Áttu smá tíma aflögu?

Fátt ef nokkuð, jafnast á við að vera heima með nýjan fjölskyldumeðlim. Nýtt líf, nýir tímar, ný og óþekkt framtíð. Dásamlegt alveg.

Það kemur hinsvegar mörgum á óvart hve annasamir fyrstu dagarnir og vikurnar eru eftir að barnið er komið í heiminn. Álagið er síst minna þegar börnin eru fleiri en eitt. Það þarf að sinna börnunum, ganga frá, þvo og búa um rúmin.

Þetta er líka yfirleitt tíminn sem flestir eru boðnir og búnir að vera manni innan handar og aðstoða og oftar en ekki segir maður pent nei takk, vill ekki valda öðrum ónæði en stendur svo á haus sjálfur. Maður kann ekki við það að þiggja aðstoð, vill ekki viðurkenna fyrir sér eða öðrum að maður eigi fullt í fangi með nýja hlutverkið eða áttar sig ekki á því.

Þessar áhyggjur eru ástæðulausar, eins og áður segir flestir vilja allt fyrir mann gera. Í allra allra versta falli kemur eitt lítið því miður og það er varla endalok heimsins, maður snýr sér þá bara til næsta.

Svo í staðinn fyrir að afþakka boðna aðstoð hvernig væri að segja já takk eða senda vinum og ættingjum lítið óskabréf þar sem fram kemur hvað það geti gert fyrir mann. Hér eru nokkrar hugmyndir.

 • Viltu elda eitthvað gott og hollt fyrir okkur og skilja eftir hjá okkur. Þú þarft alls ekki að stoppa. Lasagne, ferskt pasta, kjúklingaréttur eða súpa kemur vel til greina.
 • Viltu skera niður ferska ávexti og færa okkur.
 • Þú mátt gjarnan kaupa það allra algengasta sem vantar á heimilið og skilja eftir við hurðina hjá okkur. Mjólk, safi, brauð og ávextir.
 • Þú mátt gjarnan kíkja við og setja í þvottavél og brjóta saman þvottinn sem er enn í körfunni. Það væri einnig vel þegið ef þú getur sópað á leiðinni út.
 • Endilega skiptu um á rúmunum og settu í vél. Þú mátt gjarnan skúra á leiðinni út.
 • Hvernig hljómar skemmtiferð með eldri börnunum? Kíkið í Öskjuhlíðina, húsdýragarðinn, í leikhús eða niður á tjörn. Endilega gefðu þeim hollan mat meðan þið eruð í burtu.
 • Endilega taktu til í ísskápnum og ekki spyrja mig út í hvað ég vilji eiga og hvað ekki. Ég treysti þér.
 • Viltu bjóða mér fótanudd og sendu manninn minn út að hitta félagana í smá stund, endilega haltu á nýja barninu meðan ég skýst í sturtu.
 • Ef þig langar í kaffi eða te, helltu upp á sjálf og færðu mér bolla.
 • Taktu ruslið með þér á leiðinni út og settu nýjan poka í.
 • Endilega gefðu mér gjafabréf upp á heimilisaðstoð þína t.d. andvirði 4 klukkustunda í tiltekt eða andvirði þriggja símtala
 • Ef þú hefur eitthvað sérstakt í huga sem þú vilt gera fyrir mig, ekki vera feimin við að nefna það. Ég segi í versta falli nei, en ef það er til þess gert að létta okkur lífið þiggjum við það að öllum líkindum.

Það munar svo ótrúlegu að fá aðstoð frá sínum nánustu á þessum magnaða tíma. Um að gera að nýta sér það. Ef maður er feiminn við að nefna það er hægt að segja feimnislega … ég sá svolítið sniðuga grein á hondihond.is sem heitir áttu smá tíma aflögu…