gagnsetninga á LSH árið 2013 um 26% og áhaldafæðingar tæp 10%. Ótti við gangsetningu eða önnur inngrip er mjög skiljanlegur og getur verið sprottinn af mörgum ástæðum og ein þeirra er eflaust að völdin eru tekin af manni. Stundum spyrja konur sig hvort að inngripin hafi verið nauðsynleg og efast um það og stundum er gripið inn í án sjáanlegrar ástæðu.
En hin hliðin á peningnum er að inngrip eru oft það besta sem er til í heiminum og við eigum þeim mikið að þakka. Fæðingarútkoma á Íslandi tölfræðilega er t.d. alveg til fyrirmyndar og ein sú besta í heimi.
Svo stundum má maður vera ósköp þakklátur fyrir inngrip.
Helsta vopnið er að vera upplýstur, með á nótunum og þora að spyrja spurninga svo maður sé þátttakandi í ákvörðunum sem teknar eru. Mikilvægt að spyrja og fá svör sem maður skilur.
Penny Simkin, konan sem ég lít æ svo mikið upp til, gerði lítil spjöld með spurningum fyrir fólk svo það gæti betur áttað sig á stöðunni í fæðingum. Hún tekur líka fram að stundum er ekki hægt að spyrja allra þessara spurninga og þá er auðvitað líklegt að málið sé brýnt eða um neyðartilfelli að ræða. En lauslega þýddar koma þær hér:

 •  Hvert er vandamálið? Af hverju er það vandamál og hversu alvarlegt er það? Hversu mikilvægt er að það verði meðhöndlað strax?
 • Viltu lýsa heildarferlinu fyrir mér ítarlega, hversu líklegt er að inngripið hafi jákvæð/ neikvæð áhrif og hverjar eru líkurnar á að málið verði leyst eftir þetta?
 • Ef þetta heppnast, hvað þá?
 • Kostir/ gallar?
 • Er eitthvað annað í stöðunni? (eins og að bíða og gera eitthvað)

5.) Ótti við keisara

Keisaratíðni á Íslandi hefur verið í kringum 14-15% undanfarin ár, sem er mjög lág tíðni keisara miðað við mörg önnur lönd og er á pari við það sem Alþjóðaheilbrigisstofnunin (WHO) mælir með. Tölfræðin segir þó að það eru 1-2 konur af hverjum 10 sem fara í keisara svo óttinn er alveg raunverulegur. Það á í raun það sama við um keisara og önnur inngrip. Keisarar eru líklega á pari við aðrar stórkostlegar uppfinningar eins og pensilin og bólusetningar og hafa gefið okkur hér á Íslandi þá vissu að við getum gengið inn í fæðingu og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að lifa hana ekki af.
Besta leiðin til að minnka líkurnar á að fara í keisara er að vera vel undirbúinn og með góðan stuðning með sér í fæðinguna.

Að lokum

Ótti er hluti af fæðingu held ég, við hljótum að leiða hugann að flestum þeim aðstæðum sem gætu komið upp þegar við erum að fara út í eitthvað sem við höfum aldrei gert og getum svolítið illa undirbúið okkur  fyrir. Það er gott að skoða óttann sinn, horfast í augu við hann og sjá hvað maður geti gert til að sigrast á honum. Hella svo yfir sig slatta af æðruleysi og taka því sem kemur.

Samfelldur stuðningur við parið, það að hafa manneskju með sér í fæðingarferlið sem maður þekkir, treystir og þekkir mann og fæðingarferlið gerir líka ótrúlega mikið fyrir mann og minnkar líkur á inngripum og sefar óttann. Það að hafa einhvern með sér í fæðingu sem maður getur treyst er ekki töfralausn við ótta en gerir fæðingarminninguna betri og það er algerlega þess virði.

ESTABLISHED 1856

Ástarhormónið góða

Oxytocin er stórmerkilegt hormón sem kemur mikið við sögu í fæðingum. Það er oft nefnt ástarhormónið og eftir að ég sá að konur eru farnar að húðflúra það á sig eða vera með oxýtocin-hálsmen hefur mér fundist það pínu hæpað eins og þeir sletta á útlensku en það stendur algerlega fyrir sínu og gegnir veigamiklu hlutverki í fæðingu. Þess virði að gefa því góðan gaum, skilja það og virða.

Oxýtocin er svona kósý hormón, við finnum fyrir áhrifum af því þegar okkur líður vel, þegar við borðum mat, hlæjum, njótum ásta og þegar við upplifum okkur örugg. Þegar það seytir fram veitir það okkur vellíðan. Þegar við finnum fyrir óöryggi og hlutirnir ganga ekki vel þá seytir það minna eða jafnvel ekkert. Ástarhormónið er auðtruflað og Michel Odent segir það feimið. Oxýtocin spilar lykihlutverk í fæðingu en hagar sér á sama hátt frá degi til dags og í fæðingu, það flæðir fram í öruggu umhverfi en dregur úr virkni sinni við ótta og kvíða eða þegar adrenalínið flæðir um.
500px-Oxytocin.svg_-300x189

Oxýtocin, endorfín og adrenalín eru þrjú lykihormón í fæðingu og þó við vitum heilmargt um virkni þeirra þá erum við ekki komin með fullnaðarvitneskju um þau. Við vitum þó að viðtakar oxýtocins aukast á meðgöngu og mikið í fæðingu. Í fæðingu örvar oxýtoxin hríðar sem leiðir svo af sér að leghálsinn opnast og mýkist, sem svo kemur barninu í gegnum fæðingarveginn og losar fylgjuna frá. Oxýtocin minnkar blæðinguna eftir fæðingu og kona í ótruflaðri fæðingu losar aldrei meira magni af oxýtocin um ævina en rétt eftir að hún hefur alið barn. Magnað! Þetta útskýrir ofurkonusvipinn á mörgum konum rétt eftir fæðingu, þær eru í oxytocin vímu.

Það er margt sem getur truflað oxýtocinið t.d. bælir adrenalín niður oxýtocin. Við losum adrenalín þegar við erum hrædd, kvíðin oglíka þegar okkur er kalt. Adrenalín er svo öflugt að það getur haft þau áhrif að fæðing verður mjög löng og sársaukafull og adrenalin getur haft þau áhrif að fæðingin stoppar með öllu.

Við skiljum þessa tengingu oft þegar við hugsum til spendýra fæða afkvæmi sín. Þau finna dimman stað þar sem þau geta verið í friði. Ég var ekki mjög gömul þegar ég var skömmuð fyrir að leita að kettinum í kringum got, enda vissu allir að læðan þurfti að vera í friði og þess var gætt að svo yrði. Mér finnst líka eins og það sé altalað að hryssur kasti ekki nema einar og þær eru mjög næmar á að verið sé að fylgjast með sér. Hryssur eiga það líka til að stoppa kast ef þeim er ógnað eða ef þær fælast og bíða þar til þær upplifa sig óhultar aftur.  Við manneskjurnar erum jú spendýr og alls ekkert ólík þessum dýrum sem ég nefni þegar kemur að fæðingu. Við verðum að upplifa öryggi.

dream-away-1528495

Margar konur upplifa að þeirra öruggi staður sé spítalinn þar sem þær finni öryggið en þegar þær mæta svo upp á spítala í fæðingu finna þær að líkaminn bregst við, hríðarnar detta niður og það hægir á öllu ferlinu. Þetta þekkja ljósmæður vel og taka sem betur fer oftast tillit til þess. Spítalaumhverfið örvar líka oft adrenalínið og hægir þar af leiðandi á oxýtoxininu. Umhverfið sem fylgir spítölum svo sem skært ljós, spurningaflóð, klukkuhljóð, hljóð í mónitor, hljóð frá rúminu og fleira getur allt dempað oxýtoxinið mikið og þannig gert fæðinguna lengri.

Michel Odent, fæðingarlæknir, hefur verið óþreytandi í að benda á að til þess að oxýtoxinið streymi um okkur í fæðingu verðum við að skapa aðstæður þar sem við erum afslöppuð, róleg og örugg. Þetta þýðir að kjöraðstæður er staður þar sem við erum örugg og getum slökkt á heilanum í okkur (neo-cortexinu) s.s. þurfum ekki að svara spurningum, spjalla, spá í útvíkkun eða annað álíka áreiti. Með því að slökkva á neo-cortexinu þá getur kona farið á fullt inn í fæðinguna sína, oxýtoxinið flæðir fram og gerir sitt.

Jafnframt er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem barnsfæðandi kona hefur það ekki á tilfinningunni að verið sé að fylgjast með henni eða vakta hana. Það getur verið áhrif frá utanaðkomandi aðilum en tölvur, myndavélar og símar hafa sömu áhrif og geta haft truflandi áhrif. Upplifi kona að verið sé að fylgjast með henni kveikir hún á sér og þannig hægist á ferlinu.

Þá skiptir máli að staðurinn sé dimmur og engin skær ljós til staðar, dregið fyrir, kveikt á kertum eða dempuð birta hjálpar til við að örva oxýtocinið. Þá verður staðurinn að vera hlýr, mikilvægt að hafa herbergið heitt og jafnvel hitara í gangi (kerti eða kamínu ef það má kveikja á svoleiðis) og jafnvel heitt vatn á réttum tíma getur allt lagt sitt af mörgum til að örva oxýtocinið.

Síðasti liðurinn en ekki sá sísti er að halda verður adrenalíni í lágmarki. Adrenalín er annað mjög merkilegt hormón og ekki síst fyrir þær sakir að það er smitandi (rétt eins og oxýtocin). Ef manneskja er stressuð, kvíðin og hrædd í fæðingu getur hún auðveldlega smitað aðra og ósjálfrátt líður fólki í fæðingarrýminu eins. Því er mikilvægt fyrir þá sem eru viðstaddir fæðingu að vera rólegir og ef ekki, taka á öllu sínu til að róa sig niður og í einhverjum tilfellum mælir Michel Odent hreinlega með því að fólk sem er stressað og gefur frá sér adrenalín yfirgefi herbergið, fái sér göngutúr og komi til baka þegar það hefur náð að róa sig.  

Kannski hljómar það eins og það sé alls ekki hægt að vinna með þessi atriði í venjulegri fæðingu sem fer fram á spítala en það er auðveldara en maður heldur. Maður getur passað upp á að manni sé hlýtt allan tímann og beðið um að hafa ljósin slökkt og dregið fyrir. Ef hlusta þarf á hjartsláttinn að ekki sé kveikt á hljóðinu í mónitornum og lítið sé talað við mann. Svo getur viðvera doulu eða stuðningsaðila sem þekkir fæðingar hjálpað parinu mikið með rólegri nærveru og þannig viðhaldið eðlilegu flæði oxýtocins.

candles-2-1189399-640x480

Fyrir þá sem vilja kynna sér oxýtocin meira má benda á heimasíðu Michels Odent http://www.wombecology.com  

 

mynd frá Önnu

Bumbumyndataka

Ég var svo spennt þegar Anna ljósmyndari hjá Stúdío Douglas var til í að taka þátt í smá viðburði og mynda barnshafandi konur í tilefni douluvikunnar sem er dagana 22.-28. mars. Yfir mig spennt.  Ég kynntist Önnu fyrst í gegnum bumbuhóp á Draumabörnum sem var (og hét), við eigum börn fædd sama ár. Svo fórum við að hittast árlega því hún var svo sæt að taka að sér að mynda börn á brjósti í tilefni brjóstagjafavikunnar.

20160330_165418

Við hittumst í dyrunum í stúdíó-inu hennar og ein og ein týndust þær inn, fallegu konurnar með börnin sín innan borðs. Þær voru mislangt komnar á leið allt frá 25 vikum að 37 vikum. Ein reyndar afboðaði sig því hún ákvað að fara frekar á fæðingardeildina! Sumar áttu von á fyrsta barni, aðrar öðru eða þriðja og ein á sínu fimmta, hversu dásamlegt er það.

mynd frá Önnu

Þetta var örmyndataka, þær skutust inn í stúdío-ið, Anna tók myndir og ég sat vaktina frammi á meðan, flestar voru 7 mínútur inni. Pælingin var bara að ná einni til tveimur góðum og fallegum myndum til að eiga til minningar.

Stillingin í Stúdío-inu var þannig að myndirnar verða dökkar, hlýjar og fallegar. Svona eins og Önnu er einni lagið. Svolítil nekt en vel stofuviðeigandi.

Hugmyndin að örmyndatöku er ekki ný af nálinni, við höfum gert þetta í tilefni brjóstagjafavikunnar í nokkur ár núna. Hugmyndafræðin á bakvið þetta er einföld. Við viljum vekja athygli á fegurðinni í nýju lífi, gefa okkar hráasta tíma gaum. Ég á margar myndir frá Önnu, meðal annars bumbumyndir og mér þykir svo vænt um bumbumyndirnar mínar. Þær minna mig á góðan tíma, ég man hvaða ilmvatn ég notaði þennan dag, ég man hvernig mér leið, finnst gaman að hugsa um barnið sem kom og ég man hvað mér fannst ég sérstök að vera í bumbumyndatöku.
Auðvitað líður ekki öllum vel á meðgöngunum sínum en ég held að það sé þá líka gaman að ná mynda fegurðina sína og kannski minna sig þannig á að jafnvel þó maður upplifi erfiðan tíma þá leynist fegurðin allsstaðar, eða það hugsa ég það.

bum22

Takk allar sem tókuð þátt í þessu með okkur!

 

 

 

Stuðningur í fæðingu

Doula sem sagt…já

Mér finnst ég loksins vera að öðlast góða reynslu af því að vera doula, komin með kjöt á beinin einhvern veginn. Margt í leik og starfi verður nefnilega ekki lært af bók heldur aðeins fengið með reynslunni og stundum finn ég að reynslan er farin að fleyta mér áfram í starfi mínu sem doula, sem er góð tilfinning.

Stundum í nýjum aðstæðum finnst mér þó ennþá skrýtið að segja hvað ég geri og hef jafnvel staðið mig að því að humma það fram af mér. En það er bara stundum.  Algengustu spurningarnar sem ég fæ enn í dag eru:

,,Doula, hvernig berðu það fram?”

,,Dúla sem sagt, og hvað gera þær?”

Og æ oftar heyri ég ,,vinkona mín var með doulu- þekkiru hana?” eða ,,ég ætla að vera með doulu næst” eða ,,ég vildi óska þess að ég hefði verið með doulu”. Þá lýt bara höfði í hljóði og þakka fyrir starfsvettvanginn minn.

Doula er upphaflega grískt orð sem þýðir kvenkynsþjónn eða þræll, með síðari tíma merkingu um að vera kona sem aðstoðar verðandi fjölskyldur (sama í hvaða formi þær eru) í gegnum fæðingu. Ég veit ekki annað en að doula sé orð sem er notað um allan heim.

Doula er borið fram dúla og er kannski ekkert sérstaklega þjált á okkar ylhýra en það er ekki komið betra orð sem stendur. Ég er alveg skotin í öðrum orðum eins og stuðningskona við/ í fæðingu. Stuðningskona er mjög lýsandi fyrir starfið mitt og mér finnst orðið fylgja skemmtilegur leikur að orðum, við fylgjum konum, fylgjur voru líka oft dýr eða menn sem fylgdu fólki í lifanda lífi og svo er fylgja tímabundið líffæri sem nærir barn í móðurkviði.  Margar aðrar tillögur hafa svo sem komið fram eins og hjálparhönd, eða hjálparhella, fæðingarhjálp og mörg fleiri sem eru alveg ágæt. Verandi elsk á tungumálið okkar tók mig smá tíma að venjast því að nota doula en það vandist hratt. Stuðningskona er líklega mest lýsandi. Doula, stuðningskona, fylgja mér finnst þetta allt falleg orð og svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort við höldum okkur við doula-orðið eða förum markvisst að passa að kynna stuðningskonur.

Starf doulunnar er fjölbreytt og skemmtilegt og felur alltaf í sér að styðja fjölskyldur, á þeim stað sem þær eru staddar, í gegnum meðgöngu og fæðingu og í sængurlegu.

Ég er orðin ansi þjálfuð í að segja ,,doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu en tekur aldrei klínískt hlutverk”. Kannski svo þjálfuð að ég er orðin mónótónísk þegar ég nota lyfturæðuna mína.

En þannig er það samt, ég styð barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur fyrir, í og eftir fæðingu og veiti samfellda þjónustu. Sem sagt sama manneskjan sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið. Það er ég kynnist parinu á meðgöngunni, við hittumst nokkrum sinnum oftast 2-3 þrisvar og förum yfir komandi fæðingu, hvaða óskir þau hafa og hvernig þau sjá fyrir sér fæðinguna og þannig þekkjumst við ágætlega þegar kallið kemur. Stundum setjumst við niður og förum lið fyrir lið yfir hvernig við getum búist við að fæðingin verði, stundum förum við yfir gagnlegar stellingar og stöður sem nýtast í fæðingarferlinu, stundum reynum við að kryfja hvernig við getum unnið með erfiðan ótta og stundum hittumst við bara og drekkum saman kaffi og treystum böndin.

Ég tek ekki ákvarðanir fyrir fólk eða reyni að benda þeim á valkosti A eða B, ég reyni mitt besta í að vera til staðar fyrir þau og finna leiðir með orðum og fræðslu til að efla þau og styrkja. Það þýðir að fólkið sem ég kynnist er bara allskonar, ég hef aðstoðað pör í heimafæðingu, á spítala, konur sem eru að fara í keisara. Konur sem þrá fæðingu án inngripa og konur sem vilja verkjastillingu sem fyrst. Ég hef verið sjálfstæðum konum innan handar með lítið stuðningsnet og konum sem eru umvafðar her manns. Ég hef verið með þegar von er á fyrsta barninu og öðru líka.

Ég er ekki góð í öllu og með tímanum slípast reynslan til og í einhverju er ég betri en öðru en ég finn líka að með tímanum er það ekki endilega hvað ég kann heldur meira hvað það er sem konurnar eru að spá sem skiptir máli. Stundum líður mér bara eins og ég sé klettur þarna út í hafinu eða tré sem veitir skjól.

Í fæðingunni kem ég þegar mín er óskað og fer þegar ég er beðin um það (en fer sjálf svona c.a. tveimur tímum eftir fæðingu ef enginn segir neitt). Engin vaktaskipti og tek í raun ekki pásur. Ég get sinnt fæðingunni 100%.
Hver fæðing er einstök og hvert par fer aðeins einu sinni í gegnum hverja fæðingu svo það er misjafnt hver aðkoma mín er. Ég er yfirleitt í sambandi við fólk þegar það finnur og fæðingin er í uppsiglingu, ég kíki oft heim til þeirra og ef það er byrjandi fæðing stoppa ég kannski í smá stund og fer aftur og kem svo aftur seinna en er áfram ef mín er þörf. Stundum hitti ég parið uppi á spítala um leið og þau fara en stundum kem ég beint í mesta fjörið.

Í fæðingunni get ég verið úti í horni og sagt ekki neitt, stundum er ég að spjalla, stundum nudda og stundum hughreysta. Allt eftir því hvernig fæðingin er og hvar í ferlinu við erum. Stundum sæki ég vatn og rétti út þvottapoka, stundum kinka ég bara kolli og stundum er ég að hjálpa til við að takast á við breyttar aðstæður. Stundum hef ég þurft að taka á öllu mínu og ekki haft hugmynd um hvað ég eigi að gera annað en að vera til staðar og reyni að taka bara vel eftir svo við getum rætt fæðinguna eftir á. Reyni í þá í veikum mætti að gera gagn en vera ekki fyrir.
Í flestum fæðingum spyr ég mig ítrekað, hvernig minning verður þessi fæðing og reyni að hugsa leiðir til þess að upplifunin þar og þarna verði sem jákvæðust fyrir alla.

Svo þegar barnið er fætt dreg ég mig oftast í hlé og reyni í öllu þysinu að leyfa foreldrunum nýju að njóta, ég reyni líka að grenja ekki úr mér augun og staglast á einhverju eins og ,,ji minn, þið eruð æði” sem ég finn að er pínu þema hjá mér. Ég finn aldrei jafnmikla aðdáun eins og í fæðingum. Það er ekkert eins heilagt.
Ég kveð svo nýju eininguna fljótlega og kem mér heim. Það er svo magnað að vera í fæðingu annarar fjölskyldu. Aukaafurð er að það er magnað að koma heim til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hafa verið fæðingu annars barns. Stundin sem maður gengur aftur inn í húsið er heilög, það er eitthvað nýtt og fallegt heima hjá mér líka í hvert sinn. Fyrir það er ég svo þakklát.

Eftir fæðinguna hitti ég fólkið yfirleitt tvisvar, strax eftir fæðingu og svo nokkrum dögum seinna til að fara yfir fæðingarupplifunina og ef það er eitthvað sem ég get gert frekar. Annars kveðjumst við, oft í bili, og ég finn að þau eiga sérstakan stað í hjarta mér. Alltaf. Ég er alltaf að æfa mig í að eiga auðvelt með kveðjustundir en það er yfirleitt í kveðjustundunum sem ég man af hverju ég sinni þessu starfi með skrýtna heitinu.
Það sem rekur mig áfram er að finna, konu fyrir konu, fjölskyldu fyrir fjölskyldu að þau stóðu sterkari uppi fyrir vikið. Að með því að sitja á hliðarlínunni upplifðu þau kraft og styrk. Kannski vellíðan. Það er góð tilfinning, það er ástæðan fyrir því að ég er doula.

family-1246171-639x919

Stuðningur í fæðingu

Stundum þegar ég hef verið að aðstoða fólk við að undirbúa sig fyrir komu barns í heiminn hef ég spurt pabbann/makann hvernig hann sjái fyrir sér að styðja konuna sína í gegnum fæðinguna. Sjaldnast stendur á svari ,,ég ætla bara að gera mitt besta, gera það sem hún biður mig um og vera til staðar“.

Það er nefnilega heilmargt sem stuðningsaðilinn getur gert til að létta undir í fæðingunni.

Mikilvægur en vanmetinn eða vanræktur stuðningur felst í því að vera sjálfur í lagi, vera búinn að borða vel undanfarna daga og hvíla sig. Fæðing er oftast hörkupúl sem getur verið mjög löng og krafist þess að maður geri allskonar, það er mikið betra fyrir mann sjálfan og alla í kring að vera upplagður.

Það er gott að vera með á nótunum, hafa spjallað vel um komandi fæðingu og hvernig þið sjáið hana fyrir ykkur. Hvar ætlið þið að fæða? Hvenær er stefnan tekin á að fara þangað? Afhverju? Hvað ætlið þið að gera í biðtímanum? En þegar allt er komið á fullt? En ef það er eitthvað óvænt, hvað þá? Hvert er plan A? En plan B? Hvað viljið þið gera ef plan C hoppar til ykkar? Við hvað eruð þið hrædd og af hverju? Hvernig ætlið þið að tækla það ef sú staða kemur upp? Viðhorf til verkjastillingar, hvert er það? Eruð þið með svipað tollerans í því? Ef þið eruð búin að ræða málin vel getið þið betur tekist á við aðstæður sem koma upp.

Fæðingarundirbúningur er líka mikilvægur, það er gott að þekkja fæðingarferlið, upphaf, einkenni, hvað er eðlilegt og við hverju þarf að bregðast. Hvað er gott að gera í hverjum aðstæðum og hafa reynt og prófað það sem líklega kemur upp. Mikið betra að hafa kynnt sér það í tíma frekar en að panikka á ögurstundu.
Að sama skapi er gott að hafa tileinkað sér ákveðna öndunartækni sem róar mann og nýtist í fæðingunni, fyrir mann sjálfan og svo konuna sem maður styður. Einfaldasta formið er að anda þrisvar djúpt að sér andanum og anda frá rólega og skoða með opnum huga hvaða áhrif það hefur á líkamann.

Þá getur verið gott að vera búinn að kynna sér eitthvað um nudd í fæðingu, það eru ákveðin svæði á baki og mjöðmum sem mörgum konum finnst gott að láta nudda eða þrýsta á í fæðingu, maður fær oft auka stig í kladdann með því að vita hvar er gott að fá nudd og strokur. Flestar konur vilja léttara nudd í upphafi fæðingar og svo þéttara eftir því sem líður á fæðinguna.

Einlægt hrós er alltaf hvetjandi og það getur verið gott að vera búinn að setja smá hugsun í hvaða orð hvetja konuna áfram, hvaða hrós hittir hana í hjartastað og eflir og hvetur. Hvaða orð notar hún sjálf til að hvetja sig áfram? Ekki vera spar á hrósið, það kemur mann nær lokamarkmiðinu.

Vertu til staðar í augnablikinu og veittu því athygli sem er að gerast. Sjúklega erfitt, sérstaklega þegar aðstæður eru pínu erfiðar en það margborgar sig. Skoðaðu með opnum huga hvað er að gerast, hvert er hún að horfa? Er endurtekning í ferlinu hjá henni? Nær hún að slaka á og sóna út á milli hríða? Veittu því athygli hvort það hljómi allt eins og það sé í himnalagi eða er verið að gefa eitthvað annað til kynna?

Ekki tala meðan á samdrætti stendur, betra að tala á milli og ef eitthvað er óljóst er yfirleitt betra að spyrja beinna spurninga sem auðvelt er að svara með jái eða nei-i. ,,Viltu vatn?“ er þægilegri spurning en ,,hvað viltu drekka?“. Fyrri spurningin býður upp á já/nei svar og svo er líka hægt að kinka kolli eða hrista höfuðið eftir því sem við á.

Vertu vakandi fyrir bendingum, stundum geta konur ekki talað eða vilja ekki segja neitt og
þá er gott að geta bent með höfðinu eða fingrunum í áttina að því sem mann vanhagar um eða truflar mann.

Forðastu allar leiðbeiningar um andardrátt nema vera handviss um að það sé viðeigandi ,,anda inn- anda út“ getur verið mjög ruglandi og manns eigin andardráttur ekki í takt við öndun konunnar eða í samræmi við líðan hennar. Ef maður er ekki viss um að andardráttur konunnar sé eins og hún myndi kjósa reynist vel að stilla sig inn á hana og leiðbeina með útöndun, hvetja til að anda rólega frá sér og anda alveg frá sér frekar en að spá í hvernig innöndunin er.

Vertu þolinmóður eins og þú getur. Fæðing tekur oft langan tíma, venjuleg fæðing yrði aldrei sýnd í sjónvarpi í rauntíma því hún er langdregin og getur dregist og dregist. Vertu þolinmóður og haltu í jákvæðnina og bjartsýnina. Áður en þið vitið af er litla krílið komið í fangið til ykkar.

 

 

 

rebozonl

Rebozo í fæðingu

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem doula tók ég ástfóstri við rebozo, ég fer helst ekki í fæðingu án þess að hafa það með í töskunni. Stundum er það þar ósnert en oft tek ég það upp og það hefur margsannað gildi sitt. Það getur róað, nuddað og flýtt fæðingarferlinu. Ekki það, ég hef jafnoft ekki tekið það upp úr töskunni minni og stundum hreinlega gleymt því heima. Rebozo er dásamlegt þegar það á við.
Ég tók saman nokkur myndbönd sem sýna ágætlega hvernig er hægt að nota rebozo í fæðingu.

Hér er stutt myndband um hvernig rebozo getur stutt við mjaðmir á meðgöngu og í fæðingu.

Þá er hér myndband um hvernig er hægt að nota rebozo í spítalarúminu

Hér er svo myndband af Naoli Vinaver sem er mikill frumkvöðull í að kynna rebozo,

 

 

sweet-dreams-ii-4-1525158-640x480

Ráð til að fækka/hætta næturgjöfum

Ein algengasta fyrirspurnin sem ég fæ er um hvernig sé best að hætta næturgjöfum og þá helst hvenær, hvort einhver tími sé betri en annar.

Börn eru ólík og hafa misjafnar þarfir svo það verður að taka inn í jöfnuna hvernig týpa barnið er, aldur og svo auðvitað þarfir og óskir foreldranna.

Það er mikilvægast af öllu að foreldrar finni innra með sér að næturgjafirnar trufli upp að því marki að þeir vilja hætta og hvatinn komi frá þeim og barninu en ekki utan frá utanaðkomandi aðilum. Málið er að það kemur alltaf að því að barnið sefur í gegnum nóttina og næturvöknunin heyrir sögunni til. Ef þið eruð frekar afslöppuð með þetta og takið þessu létt er það bara allt í lagi. Hinsvegar er áríðandi að taka málin í sínar hendur þegar maður finnur að svefnleysið eða svefnrofið er farið að hafa merkjanleg áhrif á sig og þá er gott að vera nokkuð staðfastur í sínu.

Þegar tekið er á næturdrykkju barna er gott að hafa í huga að það að barnið hætti að drekka á nóttunni þýðir ekki endilega að það hætti að vakna á nóttunni en það getur vel þýtt að það vakni sjaldnar og að það sé auðveldara að takast á við næturvöknunina. Stundum er töfralausnin að hætta næturdrykkju, þegar hvatinn að því að vakna er orðinn lítill fara sum börn að sofa í gegnum nóttina.

Ég tók saman nokkur atriði sem vonandi hjálpa þegar minnka á næturgjafirnar.

Gefa góða næringu jafnt og þétt yfir daginn.

Krílin okkar eru mikið á ferðinni, skoða heiminn, rífa, tæta, leika og oft er eins og þau hafi hvorki tíma né nennu til að drekka og næra sig á daginn en það skiptir máli að næra magann reglulega yfir daginn svo hann vilji hvílast á nóttunni. Börn sem nærast lítið á daginn vegna anna munu bæta sér það upp á nóttunni. Það er líka gott að hafa í huga að oft er auðveldara að hætta næturgjöfum ef maður man eftir því að gefa sér tíma í daggjafirnar.

Veita athygli og nánd yfir daginn

Sum börn eru of upptekin á daginn til að veita foreldrum sína nokkra athygli og sækja sér í nánd og hlýju á nóttunni. Það er auðveld að minna niður snertingu og umönnum eftir því sem barnið er eldra án þess að gera sér grein fyrir því. Aukin næturdrykkja og þegar börn hanga á stóran hluta nætur kemur líka oft í kjölfarið á meiri fjarveru t.d. þegar farið er aftur til vinnu og samverustundum fækkar.

Passaðu að gefa fulla gjöf ef barnið vaknar.

Stundum rumskar barnið til að drekka en sofnar í raun strax aftur (og kannski þú líka) og þá hefur það ekki drukkið nægju sína, er enn svangt og vaknar fljótlega aftur til að drekka. Gott ráð er að ef barnið vaknar til að drekka eftir ásættanlegan tíma er að passa að gefa því vel að drekka og freista þess þannig að barnið sofi aftur langan dúr.

Losaðu brjóstið

Eftir að barnið hefur drukkið nægju sína gættu þess þá að það losi takið af brjóstinu og haldi áfram að sofa. Þegar hægja fer á kyngingum hjá barninu er upplagt að losa brjóstið frá, þægilegast að setja fingurinn í munnvikið og þá losnar takið. Stundum verða þau pirruð og þá er bara að meta hvort maður haldi áfram að leyfa barninu að drekka og haldi svo áfram að losa en lykillinn að árangri er að losa alltaf takið í næturgjöfum og halda sér við efnið. Fyrst er barnið pirrað, svo fer það að venjast þessu og að endingu nær maður upp vananum að barnið drekkur, sleppir brjóstinu og heldur áfram að sofa.

Gættu þess að ofsvara barninu ekki.

Börn rumska oft yfir nóttina og gefa frá sér hljóð en í mörgum tilfellum halda þau svo áfram að sofa, það er mikilvægt að staldra við og meta stöðuna áður en maður bregst við. Frekar að hinkra aðeins og sjá hvort þau fari aftur að sofa en að rjúka til og gefa sofandi barni.

Einföld regla eins og að telja upp á tíu, anda þrisvar og prófa að sussa á barnið eða gefa því snuð virkar oft til að koma börnum af stað í annan svefnhring.

Ekki sofa upp við barnið

Stundum vakna börn einfaldlega bara af því að þau eru svo nálægt mömmunni, lyktinni og húðinni og það getur hreinlega vakið þau að rekast upp við bera húð. Hlýtt og gott, rumsk, mömmuhúð, alveg rétt- er ekki kominn tími til að drekka?

Þetta ferli má brjóta upp með því að hafa bil á milli ykkar, ef barnið sefur upp í að hafa pláss á milli eða hitt foreldrið á milli eða með því að barnið sé í eigin svefnfleti.

Það er allt í góðu að segja nei!

Þegar börnin eru farin að skilja vel er hægt að setja þeim mörk og neita þeim. Þetta krefst endurtekningar og þolinmæði en hefst að lokum.  Aðstæður gætu verið svona, Barn; drekka (oftast sagt með hljóðum eins og neeh) mamma; nei/ ekki núna/ seinna/ á morgun. , barn; drekka, mamma; nei/ ekki núna. Með því að vera staðfastur og yfirvegaður hefst þetta að lokum. Hér er það endurtekningin og staðfestan sem skilar sér hratt. Persónuleiki barnsin hefur heilmikið að segja, sum börn láta sér segjast við neitum tvö eða þrjú meðan önnur þræta fleiri fleiri daga.

Fáðu aðstoð

Stundum er það þess virði að skipta út hlutverkum og leyfa hinu foreldrinu að taka við næturbröltinu. Ávinningurinn af þessu getur verið margvíslegur, einn er betri svefn, annar er betra tækifæri fyrir pabbann að hugga barnið og tengjast því og barnið öðlast meiri færni við að hafa fleiri umönnunaraðila.

Í þessum aðstæðum borgar sig að pabbinn svæfi barnið og sinni því svo þegar það vaknar aftur með því að hugga, róa, rugga.

Til þess að þetta gefist vel þarf barnið að vera orðið það gamalt að það skilji og skynji umhverfi sitt vel. Ykkar tilfinning verður að fylgja máli og verið viss um að barnið sé orðið það gamalt að þörfin fyrir næturgjafir er ekki lengur til staðar. Það borgar sig líka að gefa sér tíma í þessa kynningu fyrir barnið. T.d. ef móðir hefur nær eingöngu annast barnið þegar kemur að háttatíma og fyrir svefninn líka getur verið gott að gera það saman 1-2 kvöld áður og svo að hitt foreldrið taki við. Það gefur öllum hlutaðeigandi tækifæri á að þjálfa sig í breyttum aðstæðum. Stundum bregðast börn nefnilega hart við því þau eru hissa í nýjum aðstæðum frekar en þau séu að hafna umönnunaraðilanum. Hér er líka lykilatriði að mamman geti fundið ró í að fara annað og að hitt foreldrið treysti sér í að annast barnið á yfirvegaðan máta og vera þolinmótt.

Veljið tímann vel, þegar allir eru upplagðir og hressir og hitt foreldrið hefur séns á að hvílast meira eins og um helgi. Þá er á sama tíma mikilvægt að muna að grátur og kvart í örmum foreldris er ekki það sama og vera skilinn eftir og grenja úr sér næturvöknunina.

Svefnlausnir eru ekki skyndilausnir

Þegar maður er að aðlaga svefninn og breyta svefnrútínunni er gott að muna að góðir hlutir gerast hægt og að við erum sérfræðingar í börnunum okkar. Það er gott að vera staðfastur, fylginn sér og halda í endurtekningu til að ná árangri en hlutirnir taka tíma og maður verður að gera ráð fyrir að ný svefnvenja skapist í rólegheitunum. Það má líka hvenær sem er breyta um áætlun og jafnvel hætta við.

Þegar maður er að breyta svefnvenjum er gott að horfa í hegðun barnsins til að sjá hvaða áhrif breytingin hefur á það, er það líkt sjálfu sér á daginn, líður vel og nægjusamt eða sýnir það breytta neikvæðari hegðun svo sem að vera hangandi í, grátgjarnt og viðkvæmt. Ef svo ber undir getur verið gott að bakka og endurskoða áætlunina.

Muna svo umfram allt að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir og allt miðar áfram í rólegheitum.

Gangi ykkur vel.

Sleeping baby girl

Nokkur einföld ráð til að bæta nætursvefn barna

Svefn og hvíld er okkur öllum mikilvæg, það er mikilvægt fyrir lítil börn að hvílast vel og það skiptir okkur foreldrana líka miklu máli. Það er eitt og annað hægt að gera til að gera svefnumhverfið betra og auka líkurnar á að litla krílið sofi í gegnum nóttina.
Þó verður að hafa í huga að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir, það tekur tíma að skapa nýja rútínu og yfirleitt mjakast þetta aðeins áfram, skref fyrir skref. Börn eru líka æði ólík og sum börn eru fljót að koma sér í svefnrútínu meðan önnur þurfa mikla aðstoð.
Lykilatriði í bættum svefnvenjum er rútína, endurtekning og ró og að lokum næst takmarkið langþráða, að sofa í gegnum nóttina.  Hér eru nokkur ráð sem geta bætt og lengt svefn barna á tiltölulega einfaldan og áreynslulítinn hátt.
1) Gættu þess að það sé ekki of heitt í herberginu þar sem barnið sefur og það ekki ofklætt. Hús og herbergi á Íslandi eru yfirleitt mjög heit og oft er hreinlega of heitt í svefnherbergjunum, fyrir börn og fullorðna. Of mikill hiti (nú eða kuldi) veldur því oft að börn vakna, þeim líður ekki vel og börn með viðkvæma húð eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Það getur verið betra að athuga líkamshita barnsins en að finna hendur eða fætur til að átta sig á hvort að hitastigið er rétt því hendur og fætur eru oft aðeins kaldari. Með því að passa að hitinn sé um 18-20 gráður er líklegra að barnið sofi.
2) Hafðu svefnstaðinn kósý. Það skiptir máli hafa svefnstaðinn eftirsóknarverðan og kósý, notalegt umhverfi þar sem auðvelt að koma sér vel fyrir. Mörgum börnum finnst gott að hafa eitthvað þétt við sig svo það getur borgað sig að hafa svefnrýmið ekki of stór. Það getur líka borgað sig, ef hægt er, að aðskilja svefnstað og leikstað. Rúmið er staðurinn þar sem allt er í ró og maður tengir við að í rúminu (svefnstaðnum) er sofið.
3) Einfaldur svefnstaður er líka mikilvægur, þar er bara það sem þarf en ekkert annað aukadót. Það er auðveldara að sofna í umhverfi sem er fábreytt og einfalt en þar sem augnáreiti er mikið. Bangsar, dúkkur og dót ættu því að vera í lágmarki sem og hringlur og svo raftæki. Sæng og uppáhaldsbangsi eða dúkka er alveg nóg. Fyrir utan hve mikið aukahlutirnir geta truflað, safnast líka ryk í þá.
4) Hafðu daglúr og nætursvefn ólíkan. Það skapar vissu fyrir barnið að venjast því að sofa í rúminu sínu á nóttunni en t.d. í vagni á daginn. Þannig áttar það sig á með tímanum að rúmið þýðir langur svefn. Það skiptir líka máli að hafa dimmt á nóttunni þegar sofið er og bjart á daginn.
5)  Skapaðu svefnrútínu því rútína skapar öryggi. Með afslöppuðum háttatíma sem er alltaf eins fer barnið fljótt í svefngírinn, þekkir þegar rútínan byrjar og fer ósjálfrátt að stilla sig inn á svefn. Eitthvað sem virkar fyrir fjölskylduna t.d. bað, náttföt, burstatennur, lesa bók, slaka á og sofa. Rútina er líka mjög gagnleg fyrir foreldrana því á erfiðari dögum þegar maður er þreyttur er auðveldara að koma sér í gegnum kvöldið ef rútínan er í lagi.
6) Gættu þess að ofsvara ekki barninu. Mörg börn rymja og stynja og láta heyra í sér en eru í raun enn sofandi. Því er gott að venja sig á að hlusta og hinkra og átta sig á stöðunni áður en maður fer inn og bregst við, oftar en ekki halda krílin áfram að sofa.
7) Notaðu svefnhljóð, gerðu alltaf sama hljóðið þegar þú heyrir að barnið er að rumska og gera sig líklegt til að vakna, hljóð eins og uss eða annað róandi suðandi hljóð, veitir barninu vissu um að foreldrið er til staðar og gefur því skilaboð um að halda áfram að sofa.
babyslee

Eiga börn að vakna á nóttunni?

Nýlega rakst ég á grein um svefn barna sem bendir á að það er eðlileg hegðun barns að vakna á nóttunni. Greinin er úttekt á rannsókn sem gerð var frá Swansea-háskóla í Whales og sýnir að flest börn undir eins árs vakna amk einu sinni á nóttunni, nú síðast ný rannsókn frá Swansea háskóla í Whales.

Spurningalisti var lagður fyrir 715 mæður barna á aldrinum 6-12 mánaða og þær spurðar út í svefnvenjur barnanna, hve oft þau vöknuðu og hvort þær nærðu börn sín þegar þau vöknuðu.

Niðurstöðurnar voru að 75% barna á þessum aldri vaknaði enn reglulega á nóttunni, amk einu sinni yfir nóttuna og sex af hverjum tíu börnum fékk að drekka mjólk í það minnsta einu sinni.

Annað sem var mjög áhugavert var að það var enginn munur á næturvöknun barna sem voru á brjósti eða á pela. Eins virtist ekki skipta máli upp á næturvöknum hve oft börnin nærðust yfir daginn eða hve margar máltíðir þau fengu. Mæður með börn á brjósti gáfu börnum sínum þó oftar að drekka á nóttunni.

hih-main-image

Meðgönguógleði

Morgunógleði, morgunógleði.

Jæja, barnið er á leiðinni, tilhlökkunin er til staðar en morgunógleðin rænir allri lífslöngun. Líkaminn er að fara í gegnum miklar breytingar, líf vex innra með þér og hormónarnir eru á fullu og líkamlegar breytingar eru miklar, það er alveg skiljanlegt að það taki á og okkur líði skringilega.

Þrátt fyrir að morgunógleði sé algeng, hvimleið og á stundum langdregin er furðu lítið búið að kanna hana og finna lausnir við henni. Góðu fréttirnar eru auðvitað að yfirleitt er ógleðin hætt innan 12 vikna- þó ekki algilt. Stundum fylgir ógleðin alla meðgönguna og getur orðið alvarlegt krítískt ástand og þá þarf auðvitað að sækja aðstoð til fagfólks og fá stuðning og viðeigandi aðstoð.

Eitthvað er þó hægt að gera og hér koma nokkur ráð en ef ég get einhvern tíma gefið gott ráð er það að fara varlega, ekkert liggur á og hvetja konur til að leyfa sér að hlusta á líkamann og líðan sína. Flest annað getur beðið. En hér er smá upptalning af húsráðum sem hafa virkað fyrir barnshafandi konur í kringum mig.  

Engifer í réttu magni léttir oft ógleðina, te, nammi eða kaldir drykkir hafa allir reynst vel. Sumum felur meir að segja að drekka engifer öl! Engar öfgar, ekki óverdósa á engiferi, hófsemi hjálpar.

engiferl

Setja nokkra dropa af piparmintu-ilmkjarnaolíu í bómull og þefa af því af og til, piparmintute getur líka slegið á ógleðina.

Þrýstipunktanudd getur gert kraftaverk. Svæðanudd er alltaf notarlegt og jafnar orku og nærir líkamann en ákveðnir þrýstipunktar eru sérlega gagnlegir þegar kemur að ógleði. Til að minnka ógleði er hægt að þrýst þremur fingrum fyrir ofan úlnliðinn, getur verið gott að fá aðstoð við þetta, þrýsta létt en þétt og halda í mínútu í senn og endurtaka þrisvar.

Coping with Common Pregnancy Discomforts_5

Nálastungur gera það sama og þrýstipunktanudd og geta svo sannarlega létt á ógleðinni, þú átt að geta fengið tíma hjá ljósmóður eða nálastungusérfræðingi ef ógleðin er mikil.

Hollur og góður matur minnkar yfirleitt ógleði og næg vítamín, ótrúlegt en satt, stundum langar manni bara í eitthvað mishollt þegar manni er óglatt en oftast eykur það bara ógleðina til lengri tíma. Snakk eins og ávextir, grænmeti og hnetur er gott að grípa í og mikilvægt að passa upp á próteinríka fæðu.

Litlir og reglulegir matarskammtar. Flestum gagnast vel að borða lítið í einu en oftar en þær eru vanar.

Mörgum finnst gott að taka Magnesium, meðgönguhormónin hægja á upptöku magnesium og því getur verið gott að fara í magnesium bað.

Í allri ógleðinni og vanlíðaninni má ekki gleyma að vera góður við sjálfan sig, hvílast og borða vel, það er ótrúlega orkufrekt ferli að framleiða barn, við eigum það alveg skilið að taka öllu með ró.

 

hih-main-image

Kona gleymir ekki fæðingunni sinni

Fæðingarreynslan er minning sem dvelur með okkur konum alla ævi og það er alveg ótrúlegt hvað hún er fersk í minninu alla ævi. Kannski má segja að fæðingarminningin sé sú minning sem hafi hvað mest áhrif á konur.

Konur muna fæðinguna sína yfirleitt í nokkrum smáatriðum og þó tíminn líði verður hún ljóslifandi um leið og talið berst að henni.

Það kemur kannski ekki á óvart en það sem konur muna helst er hvernig hugsað var um þær í fæðingunni og hvernig þeim leið með fólkinu í kringum sig. Konur muna betur hverjir voru í kringum þær og hvaða áhrif það hafði á líðan þeirra en nákvæmlega hvernig fæðingarútkoman var, hvort fæðingin hafi verið skráð sem góð, hröð, venjuleg eða eitthvað annað.

Þetta virðist eiga jafnt við aðstandendur og fagfólk. Konur muna hvernig var komið fram við þær, augnsambandið, hvort viðkomandi hafði áhuga á þeim eða ekki, andardráttinn og nærveruna, stök orð og umhyggju. Muna hvort hlustað var á þær, þeim hjálpað og þær studdar í gegnum ferlið. Hvort þær voru virtar og komið fram við þær af virðingu.

Konur muna líka yfirleitt hvaða tilfinning var innra með þeim í ferlinu og hvort þær upplifðu sig við stjórnvölinn eða ekki. Þessi tilfinning, að upplifa sig við stjórn og upplifa virðingu, er ein sterkasta minningin sem situr eftir með konum eftir fæðingu.

Konur sem upplifa gott teymi í kringum sig, þar sem þær eru studdar, efldar, hvattar áfram og á þær hlustað og þær virtar upplifa sig öflugri og sterkari á eftir. Konur sem hafa upplifað þennan stuðning tala oft um að þeim líði eins og þær geti allt, að þær séu einstakar og getumiklar og það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt veganesti sú tilfinning er út í lífið.

Það er gott fyrir barnshafandi konu að hafa þetta í huga, að fæðingarreynslan sé minning sem kona man og velta því fyrir sér hvernig best sé hægt að vernda fæðingarminninguna, pæla í því hvað skipti sig máli, hverjir eiga að vera með í fæðingunn og hvar konunni líður best.

Efst í huga okkar sem komum að fæðingum ætti alltaf að vera ,,hvernig mun hún muna eftir þessum degi?”

bobaforeldrar

Kostir barnaburðar

Kostir þess að nota burðarsjal eða poka eru fjölmargir og ávinningurinn fyrir foreldri og barn.

 1. Barnaburður veitir nánd, öll börn vilja vera mikið hjá foreldrum sínum og í fangi og njóta þess að kúra þétt í foreldrafangi. Talað er um að börn gráti mikið minna þegar þau eru í fangi umönnunaraðila, eða allt að 40% minna og í stað gráturs eru þau athugul, afslöppuð og jú stundum sofandi!
 2. Það er róandi að vera í burðarsjali og auðveldar foreldrum að róa og hugga börn sín, kannski sérstaklega þegar þau eru veik, að taka tennur eða ómöguleg.
 3. Í sjali er auðvelt að fylgjast með merkjum barnsins um líðan sína og barnið fær líka tækifæri til að fylgjast með umönnunaraðilanum náið.
 4. Þau sofa betur og lengur, flest börn sofna auðveldlega í foreldrafaðmi og með hreyfingu, ruggi og lykt frá umönnunaraðila eru þau rólegri og sofna frekar.
 5. Þú kemur meiru í verk. Það er ótrúlegt frelsi sem fylgir því að vera með báðar hendur lausar, matartími er þægilegri, það er hægt að halda á einhverju og án þess að það sé markmið, hægt að ganga heilmikið frá mér krílið þétt upp við sig.
doulapic

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.

 

 

 

birtha

Nokkur bjargráð í gegnum fæðingu

Öndun

 • leggja áherslu á útöndun
 • helmingi lengri útöndun en innöndun
 • dæs og stunur
 • horselips

Endurtekin hreyfing

 • standandi rugg, vanga, húlla með mjöðmunum
 • endurtekning sem skapar hrynjandi
 • ganga

Þrýstingur

 • styðja við axlir, ýta létt niður
 • snerta kjálka
 • þétt snerting
 • lyfta, hendur undir maga

Nudd

 • þrýstipunktar: ennispunktur, milli þumals og vísifingurs, tvo þumla fyrir ofan öxlabein
 • handanudd: brjóta kitkat
 • fótanudd: brjóta kitkat, kreista hæl og halda utan um fætur
 • bak: krossa yfir við mjaðma mittissvæði
 • bak: pálmatréð, stór og falleg laufblöð

Fyrir bakið

 • rúlla bakið
 • vatn á bakið
 • vera á fjórum fótum
 • þrýstingur á spjaldið
 • double hip squeeze
 • dhs með félaga
 • rebozo
 • The lunge

Hugaræfingar

 • telja
 • leidd slökun
 • sjálfstal, möntrur, staðhæfingar

Heitur /kaldur bakstur

 • á neðra bakið
 • á spöngina í / eftir fæðingunni
pregnancy-1566895

Jákvæðar staðhæfingar

Jákvæðar staðhæfingar eru í raun ákveðnar setningar endurteknar (oft í hljóði) og minna mann á manns innri styrk og vega oft vel upp á móti efanum sem á það til að læðast upp að manni.

Jákvæðar staðhæfingar geta hjálpað til á meðgöngu og í fæðingu til að róa hugann, minnka streitu og kvíða. Þær geta aðstoðað mann við að endurstilla hugann og bæta við jákvæðari hugsunum og tengingum en áður sem skilar sér svo í bættri líðan. Staðhæfingar nýtast svo oft á ögurstundu, þegar maður er í miðri fæðingu og gefa manni styrk og þol til að halda út aðeins lengur.

Hér eru nokkrar hugmyndir að staðhæfingum sem koma mörgum að gagni á meðgöngu og í fæðingu, nú eða bara hvenær sem er!

 • Ég er fullkomin eins og ég er
 • Ég tek breytingum á líkama mínum fagnandi
 • Lífið er kraftaverk, ég skapa kraftaverk
 • Ég og litla ófædda barnið mitt erum órjúfanleg heild
 • Ég elska mig og ófætt barn mitt
 • Ég er örugg og barn mitt er öruggt
 • Ég er sterk og öflug
 • Ég treysti mér og innsæi mínu
 • Ég treysti líkama mínum
 • Þetta er allt í lagi
 • Góðir hlutir gerast hægt
 • Ég er hönnuð til að ala og fæða barn.
 • Ég er sterkari en ljón, stöðugri en fjall.
 • Ég er góð móðir

Hvaða staðhæfingar er gott að nota er einstaklingsbundið og kona ætti alltaf að leitast við að nota staðhæfingar sem henni líkar, efla hana og styrkja en ekki velja einhverjar sem hafa litla merkingu. Málið er að ef maður endurtekur eitthvað sem hittir mann ekki í hjartastað þá skilar það ekki tilætluðum árangri. Oft er gott að finna staðhæfingu og laga hana að manni sjálfum. Skoða innra með sér hvað það er sem maður óttast eða finnur að vekur með manni ugg og dregur úr manni og búa til staðhæfingu sem tekur á því. Þegar við nýtum okkur staðhæfingar er gott að hafa þær í nútíð, fyrstu persónu og persónulegar. Þær verða að vera persónulegar svo þær fari inn að hjartarótum og nái að koma sér fyrir. Staðhæfingar sem maður tengir ekki við eru meira eins og vatn sem fellur á regnkápu.

Sem dæmi getur verið að kona óttist að verkirnir beri hana ofurliði og almennt kunni hún að meta hrósið að vera álitin sterk. Þá væri góð staðhæfing fyrir hana kannski ,,ég er sterk og get tekið þeim verkjum sem koma“ eða ,,andardrátturinn er minn styrkur“.
Önnur aðstaða getur verið að fyrri fæðing hafi verið erfið og óttinn felist helst í að komandi fæðing verði jafn erfið. Þá getur góð staðhæfing kannski verið ,,ég treysti líkama mínum í nýjum aðstæðum“, eða ,,ótti er tilfinning sem líður hjá. Þessi fæðing er eflandi upplifun“.

Það getur verið gott að skrifa staðhæfingarnar niður og líma á ísskápinn hjá sér eða deila með maka eða þeim sem verður með í fæðingunni. Þannig nýtast staðhæfingarnar ekki bara manni sjálfum heldur hefur maður gefið makanum líka þá gjöf að vita nákvæmlega hvað það er sem er hvetjandi og eflandi.

 

 

 

 

 

spot-10

Réttindi kvenna í fæðingu

Nokkur orð um mikilvægi þess að ráða  sínum stuðningsaðilum sjálf og tilmæli lsh.

19. júní árið 1915 fengu konur (og vinnuhjú) á Íslandi kosningarétt til Alþingis, reyndar með skilyrðum að aðeins 40 ára og eldri gætu kosið, aldurstakmarkið lækkaði svo frá ári til árs þar til ársins 1931. Áður höfðu konur fengið kosningarétt til bæjarstjórna.

Áður en þær fengu kosningarétt sátu karlmenn í ,,reykfylltum bakherbergjum“ og veltu því fyrir sér hvort að konum væri hreinlega treystandi til þess að kjósa. Menn óttuðust mjög að bæta svo mörgum kjósendum við kjörskrána og veltu því fyrir sér hvort að konur gætu kosið og tekið ákvörðun um hvað væri sér og fjölskyldu sinni fyrir bestu með kjörgenginu og sumir óttuðust að þeir sem þáþegar höfðu kosningarétt myndu missa allt vald. Sumir héldu því fram að konur hefðu einfaldlega ekkert fram að færa sem hefði erindi í stjórnmál.  Sem betur fer fengum við kosningaréttinn og það kom mörgum á óvart hve vel gekk ,,að leyfa“ konum að kjósa. Eftir því sem að árin liðu fækkaði gagnrýnisröddunum og væntanlega hefur verið hlegið að því þegar framliðu stundir að nokkur hafi sett sig upp á móti því að konur kysu og þótt fáránleg forræðishyggja.

Konur eru og voru fullfærar um að taka ákvarðanir er varða eigið líf og velferð. Í dag stöndum við uppi með betra samfélag en áður þrátt fyrir óttann sem fór um samfélagið.

Því er pínulítið kaldhæðið að á 100 ára kosningaafmæli kvenna, sátu nú líklega konur í ,,reykfylltu bakherbergi“ á Landspítalanum og komust að því að barnsfæðandi konum er ekki treystandi fyrir því að velja sér stuðningsaðila eða fjölda þeirra í fæðingu.

Tilmælin eru hér og segja að mælst sé til þess að aðeins einn stuðningsaðili ætti að vera viðstaddur og þó vissulega megi taka undir þau rök að fæðingin sé viðkvæmt ferli þar sem maður vill stuðla að ró er ætti samt að huga að því að fæðingarupplifun kvenna dvelur með þeim alla þeirra tíð og mikilvægt að kona finni stuðning frá þeim sem hún telur að sé best, óháð því hver það er.  Sem betur fer er tekið fram að ,,þeir vilji heyra óskir kvenna“ sem opnar smá glugga en setur barnsfæðandi konu þó í þá stöðu að þurfa ,,að fá leyfi“ í eigin fæðingu.

Margar verðandi nýjar fjölskyldur vilja helst af öllu vera tvo og útaf fyrir sig, mjög margar fjölskyldur kjósa að hafa einhvern nákominn með sér t.d. verðandi móðurömmu, systur eða vinkonu og einhverjir vilja hafa óháðan stuðningsaðila eins og doulu eða nuddara og í örfáum tilfellum vilja pörin hafa tvo stuðningsaðila með sér þ.e. parið plús tveir. Svo fyrir marga hafa þessi tilmæli ekki áhrif og væntanlega fagna einhverjar fjölskyldur því að þurfa ekki að ræða við fjölskyldumeðlimi um hverjir geti verið viðstaddir.

Í tilmælunum er eins og gengið sé út frá því að best væri að konan mætti ein á svæðið og taki með sér einn stuðningsaðila en ekki litið á parið, verðandi foreldra, sem heild og gert ráð fyrir að bæði mæti og vilji hafa með sér stuðningsaðila. Í dag göngum við alltaf út frá því að ef kona á maka að hún mæti með hann á staðinn og stundum gleymist það að pabbinn (eða foreldrið sem gengur ekki með barnið) þarf líka stuðning, hann ætti að fá að vera á staðnum sem fulltrúi síns sjálfs, verðandi foreldri sem þarf stuðning og hvatningu en ekki að vera stillt upp í að vera aðalstuðningsaðili konunnar sinnar og svo ,,redda“ sér sjálfur.

Flestir gera sér grein fyrir hve stór stund fæðingin er fyrir fjölskylduna, við sem höfum eignast barn munum stund og stað, við munum hvernig okkur leið og hvað hjálpaði og hvað ekki, við munum hvernig var komið fram við okkur og hvað hjálpaði og hvað ekki. Góð fæðingarreynsla getur því verið mjög valdeflandi en á sama tíma getur erfið reynsla tekið langan tíma að jafna sig á.

Við vitum að fæðingar eru allskonar og ekki alltaf hægt að sjá ferlið fyrirfram og upplifun konu af fæðingunni er einstök. ,,birth is in the eyes of the beholder“ eins og þeir segja á útlensku. Eitt af því sem hefur sýnt sig að stuðlar að jákvæðri fæðingarreynslu og að reynslan af fæðingunni sé jákvæð óháð því hvernig ,,pappírarnir“ eru er að fjölskyldan hafi ástúðlegan, samfelldan stuðning sem byggir á trausti.

Það er lítið hughreystandi að mega ekki koma með þann stuðningsaðila með sér sem maður vill og treystir og upplifa að maður verði að biðja um leyfi og auðvitað er líklegast að kona þori ekki að nefna það að maður vilji aukinn stuðning og fer því hrædd (hræddari) í fæðinguna. Í ferlinu sitja þá konur eftir með þá tilfinningu að einhvern hafi vantað. Sé fæðingin erfið og átakanleg verður eftirsjáin ,,ég vildi óska þess að ég hefði haft einhvern með mér“ en sé fæðingarminningin góð og ljúf felst eftirsjáin í að að hafa misst af því að deila stundinni með öðrum.

Við konur erum ekki vitleysingar, þó við séum barnshafandi, við vitum nær alltaf hvað er best fyrir okkur og í hvaða umhverfi við upplifum okkur sterkar og öflugar, við vitum hverja við viljum hafa í kringum okkur til að komast í gegnum aðstæður og enginn sem ekki þekkir til veit hvað er konu fyrir bestu.
Við erum líka fullfærar um að bera ábyrgð á ákvörðunum okkar, ef við viljum hafa marga í kringum okkur er væntanlega ástæða fyrir því sem við viljum kannski ekki segja með orðum. Og ástæðan á ekki að þurfa vera önnur en ,,bara“.  Svona smá útúrdúr er að starfsmenn dýragarða komust að því að apynjur fæddu ekki unga sína án þess að eldri kvenkynsættingi væri á staðnum. Líklega upplifa margar konur slíkt hið sama og verandi einar í fæðingu með einn stuðningsaðila getur verið til þess að þær eru hræddari, ósáttari og reynslan sýnir að við slíkar aðstæður dregst fæðingin óþarflega á langinn.
Skilaboðin sem felast í því að mælst sé til þess að kona komi aðeins með einn með sér á fæðingarvaktina eru að hún ráði ekki för. Hún er að ganga inn á svæði sem miðar að því að hún taki tillit til umverfisins en ekki öfugt, að umhverfið mæti henni þar sem hún er stödd.  Þar á hún að hlýða og gera það sem henni er sagt, í raun verið að taka fæðinguna svolítið úr höndunum á henni.

Barnshafandi konum og nýjum verðandi foreldrum er vel treystandi til að velja sína stuðningsaðila, við veljum út frá vilja og þörfum, þó það þóknist kannski ekki öllum. Svona rétt eins og með kosningaréttinn, okkur er veltreystandi til að kjósa, við kjósum út frá okkar bestu vitund, vilja og þörfum.

Newborn baby girl sleeping

Af hverju ekki framvísandi í burðarpoka?

Það er flestum léttir að nýta sér burðarpoka eða sjal og dásamlegt að hafa barnið þétt og öruggt í fanginu og oft vaknar þessi spurning, er ekki hægt að snúa barninu fram svo það sjái svolítið betur?

Auðvitað er það freistandi, barnið er í sömu augnstefnu og maður sjálfur og getur fylgst vel með og þetta getur verið heljarinnar stuð en þegar maður hugsar örlítið betur út í stöðuna á sér og barninu áttar maður sig á að líklega er það betra fyrir mann sjálfan og ekki síst barnið að það snúi að manni.

Mynd sem sýnir fína stöðu barns í burðarpoka.

 

Ákjósanleg staða fyrir barn í burðarpoka er þegar það fær stuðning út sem næst hnjám. Barnið situr með þungann á rassinum og stuðningurinn nær út við lærleginn og fæturnir eru gleiðir og mjaðmirnar stöðugar. Þegar barn snýr fram í burðarpoka er komið álag á mjaðmasvæðið, fæturnir þrýstast saman og niður. Það er ekki nægjanlegur stuðningur við mjaðmir og fæturnir dangla niður. Í þannig stöðu er barnið komið í stöðu sem það getur ekki undir eðlilegum kringumstæðum, litlir kroppar vilja vera með sveigt bak ( í C ) og fæturna dregnar saman ( í M stöðu við mjaðmir) og örlítið upp á við, svona púpulaga.

óbaby

Barn sem snýr fram þrýstist líka að líkama burðarmanns og verður að aðlaga sig líkamsgerð þess og oftast myndast óþægilegur þrýstingur við bak barnsins sem neyðir það til að vera með beint bak, lítil börn eru almennt með sveigt bak og álagið á efra bakið því orðið þónokkuð, á sama tíma og efra bakið þrýstist fram fara mjaðmirnar aftur sem er öfug staða við náttúrulega stöðu barns.

Mynd sem sýnir óæskilegt álag á fæturna.
Mynd sem sýnir óæskilegt álag á fæturna.

Í framvísandi burðarpoka má líka gera ráð fyrir að álag á kynfærasvæðið aukist, þar sem þau hanga meir en að sitja og er sérstaklega varhugavert fyrir drengi, þar sem þrýstingurinn er á öll ytri kynfærin og gera má ráð fyrir að við hreyfingu myndist líka meiri varmi við bleiusvæðið.

Oförvun er eitthvað sem gott er að hafa í huga og barn sem vísar fram kemst ekki í skjól undan áreitinu. Við sem erum orðin fullorðin áttum okkur oft ekki á áreitinu sem fylgir umhverfi okkar en fyrir barn sem er að læra er allt skynáreiti. Ljós, hlutir úr umhverfinu, hljóð og fólk verður til þess að það er auðvelt að vera fyrir oförvun, barnið nær ekki að melta umhverfi sitt og meta. Þau verða æst pata höndum og skríkja jafnvel en ná ekki að snúa sér í skjól frá áreitinu og hvíla sig um stund. Oförvun getur haft áhrif í nokkra stund á eftir, börnin eru æst og ná ekki að róa sig niður. Þegar barn er í burðarpoka sem snýr að burðarmanni, á það auðvelt með að grúa að burðarmanni og fá skjól frá áreitinu og stilla því sem það tekur inn í hóf.

Höfuð og háls barns fær heldur ekki nægjanlegan stuðning, þegar barnið er glaðvakandi og heldur ekki ef það fer að syfja eða vill snúa sér undan skynörvuninni, með óþarfa álagi á höfuð og háls.

bobafaceforward

Fyrir burðarmanneskjuna sjálfa er óþægilegra að hafa barnið framvísandi því líkami barnsins lagast ekki eins að með bakið við og ef það er maga í maga. Álagið verður meira á axlir og ekki ólíklegt að það rífi í. Það er líka erfiðara að lesa í merki barns og hljóð þegar það er framvísandi.

En hvað er þá til ráða þegar kona vill bera barnið sitt en bjóða því upp á að sjá umhverfi sitt betur en ef barnið vísar að manni?

Eitt ráð er að færa burðarsjalið/pokann aðeins út á hlið, nær mjaðmasvæðinu, þá sér barnið fram og aftur fyrir sig vel en er enn í góðri líkamsstöðu og getur snúið sér í skjól þegar það er búið að fá nóg. Annað sem hægt er að gera er að bera barnið á bakinu og passa að setja það svolítið ofarlega, þá fær barnið sömu augnsýn og burðarmaður en getur enn snúið sér í skjól.

bobaforeldrar

Nánari upplýsingar fást meðal annars hér og hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég vildi að ég hefði vitað (1)

Ég vildi að ég hefði vitað

Eldri stelpan mín er fjögurra ára gömul og oft finnst mér við vera jafngamlar. Hún hefur kennt mér mikið um lífið og margt um sjálfa mig.

Mér finnst ég hafa verið fljót að stilla mig inn á hana en suma daga tek ég svona ohh, ég vildi að ég hefði vitað, til daganna sem hún var lítil og ég vitlaus móðir og við að kynnast.

Ég vildi að ég hefði almennt vitað meira um brjóstagjöf. Hún tekur tíma, kona kemst varla á klósettið á milli gjafa. Það getur verið erfitt og vont og þreytandi að vera með barnið á brjósti. Ég vildi að ég hefði vitað hvernig þau sýna merki um svengd og ég vildi óska að ég hefði vitað að það er í lagi að finnast það ekki frábært að vera með barn á brjósti allan sólarhringinn.

Ég vildi að ég hefði vitað meira um nándarþörf barna og hve mismikil hún er eftir karakterum. Ég eignaðist stelpu sem þurfti mikla athygli og nánd og ég var 4 vikur að fatta það. Það er allt í lagi að halda á barninu allan sólarhringinn og hafa það hjá sér, upp við sig og með sér meðan allir eru sáttir.

Ég vildi að ég hefði áttað mig betur á mikilvægi hvíldar, nýtt sængurleguna betur í að liggja fyrir en ekki sýna hvað ég var hress nýbökuð móðir. Ég vildi að ég hefði fattað að það gerir kraftaverk að fara ekki á fætur fyrir hádegi og stundum ætti að vera uppáskrifað að kona eigi að leggja sig með barninu sínu.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn sofa mismikið og sum þeirra sofa jafnvel lítið. Ég vildi að ég hefði vitað hve mikilvæg regla, rólyndi og leggjur eru þegar kona á þannig börn. Ég vildi að ég hefði vitað að það er börnum eðlilegt að vakna 1-3 á nóttu allt fyrsta árið sitt.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn vilja nærast þegar mamman nærist, ég hefði getað sparað mér mikinn tíma við að reyna að fá hana til að sofa meðan ég borðaði. Lífið varð svo miklu einfaldara eftir að ég hætti að reyna.

Ég vildi að ég hefði vitað að ég þarf ekki að leyfa öðrum að halda á barninu mínu frekar en ég vil.

Ég vildi að ég hefði passað betur upp á heimsóknartímann strax eftir fæðingu og ég vildi að ég hefði slökkt á símanum oftar.

Ég vildi að ég hefði beðið mömmu um að koma oftar og stoppa lengur.

Ég vildi að ég hefði áttað mig fyrr á því að ég þarf ekki að vera betri húsmóðir en amma var. Þvotturinn bíður og draslið verður þarna að eilífu en litla stúlkan stækkar hratt.

Ég vildi að ég hefði fattað fyrr að ég þarf að hugsa vel um mig til þess að hugsa vel um fjölskylduna mína. Þegar ég er í jafnvægi þá er fjölskyldan mín það líka.

Ég vildi að ég hefði fylgt hjartanu enn meir alltaf alveg frá upphafi. Þegar kona tekur ákvörðun út frá hjartanu tekur hún rétta ákvörðun, alveg óháð velmeinandi frænkum, uppeldisbókum og öðrum uppeldissérfræðingum.

Ég vildi líka að ég hefði vitað að það er ekki hægt að vita fyrirfram hvernig kona upplifir foreldrahlutverkið og ég vildi að ég hefði áttað mig á hvað það er dásamlega frábært að kunna ekki neitt. Kannski reyndi fólk eftir bestu getu að segja mér þetta allt og reyndi jafnvel að troða því ofan í mig og ég hlustaði ekki.

Hefði einhver sagt mér fyrirfram að eftir fæðingu barnanna minna myndi ég leggja upp í stærsta, skemmtilegasta, dásamlegasta, erfiðasta og fyndnasta ferðalag lífs míns þar sem ég þyrfti að taka á öllu mínu alla daga og upplifi hæstu hæðir og dýpstu dali hefði ég líklega hlegið frekar hrokafullt og fullyrt að þannig yrði það ekki hjá mér.

Kannski hefði ég betur hlustað aðeins fyr.

Pistillinn birtist fyrst á foreldrahandbókinni 2011

Newborn baby girl sleeping

Taubleiur, spurt og svarað

Hvað þarf ég margar bleiur?

Fjöldi bleia fer eftir aldri og hve oft maður ætlar að þvo.

Nýfædd börn fara oft í gegnum um það bil 10 -12 bleiur á sólarhring og oftast er best að hafa nóg til skiptanna, maður kemst af með 14 bleiur en líklega er þægilegast að vera með um 24. Þannig kemst maður upp með að þvo annan hvern dag. Þegar börnin verða eldri þarf ekki að skipta jafn oft um bleiu, bleiurnar eru í minni notkun og ekki sama stressið með þvottinn. Þá er oft mælt með 15-20 bleium.

Nýburar: Mér hefur reynst best að byrja með cover og gas og fitted. Þá er gott að eiga 3-4 cover og um 20 gasklúta og/eða fitted. Velja cover sem passa frá fæðingu og endast svolítið áfram. Okkur fannst þægilegt að eiga nokkrar AIO/vasableiur líka sem við notuðum á ferðinni eða ef ömmur og afar voru að skipta.

Um og eftir sex mánaða færa margir sig yfir í annað kerfi eins og AIO eða vasableiur og þá er gott að eiga 14-20 bleiur. Sumir eiga bara eina tegund eins og t.d. Bumgenius freetime meðan aðrir blanda saman tegundum, eru kannski með vasa og AIO á daginn og nota svo prefold og cover yfir nóttina.

CoverLife_AquaSwirl

Hvaða bleiur eru bestar?

Hér er ekkert gott svar, fer eftir barni og foreldri, vaxtalagi, smekk og aðstæðum. Hvaða bleiur, bleiukerfi eða bleiutegund fer algerlega eftir smekk og um leið og þú ferð að spyrjast fyrir þá heyriru að svörin eru jafnólík og þau eru mörg.

 

Núna 2015 eru Best Bottom og Bumgenius Elemental í algeru uppáhaldi, ég vil helst líka hafa þær einlitar. Með miðjustelpuna mína sem fæddis 2010 voru Patapum-bleiur í uppáhaldi ásamt Montrossum, Happy Heinys og Bumgenius. Árið 2007 voru Swaddlebees í miklu uppáhaldi ásamt Bumgenius, Fuzzibunz og Montrössum.

Skiptir máli hvernig innleggin eru?

Þetta fer líka eftir smekk og barni en úrvalið er gott. Sumir vilja eingöngu lífræna bómull, meðan aðrir sækjast eftir Stay dry innleggjum. Það er hægt að fá bambus-innlegg og innlegg með minkee og svo binky líka (bambus plús minkee), sem og flísrenninga. Flestir vilja eitthvað mjúkt og rakadrægt næst barninu, eitthvað sem heldur vætunni vel frá en er rakadrægt. Á þessu heimili notum við lífræna bómull, stay dry og hamp-innlegg þessa dagana.

En hvað með kúkinn?

Við spáum flest í þetta til að byrja með en flestum finnst það minna mál en þeir halda í upphafi. Þegar nýburar skila frá sér getur verið gott að skola bleiuna svo það festist ekkert í henni en það þarf yfirleitt ekkert að skola bleiurnar hjá brjóstabörnum. Þegar hægðirnar fara svo að verða formaðari er upplagt að nota hríspappír inn í bleiurnar.

Hríspappír virkar þannig að maður setur þunnt lag af hríspappír í bleiuna milli bleiu og barnshúðar og ef barnið kúkar tekur maður einfaldlega pappírinn og hendir í ruslið með öllu sem í var og þrifin verða mikið einfaldari.

Almennt má segja að taubleiur haldi öllum sprengjum vel á sínum stað og margir segja að tauið haldi mikið betur en einnota bleiurnar.

hríspappír

Hvernig þvær maður bleiurnar?

Langeinfaldast að gera það bara í vélinni heima. Allir framleiðendur eru með þvottaleiðbeiningar fyrir sínar bleiur sem gott er að kynna sér vendilega.

Almennt má þvo allar bleiur á 40 og margar á 60. Ef maður er með prefold eða fitted má setja það óhikað á suðu (mín reynsla er sú að það hefur gefist vel að þvo á 60).

Langflestir nota milt og gott þvottaefni eins og Neutral eða C11 og Potion er líka vinsælt.

totsmynd

Sendu mér línu ef þú ert með fleiri spurningar!

 

 

form21_774x909

When survivors give birth

When survivors give birth er yfirtitill á bók og fyrirlestri eftir Penny Simkin og umfjöllunarefnið er hvaða áhrif það hefur á barneignarferli kvenna að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Penny var með fyrirlestur 21. apríl 2015 á Íslandi, einmitt í Lygnu og mig langar að deila með ykkur aðeins frá þeim degi.

Smá útúrdúr, survivor finnst mér vera gott og eflandi orð. Það er einhver sem lifir af, kemst af eða stendur uppi sem sigurvegari. Orðið nær fallega og valdeflandi utan um erfiða og sára reynslu. Mér er ekki kunnugt um annað orð í íslensku en þolandi sem er jú vissulega lýsandi fyrir það að viðkomandi hefur þurft að þola eitthvað en gefur ekki þessa von eða eflingu. Mig langar því að finna eitthvað gott orð sem er jafn skýrt og þolandi en fallegt og eflandi eins og survivor.

Það er erfitt að alhæfa um hvernig fæðingarreynsla kvenna verður, enda er um stóran og ólíkan hóp kvenna að ræða. Við vitum þó að fæðingarreynslan hefur mótandi áhrif á líf okkar og hún getur verið eflandi og hún getur gert okkur viðkvæmari.

Sumar konur sem upplifað hafa kynferðisofbeldi lýsa fæðingunni sem hluta af batagöngu, sigri sem tengir þær sjálfri sér meðan aðrar upplifa hana neikvæðari og jafnvel þannig að þær endurupplifi tilfinningar tengdar ofbeldinu.

Penny Simkin dregur fram nokkur atriði sem hjálpa konum að komast í gegnum fæðinguna sína á sem jákvæðastan hátt. Þetta plan kemur held ég öllum konum til góða:

– Fæðingaráætlun

Það getur verið sérstaklega hjálplegt að skrifa fæðingaráætlun, hafa hana persónulega og nefna hvað skiptir mann máli í fæðingunni, það getur verið gott að setja fram hvað hjálpar konu í erfiðum aðstæðum, hvað minnkar streitu og áhyggjur og hvernig gera megi aðstæður sem vinalegastar.

Það getur verið sérlega hjálplegt fyrir alla ef kona treystir sér til að skrifa um ótta sinn og áhyggjur og af hverju hann stafar. Það hjálpar öllum, stuðningsfólki og heilbrigðisfólki í að vera enn nærgætnara og skilningsríkara. Ef til dæmis ákveðin snerting eða ákveðin orð valda vanlíðan að koma því á framfæri svo fólkið í umhverfinu viti hvernig það getur stutt og styrkt.

– doula

Það er mjög styrkjandi að hafa einhvern sem er þarna bara fyrir ykkur og þekkir óskir ykkar og væntingar vel. Doula er svona eins og einkastarfsmaður fæðandi konu og styður ykkur í gegnum ykkar ferli. Doulur eru stuðningskonur fjölskyldunnar, starfa aðeins fyrir hana og fylgja konum samfellt í gegnum fæðinguna.

– núvitund

Penny talar alveg sérstaklega um að það sé mikilvægt fyrir konur að finna styrkinn í því að vera á staðnum að upplifa það sem þær eru að upplifa þ.e. fæðinguna og hvernig hún er. Meðan kona nær að halda fókus á að vera í fæðingu og vera við stjórnvölinn eru minni líkur á að hún endurupplifi erfiðar minningar og aðstæður. Margar konur hafa fundið leið til að lifa af ofbeldið með því að fjarlægjast sjálfum sér, flýja úr líkama sínum og vera fjarverandi þannig að þær finna lítið tengingu milli huga og líkama. Sú tækni var mjög mikilvæg þá en í fæðingu er gott að reyna að halda sér í núvitundinni til að minnka líkur á endurupplifun og panik og að fæðingarreynslan verði ekki svipuð minning og minningin um ofbeldið.

– æfð sjónræn hugleiðsla

Það getur verið gagnlegt á fyrstu stigum fæðingarinnar að hugsa um tíma þar sem manni leið vel, draga fram minningu eða viðburð sem var góður og minningin yljar manni og sjá hana fyrir sér. Það getur verið tími með maka þar sem allir voru ánægðir og afslappaðir, minning úr æsku eða staður þar sem maður er öruggur á. Mörgum finnst gagnlegt að sjá fyrir sér þessa minningu í gegnum hverja hríð í upphafi fæðingar.

Þegar komið er í virka fæðingu og framgangurinn er meiri og reynir á mann getur verið gott að hugsa um atburð þar sem maður komst yfir ákveðna hindrun eða áskorun. Það getur verið líkamleg áskorun eins og að hlaupa maraþon eða þegar maður yfirstígur ákveðinn ótta sem hefur hindrað mann. Þessi æfing getur verið hvetjandi í fæðingunni og komið konu í gegnum erfiðar áskoranir.

– að finna stjórnina

Það er mörgum konum mjög mikilvægt að finna að þær séu alltaf við stjórn í öllum aðstæðum, það veitir þeim öryggi og vellíðan og þannig ná þær að koma sér í gegnum erfiðar aðstæður. Það getur verið gott að átta sig á því í hverju sú tilfinning felst, hvernig er hægt að viðhalda henni og ákveða að ef aðstæður eru þannig að þá er hægt að ákveða að missa stjórnina og hafa þannig stjórn á stjórnleysinu ef svo má að orði komast.

 

 

 

 

 

 

Áttu smá tíma aflögu-

Áttu smá tíma aflögu?

Fátt ef nokkuð, jafnast á við að vera heima með nýjan fjölskyldumeðlim. Nýtt líf, nýir tímar, ný og óþekkt framtíð. Dásamlegt alveg.

Það kemur hinsvegar mörgum á óvart hve annasamir fyrstu dagarnir og vikurnar eru eftir að barnið er komið í heiminn. Álagið er síst minna þegar börnin eru fleiri en eitt. Það þarf að sinna börnunum, ganga frá, þvo og búa um rúmin.

Þetta er líka yfirleitt tíminn sem flestir eru boðnir og búnir að vera manni innan handar og aðstoða og oftar en ekki segir maður pent nei takk, vill ekki valda öðrum ónæði en stendur svo á haus sjálfur. Maður kann ekki við það að þiggja aðstoð, vill ekki viðurkenna fyrir sér eða öðrum að maður eigi fullt í fangi með nýja hlutverkið eða áttar sig ekki á því.

Þessar áhyggjur eru ástæðulausar, eins og áður segir flestir vilja allt fyrir mann gera. Í allra allra versta falli kemur eitt lítið því miður og það er varla endalok heimsins, maður snýr sér þá bara til næsta.

Svo í staðinn fyrir að afþakka boðna aðstoð hvernig væri að segja já takk eða senda vinum og ættingjum lítið óskabréf þar sem fram kemur hvað það geti gert fyrir mann. Hér eru nokkrar hugmyndir.

 • Viltu elda eitthvað gott og hollt fyrir okkur og skilja eftir hjá okkur. Þú þarft alls ekki að stoppa. Lasagne, ferskt pasta, kjúklingaréttur eða súpa kemur vel til greina.
 • Viltu skera niður ferska ávexti og færa okkur.
 • Þú mátt gjarnan kaupa það allra algengasta sem vantar á heimilið og skilja eftir við hurðina hjá okkur. Mjólk, safi, brauð og ávextir.
 • Þú mátt gjarnan kíkja við og setja í þvottavél og brjóta saman þvottinn sem er enn í körfunni. Það væri einnig vel þegið ef þú getur sópað á leiðinni út.
 • Endilega skiptu um á rúmunum og settu í vél. Þú mátt gjarnan skúra á leiðinni út.
 • Hvernig hljómar skemmtiferð með eldri börnunum? Kíkið í Öskjuhlíðina, húsdýragarðinn, í leikhús eða niður á tjörn. Endilega gefðu þeim hollan mat meðan þið eruð í burtu.
 • Endilega taktu til í ísskápnum og ekki spyrja mig út í hvað ég vilji eiga og hvað ekki. Ég treysti þér.
 • Viltu bjóða mér fótanudd og sendu manninn minn út að hitta félagana í smá stund, endilega haltu á nýja barninu meðan ég skýst í sturtu.
 • Ef þig langar í kaffi eða te, helltu upp á sjálf og færðu mér bolla.
 • Taktu ruslið með þér á leiðinni út og settu nýjan poka í.
 • Endilega gefðu mér gjafabréf upp á heimilisaðstoð þína t.d. andvirði 4 klukkustunda í tiltekt eða andvirði þriggja símtala
 • Ef þú hefur eitthvað sérstakt í huga sem þú vilt gera fyrir mig, ekki vera feimin við að nefna það. Ég segi í versta falli nei, en ef það er til þess gert að létta okkur lífið þiggjum við það að öllum líkindum.

Það munar svo ótrúlegu að fá aðstoð frá sínum nánustu á þessum magnaða tíma. Um að gera að nýta sér það. Ef maður er feiminn við að nefna það er hægt að segja feimnislega … ég sá svolítið sniðuga grein á hondihond.is sem heitir áttu smá tíma aflögu…

baekur

Undirbúningur skiptir máli

Stundum heyrir maður því fleygt að réttast sé að undirbúa sig ekki of mikið fyrir fæðingu og gera sér ekki of miklar vonir um útkomuna, því maður verður svo svekktur ef hlutirnir fara svo á annan veg.

Þetta hlýtur að vera sagt í góðri trú og til að vernda barnshafandi konur en sannleikurinn er samt sá að það margborgar sig að undirbúa sig vel fyrir fæðingu á allan hátt og því betur sem kona er undirbúin fyrir fæðingu því meiri líkur eru á að fæðingin fari á þá leið sem hún kýs. Það á við um allar fæðingar.

Góður undirbúningur er ekki trygging fyrir því að allt fari samkvæmt áætlun en maður hefur aukið líkurnar til muna. Liður í undirbúningi er líka að taka með sér æðruleysið og taka því sem að höndum ber.

Fæðing er nefnilega einn stærsti viðburður í lífi konu, ef ekki sá stærsti og það er alveg sama hvernig sú lífsreynsla verður, hún kemur til með að dvelja í huga konunnar lengi, ef ekki alla ævi. Fari allt vel man kona það og fari hlutirnir illa man kona það líka.

Kona sem fer vel undirbúin í sína fæðingu er betur í stakk búin til þess að vinna úr sinni reynslu t.d. ef fæðingin verður henni erfið. Af hverju?  Jú hún er nefnilega undirbúin, og yfirleitt þegar maður er undirbúinn er maður líka búinn að skoða ,hvað ef“-ið sitt ef hlutirnir fara ekki eins og maður leggur upp með.

Fæðing er stórviðburður, henni er oft líkt við maraþon eða fjallgöngu. Það er ágæt samlíking þó hún hafi svo sem sínar takmarkanir líka.

Þegar maður hittir einhvern sem ætlar í fjallgöngu þá er hinsvegar allt annað viðhorf til undirbúnings. Þá er talað um mikilvægi þess að vera vel undirbúinn, líkamlega sem og andlega. Fjallganga er þrekraun sem reynir á líkama og sál og allir vita að ef þú leggur af stað vanbúinn getur farið illa.

Hvernig fer í fjallgöngunni er að miklu leiti undir undirbúningnum komið. Það er ekki trygging fyrir því að allt fari vel en eykur líkurnar til muna. Liður í undirbúningnum er að vera í góðu líkamlegu formi, lesa sér til um fjallið og aðstæður, tala við fólk með reynslu af svæðinu, umkringja sig fólki sem hefur áhuga á því sem maður tekur sér fyrir hendur og góður aðbúnaður.

Engum heilvita manni dettur í hug að segja við fjallgöngumann ,,Ekki undirbúa þig of mikið. Þú verður svo hrikalega svekktur ef þú fótbrotnar á leiðinni upp og kemst ekki á toppinn einn þíns liðs. Tala nú ekki um svekkelsið ef þú þarft hjálp á miðri leið”.

Það vita allir að ef eitthvað kemur upp á í fjallgöngu að það eru ofboðsleg vonbrigði sem getur tekið langan tíma að jafna sig á. Vel undirbúinn fjallgöngumaður er hinsvegar fljótari að jafna sig á vonbrigðunum, því hann var undirbúinn og áttar sig á því að hann hafði gert allt sem í sínu valdi var og svo fór sem fór.

En hér gildir sama lögmál, góður undirbúningur eykur líkurnar á góðri útkomu en auðvitað er ekki hægt að ganga að útkomunni. Því er um að gera að sökkva sér í bókalestur, umvefja sig jákvæðum fæðingarsögum, sækja slökun og fara á mörg námskeið og njóta þess að vera að undirbúa stærsta viðburð lífsins.

Muna svo eftir æðruleysinu og að það er í góðu lagi að skipta um áætlun þegar stóra stundin rennur upp.

Ilmkjarnaolíur á meðgöngu

Ilmkjarnaolíur hafa í gegnum aldirnar verið notaðar til lækninga og hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Ilmkjarnaolíur geta haft góð áhrif á líkama og sál og eru meðal annars notaðar til þess að draga úr spennu og streitu og róa hugann.

Ilmkjarnaolíur geta komið að góðu gagni á meðgöngu og í fæðingu.

Noktun ilmkjarnaolía er nokkuð auðveld. Það er hægt að spreyja í andrúmsloftið, nota til innöndunar, blanda í nuddolíu eða setja út í baðið. Ilmkjarnaolíur skal ætíð blanda við grunnolíu áður en þær eru settar á húð til dæmis vínberjaolíu (grapeseed), möndluolíu, sólblómaolíu og jarðhnetuolíu. Mikilvægt er að nota hreinar ilmkjarnaolíur því gerviefni gefa aðeins lykt en gera ekkert annað gagn. Sumar ilmkjarnaolíur henta betur en aðrar á meðgöngu og margar olíur á beinlínis aðforðast að nota.

Almennt er talið óhætt að nota Lavender, Bergamot, Chamomile roman, Neroli, Geranium, Rose, Jasmin og Ylang Ylang ásamt fleiri. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig er gott að nota ekki ilmkjarnaolíur fyrsta þriðjung meðgöngunnar.
Olíurnar hafa hver sína virkni til dæmis er Lavender er mjög góð alhliðaolía, hún er græðandi og slakandi fyrir líkama og huga. Hún er meðal annars góð við höfuðverk. Chamomile roman er róandi og verkjastillandi og góð við svefnleysi og gegn þunglyndi.Bergamot er frískandi, verkjastillandi og sótthreinandi. Bergamot er gott gegn kvíða,depurð og er verkjastillandi. Geranium er frískandi, róandi og bætir blóðrásina. Geranium er gott við bakverkjum, bólgnum ökklum. Það hreinsar og jafnar húðina. Það er auðvelt að nálgast ítarlegar upplýsingar um virkni ilmkjarnaolía meðal annars á netinu og upplagt að kynna sér olíurnar vel áður en maður notar þær. Neroli vinnur með taugakerfinu, er róandi og hjálpar til með öndun og vinnur gegn þunglyndi.
Það er mjög þægilegt að nota ilmkjarnaolíur í bað, best er að setja fjóra til fimm dropa í feita mjólk, rjóma eða hunang, hræra vel saman og blanda út í baðvatnið.Hunangið eða rjóminn er notað til þess að olían fljóti ekki ofan á vatninu.

Slakandi baðblanda 1

6 dropar lavender eða

Slakandi baðblanda 2

2 dropar lavender 2 dropar Chamomile

Baðblanda 3

2 dropar bergamot

1 dropi neroli
Til þess að gera góða nuddolíu skal setja 2 til 3 dropa af ilmkjarnaolíu í 10 ml grunnolíu.Góðar grunnolíur eru meðal annars vínberjasteinsolía, sólblómaolía, ólívuolía.

Nuddolía

20 ml vínberjasteinsolía (grunnolía)

3 dropar lavender2 dropar chamomile

Nuddolía fyrir þreytta fætur

20 ml sólblómaolía (grunnolía)

2 dropar geranium

1 dropi lavender

Nuddolía til að nota í fæðingu

30 ml vínberjasteinsolía (grunnolía)

4 dropar lavender

2 chamomile roman

1 dropi neroli

Nuddolía í fæðingu

30 ml vínsteinsolía (grunnolía)

2 dropar rose

2 dropar geranium

1 dropi lavender

Þegar ilmkjarnaolíur eru notaðar til innöndunar er gott að setja einn eða tvo dropa af ilmkjarnaolíu í pappír eða klút og bera að vitum sér. Ef notað er úðatæki er gott að setja3-4 dropa af ilmkjarnaolíu og í úðabrúsa er gott að setja 10 dropa í 100 ml af vatni, hrista vel og spreyja allt í kringum sig.

Úðabrúsablanda 1

100 ml vatn

3 dropar geranium

3 dropar frankincence

Úðabrúsablanda 2

100 ml vatn

3 dropar geranium

2 dropar lavender

2 dropar rose

Hér er frábær íslensk vefsíða með upplýsingum um ilmolíur  http://ilmandi.is

tasur

Viðbrögð við erfiðri fæðingu

Fæðing er líklega ein stærsta stund í lífi konu og upplifunin dvelur með okkur lengi. Þær eru líka allskonar og sitja mislengi í okkur. Flestar erum við þannig að við viljum tala um og deila reynslu okkar en það getur verið erfitt að tala um erfiða fæðingarreynslu því viðbrögðin eru svo misjöfn. Eftir erfiða fæðingu eru konur, vinir og ættingjar stundum eins og í lausu lofti, vita ekki alveg hvernig þeir eiga að vera eða ekki vera.

Ef fæðingin er átakamikil reyna velmeinandi ættingjar og vinir og jafnvel heilbrigðisstarfsmenn að hughreysta konu en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að koma orðum að því. Orðasambönd og klisjur sem eru endurteknar ef kona reynir að ræða reynslu sína, stundum af góðum hug en oft líka til að þagga niður í óþægilegri umræðu.

Það tekur mismikið á en það getur verið íþyngjandi að hlusta á hughreystandi orð en upplifa alls enga huggun við að heyra þau.

Mikilvægt er að reyna að muna að hver og einn upplifir sína fæðingu á sinn hátt og hvernig aðrir upplifðu sína fæðingu hefur ekkert að gera með okkar reynslu. Gott að geta samglaðst en það er ekki alltaf hægt að samsama sig reynslunni.

Huggunarorðin eru oft á þá leið;

Þú kemur til með að gleyma sársaukanum!
Jú, það er oft rétt að margar konur gleyma sársaukanum en það er mikið frekar ef kona hefur átt venjulega fæðingu. Konur sem hafa upplifað fæðingartrauma muna einmitt eftir sársaukanum og endurupplifa hann jafnvel aftur og aftur og aftur jafnvel svo mikið að þær geta ekki hugsað sér að eignast annað barn.
Vissulega dofnar tilfinningin með tímanum, svona rétt eins og ef kona getur hugsað til baka og munað eftir sársauka sem fylgdi handleggsbroti að þá dofnar tilfinningin með tímanum.

Það eina sem skiptir máli er að þú eignaðist heilbrigt barn.
Enn á ný, jú það er mjög ánægjulegt og mikilvægt að eignast heilbrigt barn en það er alls ekki það eina sem skiptir máli.
Þó barnið sé heilbrigt er það ekki sama sem merki þess að konu líði vel, að hún og hennar upplifun skipti ekki neinu máli og það sé óþarfi að huga að henni bara því barnið er heilbrigt.
Það skiptir miklu máli að barnið sé heilbrigt og það skiptir líka miklu máli hvernig kona upplifði fæðinguna og sjálfa sig og það skiptir máli að gefa sér tíma í að syrgja upplifunina og takast á við þær tilfinningar sem koma. Móðir og barn skipta máli, upplifun og útkoma geta verið jafnmikilvæg.

Reyndu bara að gleyma þessu.
Það er erfitt, ef ekki ógjörningur, að láta sem viðburður á við barnsfæðingu hafi ekki gerst. Svo ekki sé sagt að þegar hann er erfiður og átakanlegur. Það eru allar líkur á því að kona sem hefur upplifað erfiða fæðingu hugsi mikið um fæðinguna sína, fái óþægileg flashback og endurupplifi atvik úr fæðingunni, jafnvel svo að hún nær ekki að hvílast eða slaka á.
Þegar brugðist er við á þann hátt að konur eru hvattar til að gleyma atburðinum er í raun verið að biðja hana um að tala ekki um upplifunina, hún kemur varla til með að gleyma honum svo glatt.

Þú ættir að hafa …(fyllið sjálf í eyðurnar- gert eitthvað annað) fætt heima, fengið verkjastillingu/ ekki fengið verkjastillingu, fætt í Reykjavík/Akranesi, farið í sund. Þú hefðir átt að ….

Það getur vel verið að ef ef ef ef hefði virkað og einhver annar hefði getað komið með betri fæðingu sem hefði ekki leitt til þess að niðurstaðan var sú sem hún var eða tilfinningin sem eftir er væri önnur.
Það er hinsvegar þannig að það er alveg sama hve mikið kona fær að heyra um allt sem hún hefði getað gert eða hugsar um allt sem hún hefði getað gert eða ekki gert það breytir ekki orðnum hlut og það breytir ekki tilfinningunni sem situr eftir og í öllu falli mjög ólíklegt að konu líði betur af því að fá gagnrýni eða ráð um hvernig hún hefði getað tæklað aðstæður betur.
Aðstæður eru oft á þann veg akkúrat þegar kona er að takast á við þær að það er ekki hægt að fá það sem maður vildi helst eftir á. Með því að sættast við það þokast kona aðeins áfram í sáttaferlinu. Það er að sjálfsögðu hægt að nýta fyrri reynslu til að hjálpa manni í að taka ákvarðanir fyrir framtíðina en fortíðinni breytir maður ekki.

Þegar kona segir frá fæðingarreynslu sinni ætti maður ekki að reyna að breyta upplifun hennar eða gera lítið úr henni heldur bara hlusta og fá að heyra hvernig hún upplifði akkúrat þessa stóru stund og þannig kannski hjálpa pínulítið til við að plástra sárið á sálinni.

Streituröskun í kjölfar erfiðrar fæðingar er nefnilega mjög eðlileg, hún er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum og erfiðum aðstæðum.

!